Helgun & Friður

Helgun & Friður

Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Heb 13-7-8

Virðið fyrir yður ævi þeirra sem á undan fóru og líkið eftir trú þeirra – Hvers vegna legg ég svo mikla áherslu á þetta?

Það er fátt sem sýnir betur hvernig hægt er að upplifa Guð og kraft hans en frásögur af lífi og afrekum þeirra sem á undan okkur fóru. Þessir vitnisburðir sýna berlega hvernig lífi þessar hetjur lifðu. Kærleikinn, helgunin, trúfestin og hugrekkið sem þau sýndu til að lifa í vilja Guðs, stöðug fórn fyrir Guð og menn.

Líf manna eins og William Branham, John G.Lake, Smith Wigglesworth og kvenna eins og Kathryn Kuhlman, Maria Woodworth Etter, Aimee Semple McPherson nær okkar tíð, en svo að sjálfsögðu lærisveinarnir og postularnir þar sem líf Jesús Krists er undirstaða okkar allra. Ég get nefnt marga aðra sem hafa haft mikil áhrif á mig en þessar fyrst nefndu trúahetjur hér að ofan eru líklega með þeim þekktari sem voru uppi á síðustu öld. Þekkir þú líf þeirra og ertu að líkja eftir trú þeirra?

Til eftirbreytni

Ég er viss um að ef þessir vitnisburðir, þessar sögur um samfélag manna við Guð væri þekktar meðal fólks í dag, væri staðan ekki eins slæm og hún er andlega. Það virðist vera að djöflinum hafi tekist að einhverju leiti að hylja yfir þessa vitnisburði með illum orðrómi og öðrum brögðum, þannig að sú arfleifð sem okkar kynslóð átti að erfa er oss hulinn og gleymd. Það er óskiljanlegt að þessar sögur skulu vera að mestu leiti óþekktar og ókenndar í kirkjum og söfnuðum heimsins. Við höfum þó enn tækifæri til þess að gera betur.

Þetta eru sterkar fyrirmyndir eins og persónur Biblíunnar. Í þessu tilfelli er sagan nær okkur og heimildirnar ekki svo ýkja gamlar. Það ætti að gefa okkur öllum von um að með réttri Guðsdýrkun og helgun er enn möguleiki á að sjá kraft Guðs starfa kröftuglega á meðal okkar.

Það krefst hugrekkis að vitna fyrir öðrum og að vera öðruvísi. Það eru nýleg dæmi sem sýna það að ef einhver minnist á eitthvað sem ekki er vinsælt í heiminum, flæðir yfir viðkomandi árásir og ofsóknir. Engan ætti að undra, lærisveinarnir gengu í gegnum nákvæmlega það sama og gáfu flestir á endanum líf sitt fyrir að segja sannleikann.

Helgun og friður

Það er á hreinu að það er engin leið fyrir okkur að verða eins og þær fyrirmyndir sem ég nefndi áðan, án Krists. Það var einmitt sú opinberun sem knúði allt þetta fólk til þess að leita Guðs af öllu hjarta og ávöxturinn af því var sannur friður.

Ég er að lesa klassíska kristna bók sem heitir, The Pursuit of God, eða Leitin að Guði – eftir A.W. Tozer sem var uppi á síðustu öld. Hún fjallar meðal annars um helgun og hvernig við finnum vilja Guðs.

A.W. Tozer (1897-1963) skrifar í inngangi bókarinnar. Sannur sálarfriður, ávöxtur þeirra sem raunverulega leita Guðs, er sjaldséður hjá Kristnum í dag (skrifað snemma á 20 öldinni). Allt of margir hafa sæst á að ófriður sé hluti af raunveruleikanum og hafa hætt að leita Guðs af öllu hjarta.

Jóh 14:27

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

Það er raunverulegur friður í boði í dag og hann finnur þú aðeins í Guði.

Friður er hugafar og í Kristi er eilífur friður og sálarró. Hvað sem á dynur í heiminum, þínu lífi eða í þinni þjóð. Ef þú leitar Guðs raunverulega af öllu hjarta, alla daga og átt persónulegt samfélag við Hann. Þá á ekki einu sinni ótti við dauðann að hafa áhrif á þig.

Helgun er sú leið sem allir þufa að fara!

Það er sorgleg staðreynd að maðurinn hefur snúið sér frá því að dýrka skapara sinn yfir í það að dýrka hið skapaða. Eftirsókn eftir hlutum er djúp þrá sem flestir stjórnast af í dag, útlitsdýrkun, stöðudýrkun og svo mætti lengi telja. Hvað segir Jesús um allt þetta?

Matt 16:25

Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.
Fyrir þá sem vilja komast nær Guði

Jesús sagði sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér! Ef við náum að gjörsigra alla eftirsókn eftir vindi og dauðum hlutum, sem engin tekur með sér eftir að þessu lífi lýkur. Þá finnum við raunverulega lífið og öðlumst raunverulegan frið.

Vers um Helgun

Róm 12:1-2

Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. -2- Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Kól 3:1-2

Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. -2- Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er.

Heb 12:14

Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.

1. Þess 4:7

Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.

2. Kor 7:1

Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.

Heb 12:10

Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.

Guð er heilagur og til þess að finna Hann þá þurfum við að vera heilög. Tökum eitt skref í einu og biðjum Guð að sýna okkur hvað við getum gert til þess að vinna þennan sigur sem allir menn þurfa að vinna vilji þeir finna Guð.

Látum Orð Guðs tala til okkar og verum ekki aðeins áheyrendur, heldur gerendur og tökum háttaskipti hugarfarsins. Helgum okkur af öllu hjarta og sigrum þessa öld eins og trúarhetjurnar gerðu á öldum áður.

Náð Guðs veri með yður.

“To be in Christ – that is redemption; but for Christ to be in you – that is sanctification!”
― W. Ian Thomas

Páskar / Pesach / Passover

Páskar / Pesach / Passover

Í þessari grein langar mig að varpa ljósi á hina raunverulegu páskahátíð Drottins eins og um hana er ritað í Biblíunni. Þetta er ein af helgustu hátíðum bæði gyðinga og kristinna manna, því hún fjallar um frelsisverk Drottins. Af hverju gerum við það sem við gerum í dag, hvar byrjaði það og er uppruninn frá Guði eða einhverju allt öðru? Því miður hefur hinni heilnæmu kenningu og sannleikanum verið skipt út að miklu leiti fyrir hjáguðadýrkun og heiðna siði. Páskasiðir nútímans eru þar engin undantekning. Við skulum fara í Orðið og lesa hvað það hefur að segja um páskana og skoða hvernig Jesús Kristur uppfyllti þessa hátíð með lífi sínu og fórn.

Uppruni Páskanna | 2. Mósebók 12 kafli

Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: -2- Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. -3- Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. -4- En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. -5- Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. -6- Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. -7- Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. -8- Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. -9- Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innyflum. -10- Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. -11- Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins. -12- Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. -13- Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. -14- Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli. -15- Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael. -16- Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. -17- Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli. -18- Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins. -19- Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur. -20- Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð. -21- Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu. -22- Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. -23- Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður. -24- Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. -25- Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. -26- Og þegar börn yðar segja við yður: Hvaða siður er þetta, sem þér haldið? -27- þá skuluð þér svara: Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.

3.Mósebók 23:4-8

Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma. -5- Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins. -6- Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. -7- Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. -8- Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu.

Drottinn frelsar Ísrael

Hér fyrir ofan er talað um upphafið af þeirri hátíð Drottins sem kallast Páskar, einnig nefnt Passover eða framhjáganga. Þessi hátíð á að vera haldin árlega til minningar um að Drottinn varðveitti börn Ísraelsmanna og leiddi þá út úr þrældómi Egyptalands inni í fyrirheitna landið.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga í versunum hér að ofan.

  • Upphafsmánuður Ísraelsmanna heitir “Nisan” líkt og upphafsmánuður okkar heitir “Janúar”.
  • Það átti að taka lambið þann 10. Nisan og varðveita það til hins 14. Nisan eða í 4 daga.
  • Dagar eru taldir á milli þess sem sól sest hjá Ísraelsmönnum og fellur yfirleitt í kringum kl. 18:00, ekki á miðnætti eins og á sólardagatalinu okkar.
  • Páskar hefjast þann 14.Nisan við sólsetur og var lambinu slátrað um sólsetur og blóðinu dreypt á dyratréð og dyrastafina og um nóttina átti að eta kjötið.
  • 14. Nisan er einnig aðfangadagur og undirbúningur fyrir “Hátíð hinna ósýrðu brauða”, þar sem allt súrdeig er flutt úr húsum og allt gert klárt fyrir hin árlega hvíldardag.
  • 15. Nisan er árlegur hvíldardagur og fyrsti dagurinn í hátíð hinna ósýrðu brauða. Mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi dagur er ekki sami hvíldardagur og hinn vikulegi “Shabbat” þó að það geti hist þannig á í okkar sólardagatali.

Jesús uppfyllir þessa hátíð/skuggamynd með lífi sínu og dauða á krossi

Við skulum byrja á því að sjá að það er engin leið að telja þrjá daga og þrjár nætur ef Jesús var krossfestur á föstudegi og reis upp fyrir sólarupprás á sunnudegi. Við skulum reyna það og sjá hvað við fáum út.

  1. Jesús er krossfestur um kl. 09:00 að morgni, og um háeigi varð myrkur um allt land til nóns eða kl. 15:00 og þá kallaði Jesús hárri röddu “Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!”, og svo gaf hann upp andann.
  2. Jesús deyr því um kl. 15:00 og við skulum segja að það sé föstudagur. Jósef frá Arímaþeu fer til Pílatusar og biður um líkama Jesú því það var aðfangadagur og mikilvægt að koma líkama Jesú í gröf áður en hvíldardagurinn færi í hönd.
  3. Við sjáum því að Jesús er lagður í gröfina rétt áður en hvíldardagur hefst og við skulum segja að það sé hinn vikulegi “Shabbat” eða hvíldardagur gyðinga. Hér eru því mesta lagi liðnar um 3-4 klst. frá því að Jesús gefur upp andann þar til hann er lagður í gröfina.
  4. Það segir svo í Orðinu að konurnar hefðu komið í dagmál hinn fyrsta dag vikunnar sem er sunnudagur á meðan enn var dimmt og sáu að gröfin var tóm og Jesús þegar upprisinn. Það eru því um 24 klst. + 12 klst. eða um 40 klst.
  5. Það er því engin leið að ná þremur dögum og þremur nóttum með þessari leið. Það er bara ekki hægt að telja þrjá daga og þrjár nætur ef að Jesús á að hafa verið krossfestur á föstudegi.

Er þá Orð Guðs ekki rétt ?

Orð Guðs er sannleikur og Guð er gríðarlega nákvæmur, við sjáum það bara á fyrirmælum hans varðandi undirbúning á páskamáltíðinni sem og aðrar hátíðir, fyrirmyndina af því hvernig musterið átti að byggjast og margt fleira, Guð fer niður í algjör smáatriði og ef við sjáum eitthvað í Orðinu sem virðist vera í þversögn þá þarf bara að rannsaka ritningarnar og leita að sannleikanum.

Orðskviðirnir 25:2

Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál.

Ef við skoðum aðeins það sem ég punktaði hér að ofan sjáum við nokkur atriði sem vert er að skoða betur.

Atburðarrásin

Jesús og lærisveinarnir byrja kvöldið þann 14.Nisan á því að borða saman páskamáltíðina. Þessi máltíð er þekkt sem síðasta kvöldmáltíðin þar sem síðar um nóttina er Jesús tekin höndum í garðinum Getsemane. Jesús er svo leiddur fyrir ráðið þar sem hann er yfirheyrður og síðar leiddur til Pílatusar og Heródesar sem fundu enga sök hjá Honum. Þessa nótt er Jesús húðstrýktur og framseldur til krossfestingar. Um morguninn er svo Jesús krossfestur í kringum klukkan 09:00, það er enn 14.Nisan þegar þetta á sér stað þar sem dagurinn er frá sólsetri til sólseturs hjá gyðingum. 14.Nisan er einnig aðfangadagur og undirbúningur fyrir hátíð hinna ósýrðu brauða, þar sem Ísraelsmenn áttu að fjarlægja allt súrdeig úr húsum sínum og gera klárt fyrir þá hátíð sem varir í 7 daga. Fyrsti dagurinn eða 15.Nisan er sérstakur árlegur hvíldardagur sem fylgir þessari hátíð og hittir ekki endilega á hinn vikulega hvíldardag samkvæmt boðorðinu.

Markúsarguðspjall 15:42-46

Nú var komið kvöld. Þá var aðfangadagur, það er dagurinn fyrir hvíldardag. -43- Þá kom Jósef frá Arímaþeu, göfugur ráðsherra, er sjálfur vænti Guðs ríkis. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú. -44- Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn. -45- Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið. -46- En hann keypti línklæði, tók hann ofan, sveipaði hann línklæðinu og lagði í gröf, höggna í klett, og velti steini fyrir grafarmunnann.

Þá skulum við sýna fram á í Orðinu að þessa viku þegar Jesús er krossfestur hafi í raun verið tveir hvíldardagar, hinn árlegi hvíldardagur hinna ósýrðu brauða á fimmtudegi og svo hinn hefðbundni hvíldardagur á laugardegi.

Markúsarguðspjall 16:10

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Lúkasarguðspjall 23:56

Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Þær fara þann 16.Nisan sem er föstudagur, eftir að hvíldardagurinn þann 15.Nisan var liðinn, sem var hvíldardagur hinna ósýrðu brauða og kaupa ilmsmyrsl. Þær snúa svo aftur og byrja að undirbúa smyrslin um daginn þann 16.Nisan og við sólsetur um kvöldið hefst svo hinn vikulegi hvíldardagur, sem er laugardagur samkvæmt boðorðunum tíu og þá héldu þær kyrru fyrir. Það er svo um morguninn hinn fyrsta dag vikunnar sem þær koma að gröfinni og sjá að hún er tóm og að Jesús er upprisinn.

Lúkasarguðspjall 24:1-3

En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. -2- Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, -3- og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Orð Guðs sýnir skýrt að þessi atburðarrás passar 100% við þau vers sem segja að Jesús myndi vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar og þessi atburðarrás sýnir líka að Jesús uppfyllir skuggamyndina á einstakan hátt.

Matteusarguðsjall 12:38-40

Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn. -39- Hann svaraði þeim: Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. -40- Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

Hér er mynd sem sýnir þetta á myndrænan hátt og að Jesús hafi í raun verið krossfestur á miðvikudegi.

Guð er nákvæmur og uppfylling páskanna í Jesú er stórkostlegur sannleikur

  1. Fjórir dagar: Velja þurfti lamb og koma með það inn í húsið fjórum dögum fyrir páska. Fjórum dögum fyrir dauða sinn á krossinum aðfaranótt páska kom Jesús inn í Jerúsalem á asna. Einnig er einn dagur sem þúsund ár og það voru einmitt 4000 ár frá Adam til Jesú. (2. Mósebók 12:3-6, Matteus 12:1-11, Lúkas 19:29-38, Jóhannes 12:9-16.)
  2. Án lýta: Lambið varð að vera lýtalaust. Án skurðar, marbletta eða vansköpunar. Jesús var lýtalaus. Hann var syndlaus. Pílatus og Heródes fundu enga sök hjá honum. (2. Mósebók 12:5, Lúk 23:14-15, 1. Pétursbréf 1:18-19, )
  3. Allir: Hvert hús og hver fjölskylda varð að hafa sitt eigið lamb. Allir verða að opna sitt eigið hjarta fyrir því sem Jesús hefur gert fyrir þá og persónulega taka á móti honum sem Drottni sínum og frelsara. (2. Mósebók 12:3-4)
  4. 14. dagur: Páskalambið var slátrað aðfaranótt páska, síðdegis á 14. degi Nisan, sem er fyrsti mánuður tímatals Gyðinga. Jesús er lambið sem fórnað var á sama tíma eða á 14. degi fyrsta mánaðar. (2. Mósebók 12:6, Mark. 15:25, 31-38)
  5. Brotin bein: Ísraelsmönnum var ekki leyft að brjóta bein lambsins. Ekki meðan á eldamennskunni stóð og ekki einu sinni meðan því var neitt. Bein Jesú brotnuðu ekki við pyntingarnar sem hann mátti þola við krossfestinguna. (Jóhannes 19:31-36)
  6. Engir afgangar: Það þurfti að neyta lambsins að fullu aðfaranótt páska. Ekkert átti að vera yfir nótt. Jesús var tekinn af krossinum sama kvöld og krossfesting hans var, þó það væri ekki venjan. (2. Mósebók 12:8-10, Jóhannes 19:31)
  7. Frumburður: Lambið dó í stað frumburðar Ísraelsmanna. Jesús dó í okkar stað. Hann var „frumburður margra bræðra“ – Rómverjabréfið 8:29. Hann dó á krossinum til að sameina okkur eða sætta okkur við Guð.
  8. Blóð: Ísraelsmenn þurftu að stökkva blóði lambsins á dyrastafi þeirra sem tákn til Guðs. Sá sem dvaldi í húsinu á bak við blóð lambsins var óhultur fyrir dómi Guðs yfir Egyptum. Hver sem dvelur hjá Jesú og gerir vilja hans, blóð Jesú mun varðveita hann frá dómi. (2. Mósebók 12:7, 12-13, Rómverjabréfið 5:8-10)

Heiðni og hjáguðadýrkun

Árið 325 hélt Konstantínus keisari í Róm ráðstefnu í Nicaea þar sem margar stórar ákvarðanir voru teknar sem hafa sveipað hátíðir Drottins hulu og sannleikurinn hefur grafist undir siðum heiðingja. Konstantínus og ráðið ákvað að páskadagur ætti að vera á sunnudegi og það myndi ganga jafnt yfir alla heimsbyggðina og að siðum gyðinga ætti ekki lengur að fylgja þar sem þeir hefðu gerst sekir um mikla synd að framselja Jesú til krossfestingar.  Þetta ráð hafði einnig það markmið að sameina kirkjuna þar sem mikill ágreiningur ríkti um túlkun Biblíunnar og því voru ýmsar breytingar gerðar sem leiddu okkur frá sönnum rótum trúarinnar, ýtti undir gyðingahatur og greiddi veginn fyrir þeirri villu sem hefur fylgt kirkjunni síðan, þrátt fyrir að markmið Konstantínusar hafi, að því er virðist, átt að útrýma heiðni og kristna allar þjóðir. Ráðið í Nicaea er einnig upphafið af sameiningu ríkis og kirkju.

Páskar eru til dæmis kallaðir “Easter” sem leiða má líkur að eigi sér rætur að rekja til Astarte sem var himnadrottning eða falsgyðja sem var dýrkuð til forna og um er ritað t.d. í Jeremía 7.kafla. Þessi Astarte er gjarnan tengd við frjósemi.

Það er ekkert talað um páskaegg í Biblíunni, en það er hins vegar þekkt að Egyptar og Persar til forna skreyttu egg og gáfu sem gjafir til að dýrka falsguði í von um frjósemi.

Það er heldur ekkert talað um kanínur í Biblíunni varðandi páskahátíð Drottins, en kanínur eru einnig tákn um frjósemi.

Það er því augljóst að í dag hefur sönn túlkun á páskum og því sem Jesús gerði fyrir okkur á krossinum, sem er stærsti og merkilegasti viðburður okkar tíma, verið skipt úr fyrir hjáguðadýrkun og heiðna siði með djúpa tengingu við falsguði.

Aðalatriðið er að taka ákvörðun að fylgja Kristi

Það er yndislegt að rannsaka ritningarnar og sjá sannleikann, því það er sannleikurinn sem mun gera okkur frjáls. Tilgangur óvinarins er að afvegaleiðing frá sannleikanum og þar af leiðandi frá Kristi. Þetta sjáum við glöggt með því hvernig hann hefur náð að rugla páskahátíðinni og mörgu öðru sem viðkemur hinni heilnæmu kenningu sem okkur er gefin í Orði Guðs. Ég hvet þig þess vegna kæri lesandi að lesa í Biblíunni daglega og leita Guðs. Þá mun Guð leiða þig í rétta átt og sýna þér sannleikann og þú munt eignast persónulegt samband við skapara himins og jarðar, Jesú Krist.

Aðalatriðið er að Kristur dó fyrir okkar syndir og það skiptir ekki endilega öllu máli hvaða dag það var. En það er gott að sjá að Orð Guðs er rétt og uppfyllingin er nákvæmlega eftir fyrirmyndinni.

Rómverjabréfið 3:4

Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, 

Hvað er sannleikur?

Jóhannesarguðspjall 14:6

Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þú átt ekki lifandi trú á Jesú Krist hvet ég þig til að fara með þessa bæn og hafa svo samband við okkur til að fá leiðbeiningar um hvernig þú getur komist í samfélag við aðra trúaða og fengið leiðsögn varðandi næstu skref.

“Ég trúi því að Jesús Kristur hafi dáið fyrir mig á krossinum og að hann hafi risið upp frá dauðum. Jesús ég bið þig um að koma inn í hjarta mitt á þessu augnabliki, fyrirgefa mér og frelsa mig frá öllum mínum syndum. Ég bið þig um að fylla mig af Heilögum Anda þínum og leiða mig héðan í frá í Jesú nafni.”

Guð blessi þig
Sigurður Júlíusson

 

Ert þú tilbúin(n) að mæta Jesú ?

Ert þú tilbúin(n) að mæta Jesú ?

Það er sorgleg staðreynd að margir eru hættir að fara í kirkju, á samkomur, í heimahópa eða eiga samfélag vegna þess að eitthvað hefur komið upp í samskiptum við önnur trúsystkini. Við verðum að skilja að við erum öll mannleg, við búum í föllnum heimi og erum öll að berjast trúarinnar góðu baráttu. Þessi öld Laódíkeu er síðasta kirkjuöldin og hið illa sem og hið góða er að ná fullum þroska. Það hefur aldrei verið jafn mikið í boði og margt sem getur dregið athyglina frá því að vera í Drottni, bæn, orðinu og í samfélagi við aðra.

Það eru mörg tákn á lofti um að við séum á síðustu tímum og að það styttist í endurkomu Jesú Krists. Hvað segir Biblían okkur að við eigum að gera þegar við sjáum þetta eiga sér stað ?

Hebreabréfið 10:25

Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.

Hver er ástæðan fyrir því að við erum áminnt sérstaklega um að koma saman til að uppörva og styrkja hvort annað, og þá sérstaklega þegar dagurinn nálgast? Það er vegna þess að óvinurinn gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur gleypt og fellt. Það eru mörg vers í orðinu sem fjalla um að halda vöku okkar svo að við missum ekki af þegar Drottinn kemur að sækja sitt fólk.

Opinberunarbókin 3:3

Minnst þú því, hvernig þú tókst á móti og heyrðir, og varðveit það og gjör iðrun. Ef þú vakir ekki, mun ég koma eins og þjófur, og þú munt alls ekki vita, á hverri stundu ég kem yfir þig.

Við sjáum glöggt í dýraríkinu hvernig rándýr veiða sér bráð. Þetta er ekki svo ólíkt því sem á sér stað í hinu andlega. Horfum bara á hvernig óvinurinn kemur upp á milli systkina og veldur sundrung, ósætti og brýtur þannig upp hópa svo að bræður og systur hætta að koma saman, einangra sig og eru þá orðinn auðveld bráð fyrir rándýrið og eftir stendur einstaklingur sem er jafnvel fullur af reiði og biturleika.

Það er fátt alvarlegra en ósætti og deilur á milli systkina sem ekki eru útkljáð hratt og vel í auðmýkt og fyrirgefningu. Værir þú tilbúin að mæta Jesú ef þú ert ekki búin að fyrirgefa eða átt í deilum við trúsystkini? Eins og ég sagði þá er fátt alvarlegra og Biblían er mjög skýr varðandi þetta.

Matteusarguðspjall 5:21-25

Þér hafið heyrt, að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur, skal svara til saka fyrir dómi. -22- En ég segi yður: Hver sem reiðist bróður sínum, skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann, hefur unnið til eldsvítis. -23- Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar, að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér, -24- þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. -25- Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn, meðan þú ert enn á vegi með honum, til þess að hann selji þig ekki dómaranum í hendur og dómarinn þjóninum og þér verði varpað í fangelsi. -26- Sannlega segi ég þér: Eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri.

Matteusarguðspjall 5:21-25

Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. -15- En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.

  • Ef Jesús kæmi aftur í dag, værir þú tilbúin að mæta honum?
  • Hvernig hefur þú talað um systkini þín undanfarið?
  • Er eitthvað í þínu lífi gagnvart bróður eða systur sem þú átt eftir að fyrirgefa?

Efesusbréfið 4:29

Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.

Það skiptir ekki máli hvort þú teljir að þetta sé allt hinum að kenna. Matteus 25:23 segir skýrt að ef þú veist að einhver bróðir eða systir hefur eitthvað á móti þér, skaltu ekki koma fram fyrir Drottinn fyrr en þú hefur gert allt í þínu valdi til að leysa málið. Það er ekki alltaf hægt að sættast, en vertu viss um að þú sért búin að gera þinn hluta, og ef það tekst ekki í fyrstu tilraun, taktu þá með þér einhver trúsystkini sem þú treystir til að reyna aftur. Þú vilt ekki standa frammi fyrir Drottni með ófyrirgefningu í hjartanu gagnvart bróður eða systur.

Matteusarguðspjall 18:16

Ef bróðir þinn syndgar gegn þér , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. -16- En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna. -17- Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.

Ef þú ert búin(n) að einangra þig og jafnvel ekki búin(n) að mæta í kirkju, á samkomu eða í samfélag í langan tíma vegna þess að eitthvað kom upp á, hvet ég þig til að taka ákvörðun í dag um láta óvininn ekki binda þig lengur heldur eiga samfélag reglulega við aðra trúaða og taka á móti uppörvun og styrk. Það er stutt í að Jesús komi aftur, enginn veit sinn dag eða stund, þannig að tíminn gæti verið enn styttri hjá sumum og því má engan tíma að missa að gera hreint fyrir sínum dyrum svo að samviskan dæmi okkur ekki.

Fyrsta Jóhannesarbréf 3:21

Þér elskaðir, ef hjartað dæmir oss ekki, þá höfum vér djörfung til Guðs.

Það er margt annað sem veldur því að einstaklingur hættir að eiga samfélag, en það sem hefur verið skrifað hér að ofan er að mínu mati ein af alvarlegri ástæðunum og eitthvað sem verður að bregðast hratt við. Því lengri tími sem líður, því erfiðara getur verið að leita sátta og fyrirgefa. En látum tvær dæmisögur Jesú sýna okkur nokkrar aðrar ástæður sem gætu átt við þig og mikilvægt er að bregðast strax við.

Markúsarguðspjall 4:5-20

Hlýðið á! Sáðmaður gekk út að sá, -4- og þá er hann sáði, féll sumt hjá götunni, og fuglar komu og átu það upp. -5- Sumt féll í grýtta jörð, þar sem var lítill jarðvegur, og það rann skjótt upp, því það hafði ekki djúpa jörð. -6- En er sól hækkaði, visnaði það, og sökum þess að það hafði ekki rætur, skrælnaði það. -7- Og sumt féll meðal þyrna, og þyrnarnir uxu og kæfðu það, og það bar ekki ávöxt. -8- En sumt féll í góða jörð, kom upp, óx og bar ávöxt, það gaf þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt. -9- Og hann sagði: Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri! -10- Þegar hann var orðinn einn, spurðu þeir tólf og hinir, sem með honum voru, um dæmisögurnar. -11- Hann svaraði þeim: Yður er gefinn leyndardómur Guðs ríkis. Hinir, sem fyrir utan eru, fá allt í dæmisögum, -12- að sjáandi sjái þeir og skynji ekki, heyrandi heyri þeir og skilji ekki, svo þeir snúi sér eigi og verði fyrirgefið. -13- Og hann segir við þá: Þér skiljið eigi þessa dæmisögu. Hvernig fáið þér þá skilið nokkra dæmisögu? -14- Sáðmaðurinn sáir orðinu. -15- Það hjá götunni, þar sem orðinu er sáð, merkir þá sem heyra, en Satan kemur jafnskjótt og tekur burt orðið, sem í þá var sáð. -16- Eins það sem sáð var í grýtta jörð, það merkir þá sem taka orðinu með fögnuði, um leið og þeir heyra það, -17- en hafa enga rótfestu. Þeir eru hvikulir og er þrenging verður síðan eða ofsókn vegna orðsins, bregðast þeir þegar. -18- Öðru var sáð meðal þyrna. Það merkir þá sem heyra orðið, -19- en áhyggjur heimsins, tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt. -20- Hitt, sem sáð var í góða jörð, merkir þá sem heyra orðið, taka við því og bera þrítugfaldan, sextugfaldan og hundraðfaldan ávöxt.

Lúkasarguðspjall 14:16-24

Jesús sagði við hann: Maður nokkur gjörði mikla kvöldmáltíð og bauð mörgum. -17- Er stundin kom, að veislan skyldi vera, sendi hann þjón sinn að segja þeim, er boðnir voru: Komið, nú er allt tilbúið. -18- En þeir tóku allir að afsaka sig einum munni. Hinn fyrsti sagði við hann: Ég hef keypt akur og verð að fara og líta á hann. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. -19- Annar sagði: Ég hef keypt fimm tvenndir akneyta og er á förum að reyna þau. Ég bið þig, haf mig afsakaðan. -20- Og enn annar sagði: Konu hef ég eignast, ekki get ég komið. -21- Þjónninn kom og tjáði herra sínum þetta. Þá reiddist húsbóndinn og sagði við þjón sinn: Far þú fljótt út á stræti og götur borgarinnar, og leið inn hingað fátæka, örkumla, blinda og halta. -22- Og þjónninn sagði: Herra, það er gjört, sem þú bauðst, og enn er rúm. -23- Þá sagði húsbóndinn við þjóninn: Far þú út um brautir og gerði og þrýstu þeim að koma inn, svo að hús mitt fyllist. -24- Því ég segi yður, að enginn þeirra manna, er boðnir voru, mun smakka kvöldmáltíð mína.

Guð blessi þig!

Vakningar á Íslandi

Vakningar á Íslandi

Hvítasunnuhreyfingin á Íslandi

Vestur–Íslendingurinn Guðmundur Páll Jónsson, sem gerst hafði hvítasunnuprédikari, kom hingað til lands árið 1918 og hóf fyrstur hvítasunnumanna starf í Reykjavík, en hafði ekki erindi sem erfiði. Það var ekki fyrr en norski trúboðinn Erik Åsbö var sendur ásamt konu sinni Signe til landsins árið 1920, að hvítasunnuvakningin náði að skjóta rótum meðal landsmanna. Åsbö hafði áður fengið sýn um hvar hann ætti að hefja starf sitt, en á ferð sinni hringinn í kringum landið fann hann staðinn hvergi. Eftir árangurslítið boðunarstarf með Páli Jónssyni í Reykjavík ákvað Åsbö sumarið 1921 að halda heim á leið, en með viðkomu í Vestmannaeyjum. Er skemmst frá því að segja, að þar fann hann loks þann stað, sem hann hafði séð í sýninni og var honum útvegað húsaskjól af Gísla Johnsen konsúl, einum valdamesta manni Vestmannaeyja, sem hafði tekið á móti honum fyrir misskilning. Gísli hafði ætlað að sækja norskan fuglaskoðara niður á bryggju, sem átti að gista hjá honum, en villtist á honum og Åsbö. Hann vildi þó ekki vísa Åsbö burt, þar sem hann var kominn heim til hans nema að koma honum fyrir annars staðar, sem hann og gerði. Auk þess hjálpaði hann Åsbö í leiðinni að finna stað fyrir samkomur. Åsbö hjónin höfðu nokkru áður kynnst Sveinbjörgu Jóhannsdóttur, sem frelsast hafði á samkomu hjá Hjálpræðishernum á Akureyri og kynnst hvítasunnuvakningunni úti í Kanada (Sveinbjörg var systir Ólafíu Jóhannsdóttur sem áður er getið). Sveinbjörg gerðist túlkur þeirra hjóna. Åsbö hjónin ásamt Sveinbjörgu héldu samkomur um sumarið. Voru það einkum eiginkonur verkamanna og sjómanna í bænum sem tóku við boðskapnum. Þegar andstaða við trúboð Åsbö hófst og reynt var að hrekja þau hjónin burt úr byggðinni, fóru Sveinbjörg og Signe að ganga milli húsmæðra í bænum, tala við þær og hafa biblíulestra í heimahúsum. Íbúar Vestmannaeyja voru tortryggnir gagnvart svokölluðum sértrúarsöfnuðum, eftir deilur í tengslum við trúboð Mormóna og brottflutning 200 eyjamanna til Utah í Bandaríkjunum.

Fyrsti söfnuður hvítasunnumanna, Betelsöfnuðurinn í Vestmannaeyjum, var stofnaður 19. febrúar 1926, eftir að reist hafði verið safnaðarhús, með tilstyrk Svía, en við það tækifæri tóku 19 manns niðurdýfingarskírn og tveir til viðbótar skömmu síðar. Einn hafði tekið skírn í Danmörku.

Árið 1936 kom Norðmaðurinn Thomas B. Barratt, sem áður er getið til landsins, en hann hefur verið kallaður faðir hvítasunnuhreyfingarinnar í Evrópu. Barratt átti þátt í stofnun fjölda safnaða hvítasunnumanna víðsvegar um Evrópu og reyndar einnig um allan heim. Í maímánuði þetta ár, stofnaði Barratt söfnuð í Reykjavík og einnig á Akureyri sem báðir báru nafnið Fíladelfía. Árið 1948 varð Ásmundur Eiríksson forstöðumaður í Reykjavík og Einar J. Gíslason í Vestmannaeyjum. Áður höfðu sænskir trúboðar gengt þessum störfum, t.d. Eric Ericson, sem var fyrsti forstöðumaðurinn í Reykjavík. Árið 1970 varð Einar J. Gíslason forstöðumaður safnaðarins í Reykjavík.

Fíladelfíukórinn (síðar Gospelkór Fíladelfíu) hefur hljóðritað og gefið út mikið af kristilegri tónlist ásamt því að halda
tónleika. Kórinn heldur árlega jólatónleika til styrktar bágstöddum. Fíladelfía forlag hefur gefið út allmargar bækur. Tímaritið Afturelding kom út á árunum 1934 – 1991. Barnablaðið kom út á árunum 1938–1996. Árið 1950 var byrjað að halda síðsumarmót (Kotmót) yfir verslunarmannahelgina í Kirkjulækjarkoti í Fljótshlíð.

Hvítasunnumenn hafa tekið þátt í hjálparstarfi fyrir vímuefnasjúklinga, sem heitir Samhjálp. Hvítasunnukirkjur eru starfandi á eftirtöldum stöðum: Reykjavík, Akureyri, Vestmannaeyjum, Ísafirði, Keflavík, Selfossi, Kirkjulækjarkoti, Vopnafirði, Stykkishólmi, Höfn í Hornafirði og Akranesi. Hvítasunnusöfnuðir hafa starfað um lengri eða skemmri tíma t.d. á Húsavík, í Hrísey, á Ólafsfirði, á Sauðárkróki, Siglufirði og Skagaströnd.

Vakning í Hafnarfirði

Á fjórða áratug síðustu aldar, hélt lækningapredikarinn Sigurður Sigvaldason biblíulestra í heimahúsum á Íslandi. Sigurður var Vestur–Íslendingur og hafði áður verið kennari og trúboði í Kanada. Sigurður ferðaðist um, predikaði, dreifði bæklingum og seldi Biblíur. Fyrir bænir Sigurðar gerðust undursamlegir hlutir, en hann var gæddur náðargjöf lækningar. Sigurður samdi fjölda sálma og tvær af bókum hans voru gefnar út á íslensku. Sigurður var beinskeyttur predikari og oft kallaður Biblíu–Siggi, til aðgreiningar frá nafna sínum, Sigurði Sveinbjörnssyni (kallaður Siggi á kassanum), sem predikaði á kassa í miðbæ Reykjavíkur.

Þáttaskil urðu í þessari sögu, þegar Helga Þorkelsdóttir eiginkona Einars Einarssonar klæðskera í Hafnarfirði, læknaðist af berklum á lokastigi eftir fyrirbæn Sigurðar. Einar var meðlimur í KFUM og Helga var formaður Kristniboðsfélagsins. Fljótlega var farið að halda kristilegar samkomur á heimili þeirra hjóna. Árið 1935 bar það við, að ljósmóðirin Guðrún Jónsdóttir skírðist í heilögum anda, en hún hafði áður tekið þátt í starfi KFUK. Sigurður fór síðan til Kanada í eitt ár til að þjóna þar. Þegar Sigurður var farinn, tók Guðrún við leiðtogahlutverkinu ásamt Salbjörgu Eyjólfsdóttur (sem læknast hafði af berklum eftir fyrirbæn Sigurðar). Einar byggði skömmu síðar samkomuhús við heimili sitt að Austurgötu 6 í Hafnarfirði.

Árið 1940 hófst vakning heilags anda af miklum krafti m.a. með tungutali. Fljótlega kom í ljós, að Guðrún hafði náðargjöf lækningar í ríkum mæli. Varð hún eftirsóttur fyrirbiðjandi. Fjölmargar undursamlegar lækningar áttu sér stað, eftir fyrirbæn Guðrúnar. Vilborg Björnsdóttir starfaði lengi með Guðrúnu og Salbjörgu, en hún hafði læknast af alvarlegum augnsjúkdómi eftir fyrirbæn Guðrúnar. Árið 1943 var farið að halda samkomur í Reykjavík. Árið 1948, hóf starfið að Austurgötu 6, útgáfu tímarits sem nefndist Fagnaðarboði. Í upphafi flutti tímaritið m.a.fréttir af lækningavakningunni í Bandaríkjunum ásamt vitnisburðum um lækningakraftaverk á Íslandi og víðar. Árið 1958 var nýtt samkomuhús tekið í notkun að Hörgshlíð 12 í Reykjavík. Hörgshlíðarstarfið studdi kristilegt hjálparstarf, m.a. fatasendingar til Kóreu, dreifingu á Biblíum í Austur-Evrópu og barnaheimili Sally Olsen á Puerto Rico.

Guðrún varð landsþekkt vegna bænaþjónustunnar. Var starfið í daglegu tali kennt við hana og kallað „Guðrúnarsöfnuðurinn“. Eftir andlát Guðrúnar höfðu þær Elín Bjarnadóttir og Margrét Erlingsdóttir umsjón með safnaðarstarfinu.

Náðargjafavakningin

Náðargjafavakningin barst til Íslands, með hreyfingu Jesúfólksins frá Svíþjóð árið 1972. Upp úr þessu varð trúarvakning meðal fólks úr nokkrum kristnum samfélögum í Reykjavík. Þetta fólk kom í upphafi aðallega
KFUM & K. Fljótlega varð til bænahópur sem kallaður var „karismatíski hópurinn.“ Sóknarpresturinn í Grensáskirkju, séra Halldór S. Gröndal, hafði skírst í heilögum anda árið 1975. Halldór og „karismatíski hópurinn“ hófu sérstakar samkomur á fimmtudögum í Grensáskirkju snemma árs 1976, sem fljótlega urðu þungamiðjan í náðargjafavakningunni hér á landi. Fólk úr þessum hópi, sem vildi standa á grundvelli játninga Þjóðkirkjunnar og starfa í tengslum við hana, stofnaði síðan með sér samtök, Ungt fólk með hlutverk á hvítasunnudag árið 1976 og veitti Friðrik Ó. Schram starfinu forstöðu.

Kærleikurinn og CTF

Baldur Freyr Einarsson og fleiri sem áður höfðu starfað í undirheimum Reykjavíkurborgar hófu kristilegt starf, sem fékk nafnið Kærleikurinn, sumarið 2007 í samkomusal við Ármúla í Reykjavík. Í framhaldinu varð vakning meðal fólks sem var í eiturlyfjaneyslu eða tengdist fíkniefnaheiminum á höfuðborgarsvæðinu. Töluverður fjöldi losnaði undan ánauð fíkniefnanna eftir að hafa eignast lifandi trú á Jesú Krist. Kærleikurinn og „Catch the Fire Reykjavík“ (CTF), sem Guðbjartur Guðbjartsson og Sigríður Helga Ágústsdóttir stofnuðu 2008, höfðu samstarf um árabil. Í júlí árið 2014 sameinaðist Kærleikurinn og CTF.

Brot úr Kristnisögu eftir Eirík Magnússon.

Rosh Hashanah / Yom Kippur / Sukkot 2023

Rosh Hashanah / Yom Kippur / Sukkot 2023

18.september 2023

Mikilvæg tímamót

Ég var að biðja í morgun og eftir að ég var búin að deila hjarta mínu með Guði. Þá beið ég hljóður og beindi sjónum mínum til Drottins. Mér fannst talað til mín, “Horfðu á Ísrael, horfðu á Ísrael, ég er að fara að hefjast handa. Tíminn er í nánd“. Ég hef alltaf haft auga á Ísrael og Jerúsalem, því ég þjóna og trúi á Guð Ísraels. Hann heitir Yeshua (Jesús) og samkvæmt ritningunum, þá mun hann koma aftur og ríkja í Jerúsalem með járnsprota í þúsundáraríkinu.

Ég hef lesið mig til um og tekið eftir því að þegar eitthvað stórt gerist í Ísrael, þá hefur það einnig áhrif á líkama Jesú Krists. Þegar Ísrael varð aftur þjóð og endurheimti hluta af Jerúsalem 1948-1949, hófst á sama tíma lækningavakningin mikla í Bandaríkjunum. Einnig sjáum við þegar Ísrael endurheimti alla Jerúsalem eftir sex daga stríðið árið 1968 (að undanskilinni musterishæðinni) hófst náðargjafavakningin í kirkjunni og Jesú hreyfingin.

Það er í raun yfirnáttúrulegt að Ísrael sem er eitt öflugasta ríki heimsins með gríðarlega öflugt vopnabúr og tækni sé ekki búið að yfirtaka musterishæðina. En það er ástæða fyrir því. Tíminn var ekki komin fyrir endurbyggingu musterisins, ritningarnar rætast á réttum tíma. Ég trúi að Guð sé að segja núna, “Horfið á Ísrael, ég er að fara að hefjast handa!

Tími heiðingjanna er að renna út en ég trúi að þegar við sjáum Ísrael taka yfir musterishæðina og hefja framkvæmdir við þriðja musterið sé mjög stutt í lokavakningu heiðingjanna sem mun standa stutt yfir. Eftir það tekur við 11. kafli Opinberunarbókarinnar, þar mun Guð snúa sér aftur að Ísrael um stutta stund og senda vottana sína tvo áður en formleg endurkoma Drottins á sér stað, við skoðum þetta betur neðar í þessari grein.

Rómverjabréfið 11:25-26

Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn. -26- Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob.

Takið eftir að Jóhannes er beðin um að mæla musterið. Það er nánast allt klárt nú þegar í Ísrael, rauðu kvígurnar eru komnar til Ísrael, það er búið að búa til öll musterisáhöldin, Levítarnir eru til staðar og tilbúnir til þjónustu.

Opinberunarbókin 11:1-2

Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja. -2- Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.

Ég trúi að við séum á miklum tímamótum. Við erum núna þegar þetta er skrifað þann 17.sept 2023 á hausthátíðum Drottins. Rosh Hashanah (Lúðrahátíðin) var í gær, næst er Yom Kippur (Friðþæginardagurinn) og svo Sukkot (Laufskálahátíðin).

Af hverju er ég að tala um þessar hátíðir, af hverju eru þær mikilvægar?

Eins og Jesús uppfyllti vorhátíðirnar á undursamlega og nákvæman hátt þegar hann kom í fyrra skiptið gefur það mér fullvissu um að hann muni uppfylla hausthátíðirnar einnig á undursamlegan hátt við seinni komu sína.

Það er til eftirbreytni að skoða hefðir gyðinga varðandi þessar hátíðir. Þeir undirbúa sig vel fyrir bæði vorhátíðirnar sem og hausthátíðirnar. Þeir iðrast, helga sig, hreinsa út súrdeig sem einnig er hægt að kalla skurðgoð eða synd. Þetta gera þeir dögum saman áður en hátíðirnar hefjast til að undirbúa hjarta sitt og staðsetja sig til að taka á móti blessunum Drottins. Það er einmitt það sem Guð hefur verið að hvetja mig til að gera undanfarið með sterkari hætti en áður. Hann hefur kallað mig í tíðari föstur og sýnt mér hvað það er sem ég hef þurft að losa mig við eða hreinsa út fyrir því sem framundan er.

Við erum á mikilvægum tímamótum núna á þessu hausthátíðum Drottins 2023 og ég vil hvetja þig til að leita Drottins af öllu hjarta og biðja hann um að sýna þér hvort það sé eitthvað í þínu lífi sem þú þarft að losa þig við. Má þá nefna þessa helstu hluti sem flestir eru að eiga við í dag. Hvor fær meiri tíma Guð eða síminn, Guð eða sjónvarpið, Guð eða áhugamálið. Það getur einnig verið fyrirgefningarleysi og margt annað sem við gætum þurft að gera upp og nú er tíminn til að snúa til baka til hreinnar trúar og leggja allt okkar líf við fætur Jesú.

Jósúabók 24:15

En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.

Tíminn er að renna út

Ég heyrði Drottinn segja í morgun, “tíminn er í nánd”. Miðað við það sem er að gerast í heimum í dag og þær breytingar sem hafa orðið síðustu 15 ár er það augljóst í mínum huga hvar við erum stödd. Það er aðeins fyrir náð Guðs að maður sé yfir höfuð á lífi, en munum að engin veit sinn lokadag. Vertu viss um að þú sért tilbúin að mæta skapara þínum.

Opinberunarbókin 22:10-12

Og hann segir við mig: Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd. -11- Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram. -12- Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.

Hausthátíðir Drottins

Mig langar að fara í gegnum þessar þrjár hausthátíðir og útskýra hina spámannlegu uppfyllingu þeirra tengt endurkomu Jesú. Jesús uppfyllti vorhátíðirnar á einstakan og mjög nákvæman hátt eftir þeim fyrirmyndum sem hann hafði gefið Ísraelsmönnum í fyrri sáttmálanum eða Mósebókunum og þið getið lesið um að hluta til með því að smella hér fyrir neðan.

Yom Teruah / Rosh Hashanah / Lúðrahátíðin

Þriðja Mósebók 23:23-25

Drottinn talaði við Móse og sagði: -24- Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu.

Það sem er áhugavert við þessa hátíð er að hún er haldin sem upphafið af “nýju ári” hjá Ísraelsmönnum þótt hún sé í sjöunda mánuðinum. Þar sem þessi hvíldardagur eða helgihvíld er upphafið af hausthátíðunum og er álitinn mjög mikilvægur, festi hann sér í sessi sem, “Hið andlega nýja ár”. Hátíðin heitir Yom Teruah í ritningunum og þýðir Lúðrahátíðin.

Tilgangur þessar hátíðar að endurvekja og safna okkur saman til hreinnar trúar á Guð. Þessi dagur er í raun dagur iðrunar. Dagur þar sem við gerum upp það sem er að baki og undirbúum okkur fyrir það sem hausthátíðirnar tákna og standa fyrir. Þessi dagur skipar slíkan sess að allur mánuðurinn “Elul” sem kemur á undan fær sérstaka merkingu og er álitinn sérstakur 40 daga andlegur undirbúningur frá 1. Elul og fram að Yom Kippur sem ég fer í hér á eftir.

Margir hafa velt fyrir sér tengingunni á þessum degi endurvakningar og hvernig Jesús kom til að endurfæða og safna okkur saman í einn mann í sér, bæði gyðingum og heiðingjum. Hefðbundin hátíðarhöld á þessum degi hjá gyðingum er að blása í lúður eða básúnu eins og ritningarnar nefna í Þriðju Mósebók. Það er margt sem bendir til að Jesús hafi fæðst á hausthátíðunum og því má leiða að því líkur að skírn Jesú og þjónusta hans hafi hafist við 30 ára aldur að hausti og áhugavert í ljósi þess að þá var að hefjast “Hið andlega nýja ár (Spritual New Year)” eða Rosh Hashanah. Við munum einmitt að þegar Jesús var skýrður þá leiddi andinn hann út í óbyggðina þar sem hann fastaði í 40 daga, áður en hann hóf formlega þjónustu sína. Þannig að líklegt má teljast að Jesús hafi einmitt farið út í óbyggðirnar í kringum 1. Elul til að undirbúa sig með föstu og bæn í 40 daga, líkt og Ísraelsmenn höfðu gert í gegnum aldirnar.

Það er einnig hægt að sjá Rosh Hashanah (Lúðrahátíðina) uppfyllast að fullu við endurkomu Jesú Krists, þegar hann mun stíga niður með kalli, höfuðengilsraust og með básúnu Guðs til að safna saman öllum þeim sem tilheyra honum.

Fyrra Þessaloníkubréf 4:16-18

Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. -17- Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma. -18- Uppörvið því hver annan með þessum orðum

Jesaja 27:12-13

Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn! -13- Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.

Matteusarguðspjall 24:31

Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

Það er skýr tenging á milli Rosh Hashanah og endurkomu Jesú Krist, þess vegna er gott að undirbúa sig á þessum tíma hausthátíðanna og snúa til baka til hreinnar trúar, þar sem við erum laus við meðvitund um synd og að það sé ekkert í hjarta okkar sem dæmir okkur.

Yom Kippur / Friðþægingardagurinn

Þriðja Mósebók 23:26-32

Drottinn talaði við Móse og sagði: -27- Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn. -28- Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar. -29- Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni. -30- Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans. -31- Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar. -32- Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar.

Yom kippur hefur lengi verið talin heilagasti dagurinn í biblíulega dagatalinu. Það var á þessum degi, hvert ár, að æðsti presturinn fór inn í hið allra helgasta til að friðþægja fyrir syndir þjóðarinnar. Það á einnig einstaklega vel við að tíu dögum fyrr eða á Rosh Hashanah var dagur iðrunar og undirbúnings fyrir sjálfan friðþægingardaginn. Hægt er að lesa nánar um sláturfórninar sem framkvæmdar voru á þessum degi í 16. kaflanum á Þriðju Mósebók. En í stuttu máli þá voru tveir geithafrar leiddir fram fyrir Drottinn og með hlutkesti var valið hverjum ætti að slátra í syndafórn og hver ætti að lifa og bera syndir lýðsins út fyrir tjaldbúðina. Þetta minnir mig á þegar valið var á milli Jesú og Barabbasar rétt fyrir krossfestinguna, Barababbas syndum hlaðinn fékk að halda lífi á meðan Jesús varð hin fullkomna syndafórn.

Þriðja Mósebók 16:

Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins. -8- Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel. -9- Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn. -10- En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina.

Ég trúi að endurbygging musterisins sé handan við hornið. Það mun eitthvað stórt þurfa að gerast til þess að stjórn Ísraels taki af skarið og yfirtaki musterishæðina, en ég sé vísbendingar um að það sé í bígerð og má þar nefna nýlega mjög umdeilda löggjöf sem dró verulega úr völdum hæstaréttar í Ísrael og gaf Benjamín Netanyahu og stjórn hans, sem er að stórum hluta skipuð strangtrúuðum gyðingum, yfirburðavald til að taka slíka ákvörðun. Þetta þýðir að öllu óbreyttu við endurreisn musterisins að fórnir myndu hefjast að nýju. Þannig myndi Jesús því einnig uppfylla Yom Kippur að fullu við endurkomu sína þegar að gyðingarnir sem voru blindaðir okkar vegna sjá hann sem hina fullkomnu syndafórn. Opinberun sem við höfum þegar tekið á móti í Kristi.

Hebreabréfið 10:12-18

En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs -13- og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans. -14- Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða. -15- Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann: -16- Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau. -17- Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota. -18- En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

Sukkot / Laufskálahátíðin

Þriðja Mósebók 23:33-44

Drottinn talaði við Móse og sagði: -34- Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga. -35- Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu. -36- Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu. -37- Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi, -38- auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni. -39- Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld. -40- Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga. -41- Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana. -42- Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum, -43- svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar. -44- Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.

Laufskálahátíðin er síðasta hausthátíðin og þar með ein sú mikilvægasta fyrir þá tíma sem við lifum á, því við bíðum þess að hún verði uppfyllt að fullu. Til að skilja betur hversu merkileg þessi hátíð er þurfum við að skoða söguna og hvernig Sukkot hefur verið haldin hátíðleg í gegnum aldirnar. Þetta er uppskeruhátíð þar sem Ísraelsmenn komu saman og fórnuðu til Drottins eftir að hafa hirt gróður landsins eða haust uppskeruna. Það er einnig hægt að segja að þetta sé þakkarhátíð þar sem Guði var þakkað fyrir hans forsjá og blessanir. Það eru margir sem trúa að Púritanar sem voru miklir fræðimenn í hebresku ritningunum hafi út frá Laufskálahátíðinni, stofnað “Thanksgiving” eða þakkargjörðarhátíðina sem haldin er hátíðleg í Bandaríkjunum og fleiri löndum.

Ef við skoðum betur nafnið á hátíðinni þá heitir hún Laufskálahátíðin og leiðbeiningarnar í Þriðju Mósebók eru að Ísraelsmenn áttu að búa í laufskálum í 7 daga, líkt og þeir höfðu gert í eyðimörkinni, til minningar um að Guð leiddi þá út úr Egyptalandi. Þetta á sér dýpri opinberun sem enn á eftir að ganga í uppfyllingu að fullu. Ísraelsmenn enn þann dag í dag gera laufskála á þessari hátíð og minnast þess þegar Guð dvaldi á meðal þeirra í eyðimörkinni.

Það eru góðar vísbendingar um að Jesús hafi einmitt fæðst á Laufskálahátíðinni en ekki 25.desember líkt og margir vilja meina. Hvert er tákn þessarar hátíðar? Er það ekki einmitt, Guð á meðal okkar til að frelsa, líkt og hann gerði á tímum Móse. Þannig uppfyllti Jesús að hluta þessa hátíð með fyrri komu sinni í holdi.

Jóhannesarguðspjall 1:14

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Fullkomin uppfylling Sukkot er í senn andleg og bókstafleg uppfylling. Við vitum að þegar Jesús kemur aftur mun hann búa meðal okkar í þúsund ár og ríkja með járnsprota í Jerúsalem, ásamt sínum heilögu.

Jesaja 2:3

Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum, því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.

Opinberunarbókin 19:11-16

Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi. -12- Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur. -13- Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs. -14- Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. -15- Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda. -16- Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: Konungur konunga og Drottinn drottna.

Ég trúi að áður en hin bókstaflega fullkomna uppfylling á sér stað muni Guð uppfylla Sukkot á andlegan hátt þegar hann mun verða eitt með brúði sinni hér á jörðinni og við munum sjá lokavakningu Drottins flæða yfir jörðina í stuttu lokaverki áður en allt kemur fram. Ég mun skrifa ítarlega grein um sjálfa Laufskálahátíðina síðar og þær vísbendingar sem við höfum í Orðinu um þessa lokavakningu, hvernig tími þjónustu Jesú á tímum krossfestingarinnar tengist spádómum Daníelsbókar, síðustu tímum og fleira, en það er alveg heil grein út af fyrir sig.

Opinberunarbókin 19:7-9

Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. -8- Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra. -9- Og hann segir við mig: Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins. Og hann segir við mig: Þetta eru hin sönnu orð Guðs.

Opinberunarbókin 21:1-3

Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. -2- Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. -3- Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.

Guð blessi þig!

Níundi dagur Av mánaðar – Tisha B’Av

Níundi dagur Av mánaðar – Tisha B’Av

Hvað er svona merkilegt við þessa dagsetningu ?

Áður en ég fer yfir söguna og það sem Biblían segir varðandi þetta tímabil skulum við lista upp þá atburði sem átt hafa sér stað þann 9 Av í gyðinglega dagatalinu.

9 Av

  • 1200 B.C.– Guð sagði Ísraelsmönnun í eyðimörkinni að þessi kynslóð myndi ekki komast inn í fyrirheitna landið.
  • 586 B.C – Babýlonski herinn eyðilagði heilaga musterið.
  • 70 A.D. – Títus og rómverski herinn eyðilögðu heilaga musterið
  • 135 A.D. – „Bethar“, vígi Bar Kochba, féll og gerði út um vonir gyðinga um sjálfstæði.
  • 136 A.D. – Róm byrjaði að reisa heiðnu borgina á staðnum þar sem musterið var vígt.
  • 1096 A.D. – Fyrstu krossferðirnar hófust.
  • 1290 A.D. – Gyðingum var vísað frá Englandi.
  • 1306 A.D. – Gyðingum var vísað frá Frakklandi.
  • 1492 A.D. – Ferdinand konungur og Ísabella drottning undirrituðu brottvísun. Í júlí, þann 9. Av, þurftu allir gyðingar að vera komnir frá Spáni.
  • 1648 A.D. – Chmelnicky myrti tugþúsundir pólskra gyðinga.
  • 1914 A.D. – Yfirlýsingar varðandi Fyrri heimstyrjöldina gengu út.
  • 1942 A.D. – Áætlanir um gereyðingu gyðinga voru gerðar í síðari heimstyrjöldinni.

Það er afar áhugavert að svona risastórir sögulegir atburðir varðandi Ísraelsmenn skuli allir hitta á sömu dagsetninguna. Þetta er í raun þriggja vikna tímabil sem byrjar þann 17 í Tammuz mánuði og nær hámarki þremur vikum síðar þann 9 Av. Í bæði skiptin þar sem ráðist var á Jerúsalem og musterin eyðilögð höfust þann 17 Tammuz og enduði þann 9 Av. Þetta er sorgartímabil en þann dag í dag í Ísrael og einnig tími föstu, bæna og jafnvel ótta um að eitthvað alvarlegt geti gerst. Þetta tímabil hefur verið kallað nokkrum nöfnum eins og “Dire Straits” eins og kemur fram í Harmljóðunum, en einnig “Season of the Basilisk”, þar sem eðli þessara ofsókna er með þeim hætti að óvinurinn virðist hafa sérstakt vald eða leyfi til að herja á Ísrael.

Harmljóðin 1:3

Júda hefir flúið land fyrir eymd og fyrir mikilli ánauð. Hann býr meðal heiðingjanna, finnur engan hvíldarstað. Allir ofsækjendur hans náðu honum í þrengslunum.

Judah has gone into captivity, under affliction and hard servitude; she dwells among the nations, she finds no rest; all her persecutors overtake her in dire straits.”

Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í kennslu um nöðruna eða “basilisk”, en það er talað sérstaklega um þennan djöful á nokkrum stöðum í Biblíunni.

Jeremía 8:17

Sjá, ég sendi meðal yðar höggorma, nöðrur, sem særingar vinna ekki á, og þeir skulu bíta yður segir Drottinn.

For, behold, I will send serpents, basilisks, among you which will not be charmed, and they shall bite you, saith the Lord. (Jeremiah 8:17)

Hér er brot úr sýn sem Bob Jones fékk varðandi Nöðruna og þetta þriggja vikna tímabil sem hefur valdið svo miklum hörmungum fyrir gyðinga í gegnum tíðina.

“Þann 23. júlí 1996 og aftur 23. júlí 1997 var Bob gefin sýn frá Drottni sem sýndi þennan kraftmikla djöfullega anda sem Hann þráir að við skiljum og stöndum gegn. Það var ljóst í sýnunum að þessi andi bjóst ekki við að verða afhjúpaður né opinberaður. Þessi illi andi er vanur að starfa í leyni án þess að vera uppgötvaður eða hindraður. Þessi mikli óvinur krossins hefur vald til að losa um víðtæka eyðileggingu og eymd á jörðinni, sérstaklega ef hin biðjandi kirkja stendur ekki gegn honum. Þessi illi andi er þekktur sem Basilisk.

Basilisk er myndlíking djöfulsins sjálfs sem hefur þann aðaltilgang að koma með dauða og eyðileggingu. Hefðbundinn dauðsföll sem stafa af þessum anda eru sprottinn af plágum, veikindum og sjúkdómum, náttúruhamförum og jafnvel hryðjuverkum. Uppruna þess má rekja allt aftur til Ísraels til forna. Egyptar tilbáðu þennan anda sem „drottinn og konung höggormanna sem allir áttu að óttast, og var sterkari en allir“. Þeir sýndu krýndan basilisk á höfði guða sinna eins og sést á Bembine-töflunni og öðrum egypskum minnismerkjum. Þetta sýnir tilraun Satans til að lyfta sjálfum sér yfir Guð sem hlut tilbeiðslu.”

Hér er hægt að lesa ítarlega kennslu og alla sýnina sem Bob Jones fékk.

17 Tammuz

Við skulum einnig skoða þá atburði sem marka upphaf þessa þriggja vikna tímabil eða sem hófust þann 17 Tammuz.

  • 1312 BC. – Móse steig niður af Sínaífjalli eftir 40 daga og sá fólkið tilbiðja gullkálfinn. Móse braut töflurnar tvær sem innihéldu boðorðin tíu. 3.000 Ísraelsmenn voru drepnir af levítum.
  • 2 Kings 21:7. – Hinn illi konungur Manasse í Júda lét setja upp asérulíkneski í musterinu.
  • 586 BC. – Múrar Jerúsalem brustu eftir margra mánaða umsátur Nebúkadnesars og babýlonskra herafla hans (Fyrsta musteri var eyðilagt 3 vikum síðar á 9 Av. )
  • 70 AD. – Titus & Rómverjar brutu múra Jerúsalem. Upphaf endaloka annars musterisins, sem var eyðilagt þremur vikum síðar á 9 Av. )
  •  135 AD. – Annað stríð gyðinga og Rómverja. Rómverski herforinginn Apostomus brenndi Torah-rit fyrir uppreisn Bar Kokba.
  • 1239 – Gregoríus páfi IX fyrirskipaði að öll handrit Talmúdsins yrðu gerð upptæk.
  • 1391 – Meira en 4.000 spænskir ​​gyðingar voru drepnir í Toledo og Jaen á Spáni.
  •  1559 – Gyðingahverfið í Prag var brennt og rænt.
  • 1944 – Allir íbúar gettósins í Kovno voru sendir í dauðabúðirnar.
  • 1970 – Líbýa fyrirskipaði að allar eignir gyðinga yrðu gerðar upptækar.
  • 1981 – Ísraelar réðust á Tammuz-1 kjarnaofninn í Osiraq til að reyna að koma í veg fyrir kjarnorkuáætlun Íraks.
  • 1994 – Shoemaker Levi reikistjarnan byrjaði að brotna upp og endaði með því að sprengja Júpíter með 16 brotum á 9 Av, þar sem hvert brot jafngilti höggi frá kjarnorkusprengju
  •  Tammuz 24, 2002 – Einni viku eftir 17. Tammuz föstuna, byrjaði vatn að streyma út úr Vesturmúrnum. Einn steinninn, 15 metrum uppi í veggnum, verður allt í einu rennandi blautur án jarðneskra skýringa.
  • 2006 – Líbanon og Ísrael fóru í stríð eftir að Hezbollah rændi 2 ísraelskum hermönnum. (Chuck Pierce spáði 29. janúar 2006, “horfðu á Líbanon. Ég mun koma átökum inn í Líbanon, því það eru mörkin sem ég mun takast á við á þessu ári varðandi fyrirheitna landið mitt Ísrael. Hernaðarættkvíslir Líbanons munu aftur rísa upp. En ég mun vinna þetta stríð, og auðæfum sem hafa verið tekin mun verða skilað í mitt ríki.”)

Það hefur verið nokkuð rólegt í Ísrael undanfarin ár, þótt það hafi einhver átök átt sér stað inn á milli. En spennan er að magnast og það virðist margt benda til þess að að alvöru stríð sé í vændum. Við þurfum að biðja fyrir Ísrael því við tilheyrum konungi Ísraels sem mun koma einn daginn og ríkja í Jerúsalem ásamt sínum heilögu.

Í dag er 9 Av

Þegar þessi grein er skrifuð er einmitt 9 Av og það eru mjög athyglisverðir hlutir að eiga sér stað í Ísrael, það hafa verið gríðarlega fjölmenn mótmæli undanfarið þar Benjamin Netanyahu og ríkisstjórn hans (sem er skipuð af stórum hluta af strangtrúuðum gyðingum) er búin að taka mjög róttæk skref í að breyta löggjöf, sem dregur verulega úr völdum hæstarétti landsins og eykur völd þingsins. Gæti verið að þetta séu skrefin sem þarf að taka í undirbúningi fyrir endurbyggingu musterisins í Ísrael ?

Hér er grein sem fjallar um þessi mál.

Hér er svo brot úr grein dagsins á www.haaretz.com

Now, after the law’s passing, Herzog is focusing his frustration and anxiety on the possibility of a civil war and on the coalition’s rejection of his efforts to modify the legislation. “I get up in the morning with deep frustration and a bad feeling of crisis. I, too, am in emotional turmoil. I am pained, and I am angered,” he wrote. “I pleaded for listening, for an extended hand, and for taking responsibility.”

Guð blessi þig!