18.september 2023

Mikilvæg tímamót

Ég var að biðja í morgun og eftir að ég var búin að deila hjarta mínu með Guði. Þá beið ég hljóður og beindi sjónum mínum til Drottins. Mér fannst talað til mín, “Horfðu á Ísrael, horfðu á Ísrael, ég er að fara að hefjast handa. Tíminn er í nánd“. Ég hef alltaf haft auga á Ísrael og Jerúsalem, því ég þjóna og trúi á Guð Ísraels. Hann heitir Yeshua (Jesús) og samkvæmt ritningunum, þá mun hann koma aftur og ríkja í Jerúsalem með járnsprota í þúsundáraríkinu.

Ég hef lesið mig til um og tekið eftir því að þegar eitthvað stórt gerist í Ísrael, þá hefur það einnig áhrif á líkama Jesú Krists. Þegar Ísrael varð aftur þjóð og endurheimti hluta af Jerúsalem 1948-1949, hófst á sama tíma lækningavakningin mikla í Bandaríkjunum. Einnig sjáum við þegar Ísrael endurheimti alla Jerúsalem eftir sex daga stríðið árið 1968 (að undanskilinni musterishæðinni) hófst náðargjafavakningin í kirkjunni og Jesú hreyfingin.

Það er í raun yfirnáttúrulegt að Ísrael sem er eitt öflugasta ríki heimsins með gríðarlega öflugt vopnabúr og tækni sé ekki búið að yfirtaka musterishæðina. En það er ástæða fyrir því. Tíminn var ekki komin fyrir endurbyggingu musterisins, ritningarnar rætast á réttum tíma. Ég trúi að Guð sé að segja núna, “Horfið á Ísrael, ég er að fara að hefjast handa!

Tími heiðingjanna er að renna út en ég trúi að þegar við sjáum Ísrael taka yfir musterishæðina og hefja framkvæmdir við þriðja musterið sé mjög stutt í lokavakningu heiðingjanna sem mun standa stutt yfir. Eftir það tekur við 11. kafli Opinberunarbókarinnar, þar mun Guð snúa sér aftur að Ísrael um stutta stund og senda vottana sína tvo áður en formleg endurkoma Drottins á sér stað, við skoðum þetta betur neðar í þessari grein.

Rómverjabréfið 11:25-26

Ég vil ekki, bræður mínir, að yður sé ókunnugt um þennan leyndardóm, til þess að þér skuluð ekki með sjálfum yður ætla yður hyggna. Forherðing er komin yfir nokkurn hluta af Ísrael og varir þangað til heiðingjarnir eru allir komnir inn. -26- Og þannig mun allur Ísrael frelsaður verða, eins og ritað er: Frá Síon mun frelsarinn koma og útrýma guðleysi frá Jakob.

Takið eftir að Jóhannes er beðin um að mæla musterið. Það er nánast allt klárt nú þegar í Ísrael, rauðu kvígurnar eru komnar til Ísrael, það er búið að búa til öll musterisáhöldin, Levítarnir eru til staðar og tilbúnir til þjónustu.

Opinberunarbókin 11:1-2

Mér var fenginn reyrleggur, líkur staf, og sagt var: Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja. -2- Og láttu forgarðinn, sem er fyrir utan musterið, vera fyrir utan og mæl hann ekki, því að hann er fenginn heiðingjunum, og þeir munu fótum troða borgina helgu í fjörutíu og tvo mánuði.

Ég trúi að við séum á miklum tímamótum. Við erum núna þegar þetta er skrifað þann 17.sept 2023 á hausthátíðum Drottins. Rosh Hashanah (Lúðrahátíðin) var í gær, næst er Yom Kippur (Friðþæginardagurinn) og svo Sukkot (Laufskálahátíðin).

Af hverju er ég að tala um þessar hátíðir, af hverju eru þær mikilvægar?

Eins og Jesús uppfyllti vorhátíðirnar á undursamlega og nákvæman hátt þegar hann kom í fyrra skiptið gefur það mér fullvissu um að hann muni uppfylla hausthátíðirnar einnig á undursamlegan hátt við seinni komu sína.

Það er til eftirbreytni að skoða hefðir gyðinga varðandi þessar hátíðir. Þeir undirbúa sig vel fyrir bæði vorhátíðirnar sem og hausthátíðirnar. Þeir iðrast, helga sig, hreinsa út súrdeig sem einnig er hægt að kalla skurðgoð eða synd. Þetta gera þeir dögum saman áður en hátíðirnar hefjast til að undirbúa hjarta sitt og staðsetja sig til að taka á móti blessunum Drottins. Það er einmitt það sem Guð hefur verið að hvetja mig til að gera undanfarið með sterkari hætti en áður. Hann hefur kallað mig í tíðari föstur og sýnt mér hvað það er sem ég hef þurft að losa mig við eða hreinsa út fyrir því sem framundan er.

Við erum á mikilvægum tímamótum núna á þessu hausthátíðum Drottins 2023 og ég vil hvetja þig til að leita Drottins af öllu hjarta og biðja hann um að sýna þér hvort það sé eitthvað í þínu lífi sem þú þarft að losa þig við. Má þá nefna þessa helstu hluti sem flestir eru að eiga við í dag. Hvor fær meiri tíma Guð eða síminn, Guð eða sjónvarpið, Guð eða áhugamálið. Það getur einnig verið fyrirgefningarleysi og margt annað sem við gætum þurft að gera upp og nú er tíminn til að snúa til baka til hreinnar trúar og leggja allt okkar líf við fætur Jesú.

Jósúabók 24:15

En líki yður ekki að þjóna Drottni, kjósið þá í dag, hverjum þér viljið þjóna, hvort heldur guðum þeim, er feður yðar þjónuðu, þeir er bjuggu fyrir handan Fljótið, eða guðum Amoríta, hverra land þér nú byggið. En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.

Tíminn er að renna út

Ég heyrði Drottinn segja í morgun, “tíminn er í nánd”. Miðað við það sem er að gerast í heimum í dag og þær breytingar sem hafa orðið síðustu 15 ár er það augljóst í mínum huga hvar við erum stödd. Það er aðeins fyrir náð Guðs að maður sé yfir höfuð á lífi, en munum að engin veit sinn lokadag. Vertu viss um að þú sért tilbúin að mæta skapara þínum.

Opinberunarbókin 22:10-12

Og hann segir við mig: Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd. -11- Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram. -12- Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.

Hausthátíðir Drottins

Mig langar að fara í gegnum þessar þrjár hausthátíðir og útskýra hina spámannlegu uppfyllingu þeirra tengt endurkomu Jesú. Jesús uppfyllti vorhátíðirnar á einstakan og mjög nákvæman hátt eftir þeim fyrirmyndum sem hann hafði gefið Ísraelsmönnum í fyrri sáttmálanum eða Mósebókunum og þið getið lesið um að hluta til með því að smella hér fyrir neðan.

Yom Teruah / Rosh Hashanah / Lúðrahátíðin

Þriðja Mósebók 23:23-25

Drottinn talaði við Móse og sagði: -24- Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu.

Það sem er áhugavert við þessa hátíð er að hún er haldin sem upphafið af “nýju ári” hjá Ísraelsmönnum þótt hún sé í sjöunda mánuðinum. Þar sem þessi hvíldardagur eða helgihvíld er upphafið af hausthátíðunum og er álitinn mjög mikilvægur, festi hann sér í sessi sem, “Hið andlega nýja ár”. Hátíðin heitir Yom Teruah í ritningunum og þýðir Lúðrahátíðin.

Tilgangur þessar hátíðar að endurvekja og safna okkur saman til hreinnar trúar á Guð. Þessi dagur er í raun dagur iðrunar. Dagur þar sem við gerum upp það sem er að baki og undirbúum okkur fyrir það sem hausthátíðirnar tákna og standa fyrir. Þessi dagur skipar slíkan sess að allur mánuðurinn “Elul” sem kemur á undan fær sérstaka merkingu og er álitinn sérstakur 40 daga andlegur undirbúningur frá 1. Elul og fram að Yom Kippur sem ég fer í hér á eftir.

Margir hafa velt fyrir sér tengingunni á þessum degi endurvakningar og hvernig Jesús kom til að endurfæða og safna okkur saman í einn mann í sér, bæði gyðingum og heiðingjum. Hefðbundin hátíðarhöld á þessum degi hjá gyðingum er að blása í lúður eða básúnu eins og ritningarnar nefna í Þriðju Mósebók. Það er margt sem bendir til að Jesús hafi fæðst á hausthátíðunum og því má leiða að því líkur að skírn Jesú og þjónusta hans hafi hafist við 30 ára aldur að hausti og áhugavert í ljósi þess að þá var að hefjast “Hið andlega nýja ár (Spritual New Year)” eða Rosh Hashanah. Við munum einmitt að þegar Jesús var skýrður þá leiddi andinn hann út í óbyggðina þar sem hann fastaði í 40 daga, áður en hann hóf formlega þjónustu sína. Þannig að líklegt má teljast að Jesús hafi einmitt farið út í óbyggðirnar í kringum 1. Elul til að undirbúa sig með föstu og bæn í 40 daga, líkt og Ísraelsmenn höfðu gert í gegnum aldirnar.

Það er einnig hægt að sjá Rosh Hashanah (Lúðrahátíðina) uppfyllast að fullu við endurkomu Jesú Krists, þegar hann mun stíga niður með kalli, höfuðengilsraust og með básúnu Guðs til að safna saman öllum þeim sem tilheyra honum.

Fyrra Þessaloníkubréf 4:16-18

Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. -17- Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu. Og síðan munum vér vera með Drottni alla tíma. -18- Uppörvið því hver annan með þessum orðum

Jesaja 27:12-13

Á þeim degi mun Drottinn slá kornið úr axinu, allt í frá straumi Efrats til Egyptalandsár, og þér munuð saman tíndir verða einn og einn, Ísraelsmenn! -13- Á þeim degi mun blásið verða í mikinn lúður, og þá munu þeir koma, hinir töpuðu í Assýríu og hinir burtreknu í Egyptalandi, og þeir munu tilbiðja Drottin á fjallinu helga í Jerúsalem.

Matteusarguðspjall 24:31

Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.

Það er skýr tenging á milli Rosh Hashanah og endurkomu Jesú Krist, þess vegna er gott að undirbúa sig á þessum tíma hausthátíðanna og snúa til baka til hreinnar trúar, þar sem við erum laus við meðvitund um synd og að það sé ekkert í hjarta okkar sem dæmir okkur.

Yom Kippur / Friðþægingardagurinn

Þriðja Mósebók 23:26-32

Drottinn talaði við Móse og sagði: -27- Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn. -28- Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar. -29- Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni. -30- Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans. -31- Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar. -32- Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar.

Yom kippur hefur lengi verið talin heilagasti dagurinn í biblíulega dagatalinu. Það var á þessum degi, hvert ár, að æðsti presturinn fór inn í hið allra helgasta til að friðþægja fyrir syndir þjóðarinnar. Það á einnig einstaklega vel við að tíu dögum fyrr eða á Rosh Hashanah var dagur iðrunar og undirbúnings fyrir sjálfan friðþægingardaginn. Hægt er að lesa nánar um sláturfórninar sem framkvæmdar voru á þessum degi í 16. kaflanum á Þriðju Mósebók. En í stuttu máli þá voru tveir geithafrar leiddir fram fyrir Drottinn og með hlutkesti var valið hverjum ætti að slátra í syndafórn og hver ætti að lifa og bera syndir lýðsins út fyrir tjaldbúðina. Þetta minnir mig á þegar valið var á milli Jesú og Barabbasar rétt fyrir krossfestinguna, Barababbas syndum hlaðinn fékk að halda lífi á meðan Jesús varð hin fullkomna syndafórn.

Þriðja Mósebók 16:

Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins. -8- Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel. -9- Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn. -10- En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina.

Ég trúi að endurbygging musterisins sé handan við hornið. Það mun eitthvað stórt þurfa að gerast til þess að stjórn Ísraels taki af skarið og yfirtaki musterishæðina, en ég sé vísbendingar um að það sé í bígerð og má þar nefna nýlega mjög umdeilda löggjöf sem dró verulega úr völdum hæstaréttar í Ísrael og gaf Benjamín Netanyahu og stjórn hans, sem er að stórum hluta skipuð strangtrúuðum gyðingum, yfirburðavald til að taka slíka ákvörðun. Þetta þýðir að öllu óbreyttu við endurreisn musterisins að fórnir myndu hefjast að nýju. Þannig myndi Jesús því einnig uppfylla Yom Kippur að fullu við endurkomu sína þegar að gyðingarnir sem voru blindaðir okkar vegna sjá hann sem hina fullkomnu syndafórn. Opinberun sem við höfum þegar tekið á móti í Kristi.

Hebreabréfið 10:12-18

En Jesús bar fram eina fórn fyrir syndirnar og settist um aldur við hægri hönd Guðs -13- og bíður þess síðan, að óvinir hans verði gjörðir að fótskör hans. -14- Því að með einni fórn hefur hann um aldur fullkomnað þá, er helgaðir verða. -15- Og einnig heilagur andi vitnar fyrir oss. Fyrst segir hann: -16- Þetta er sáttmálinn, er ég mun gjöra við þá eftir þá daga, segir Drottinn. Lög mín vil ég leggja í hjörtu þeirra, og í hugskot þeirra vil ég rita þau. -17- Síðan segir hann: Ég mun aldrei framar minnast synda þeirra eða lögmálsbrota. -18- En þar sem syndirnar eru fyrirgefnar, þar þarf ekki framar fórn fyrir synd.

Sukkot / Laufskálahátíðin

Þriðja Mósebók 23:33-44

Drottinn talaði við Móse og sagði: -34- Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga. -35- Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu. -36- Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu. -37- Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi, -38- auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni. -39- Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld. -40- Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga. -41- Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana. -42- Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum, -43- svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar. -44- Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.

Laufskálahátíðin er síðasta hausthátíðin og þar með ein sú mikilvægasta fyrir þá tíma sem við lifum á, því við bíðum þess að hún verði uppfyllt að fullu. Til að skilja betur hversu merkileg þessi hátíð er þurfum við að skoða söguna og hvernig Sukkot hefur verið haldin hátíðleg í gegnum aldirnar. Þetta er uppskeruhátíð þar sem Ísraelsmenn komu saman og fórnuðu til Drottins eftir að hafa hirt gróður landsins eða haust uppskeruna. Það er einnig hægt að segja að þetta sé þakkarhátíð þar sem Guði var þakkað fyrir hans forsjá og blessanir. Það eru margir sem trúa að Púritanar sem voru miklir fræðimenn í hebresku ritningunum hafi út frá Laufskálahátíðinni, stofnað “Thanksgiving” eða þakkargjörðarhátíðina sem haldin er hátíðleg í Bandaríkjunum og fleiri löndum.

Ef við skoðum betur nafnið á hátíðinni þá heitir hún Laufskálahátíðin og leiðbeiningarnar í Þriðju Mósebók eru að Ísraelsmenn áttu að búa í laufskálum í 7 daga, líkt og þeir höfðu gert í eyðimörkinni, til minningar um að Guð leiddi þá út úr Egyptalandi. Þetta á sér dýpri opinberun sem enn á eftir að ganga í uppfyllingu að fullu. Ísraelsmenn enn þann dag í dag gera laufskála á þessari hátíð og minnast þess þegar Guð dvaldi á meðal þeirra í eyðimörkinni.

Það eru góðar vísbendingar um að Jesús hafi einmitt fæðst á Laufskálahátíðinni en ekki 25.desember líkt og margir vilja meina. Hvert er tákn þessarar hátíðar? Er það ekki einmitt, Guð á meðal okkar til að frelsa, líkt og hann gerði á tímum Móse. Þannig uppfyllti Jesús að hluta þessa hátíð með fyrri komu sinni í holdi.

Jóhannesarguðspjall 1:14

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Fullkomin uppfylling Sukkot er í senn andleg og bókstafleg uppfylling. Við vitum að þegar Jesús kemur aftur mun hann búa meðal okkar í þúsund ár og ríkja með járnsprota í Jerúsalem, ásamt sínum heilögu.

Jesaja 2:3

Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: Komið, förum upp á fjall Drottins, til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum, því að frá Síon mun kenning út ganga og orð Drottins frá Jerúsalem.

Opinberunarbókin 19:11-16

Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi. -12- Augu hans eru sem eldslogi og á höfði hans eru mörg ennisdjásn. Og hann ber nafn ritað, sem enginn þekkir nema hann sjálfur. -13- Hann er skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er: Orðið Guðs. -14- Og hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. -15- Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda. -16- Og á skikkju sinni og lend sinni hefur hann ritað nafn: Konungur konunga og Drottinn drottna.

Ég trúi að áður en hin bókstaflega fullkomna uppfylling á sér stað muni Guð uppfylla Sukkot á andlegan hátt þegar hann mun verða eitt með brúði sinni hér á jörðinni og við munum sjá lokavakningu Drottins flæða yfir jörðina í stuttu lokaverki áður en allt kemur fram. Ég mun skrifa ítarlega grein um sjálfa Laufskálahátíðina síðar og þær vísbendingar sem við höfum í Orðinu um þessa lokavakningu, hvernig tími þjónustu Jesú á tímum krossfestingarinnar tengist spádómum Daníelsbókar, síðustu tímum og fleira, en það er alveg heil grein út af fyrir sig.

Opinberunarbókin 19:7-9

Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig. -8- Henni var fengið skínandi og hreint lín til að skrýðast í. Línið er réttlætisverk heilagra. -9- Og hann segir við mig: Rita þú: Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins. Og hann segir við mig: Þetta eru hin sönnu orð Guðs.

Opinberunarbókin 21:1-3

Og ég sá nýjan himin og nýja jörð, því að hinn fyrri himinn og hin fyrri jörð voru horfin og hafið er ekki framar til. -2- Og ég sá borgina helgu, nýja Jerúsalem, stíga niður af himni frá Guði, búna sem brúði, er skartar fyrir manni sínum. -3- Og ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.

Guð blessi þig!