Í þessari grein langar mig að varpa ljósi á hina raunverulegu páskahátíð Drottins eins og um hana er ritað í Biblíunni. Þetta er ein af helgustu hátíðum bæði gyðinga og kristinna manna, því hún fjallar um frelsisverk Drottins. Af hverju gerum við það sem við gerum í dag, hvar byrjaði það og er uppruninn frá Guði eða einhverju allt öðru? Því miður hefur hinni heilnæmu kenningu og sannleikanum verið skipt út að miklu leiti fyrir hjáguðadýrkun og heiðna siði. Páskasiðir nútímans eru þar engin undantekning. Við skulum fara í Orðið og lesa hvað það hefur að segja um páskana og skoða hvernig Jesús Kristur uppfyllti þessa hátíð með lífi sínu og fórn.

Uppruni Páskanna | 2. Mósebók 12 kafli

Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: -2- Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. -3- Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. -4- En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. -5- Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. -6- Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. -7- Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. -8- Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. -9- Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innyflum. -10- Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. -11- Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins. -12- Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. -13- Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. -14- Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli. -15- Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael. -16- Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. -17- Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli. -18- Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins. -19- Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur. -20- Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð. -21- Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu. -22- Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. -23- Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður. -24- Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. -25- Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. -26- Og þegar börn yðar segja við yður: Hvaða siður er þetta, sem þér haldið? -27- þá skuluð þér svara: Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.

3.Mósebók 23:4-8

Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma. -5- Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins. -6- Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. -7- Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. -8- Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu.

Drottinn frelsar Ísrael

Hér fyrir ofan er talað um upphafið af þeirri hátíð Drottins sem kallast Páskar, einnig nefnt Passover eða framhjáganga. Þessi hátíð á að vera haldin árlega til minningar um að Drottinn varðveitti börn Ísraelsmanna og leiddi þá út úr þrældómi Egyptalands inni í fyrirheitna landið.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga í versunum hér að ofan.

  • Upphafsmánuður Ísraelsmanna heitir “Nisan” líkt og upphafsmánuður okkar heitir “Janúar”.
  • Það átti að taka lambið þann 10. Nisan og varðveita það til hins 14. Nisan eða í 4 daga.
  • Dagar eru taldir á milli þess sem sól sest hjá Ísraelsmönnum og fellur yfirleitt í kringum kl. 18:00, ekki á miðnætti eins og á sólardagatalinu okkar.
  • Páskar hefjast þann 14.Nisan við sólsetur og var lambinu slátrað um sólsetur og blóðinu dreypt á dyratréð og dyrastafina og um nóttina átti að eta kjötið.
  • 14. Nisan er einnig aðfangadagur og undirbúningur fyrir “Hátíð hinna ósýrðu brauða”, þar sem allt súrdeig er flutt úr húsum og allt gert klárt fyrir hin árlega hvíldardag.
  • 15. Nisan er árlegur hvíldardagur og fyrsti dagurinn í hátíð hinna ósýrðu brauða. Mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi dagur er ekki sami hvíldardagur og hinn vikulegi “Shabbat” þó að það geti hist þannig á í okkar sólardagatali.

Jesús uppfyllir þessa hátíð/skuggamynd með lífi sínu og dauða á krossi

Við skulum byrja á því að sjá að það er engin leið að telja þrjá daga og þrjár nætur ef Jesús var krossfestur á föstudegi og reis upp fyrir sólarupprás á sunnudegi. Við skulum reyna það og sjá hvað við fáum út.

  1. Jesús er krossfestur um kl. 09:00 að morgni, og um háeigi varð myrkur um allt land til nóns eða kl. 15:00 og þá kallaði Jesús hárri röddu “Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!”, og svo gaf hann upp andann.
  2. Jesús deyr því um kl. 15:00 og við skulum segja að það sé föstudagur. Jósef frá Arímaþeu fer til Pílatusar og biður um líkama Jesú því það var aðfangadagur og mikilvægt að koma líkama Jesú í gröf áður en hvíldardagurinn færi í hönd.
  3. Við sjáum því að Jesús er lagður í gröfina rétt áður en hvíldardagur hefst og við skulum segja að það sé hinn vikulegi “Shabbat” eða hvíldardagur gyðinga. Hér eru því mesta lagi liðnar um 3-4 klst. frá því að Jesús gefur upp andann þar til hann er lagður í gröfina.
  4. Það segir svo í Orðinu að konurnar hefðu komið í dagmál hinn fyrsta dag vikunnar sem er sunnudagur á meðan enn var dimmt og sáu að gröfin var tóm og Jesús þegar upprisinn. Það eru því um 24 klst. + 12 klst. eða um 40 klst.
  5. Það er því engin leið að ná þremur dögum og þremur nóttum með þessari leið. Það er bara ekki hægt að telja þrjá daga og þrjár nætur ef að Jesús á að hafa verið krossfestur á föstudegi.

Er þá Orð Guðs ekki rétt ?

Orð Guðs er sannleikur og Guð er gríðarlega nákvæmur, við sjáum það bara á fyrirmælum hans varðandi undirbúning á páskamáltíðinni sem og aðrar hátíðir, fyrirmyndina af því hvernig musterið átti að byggjast og margt fleira, Guð fer niður í algjör smáatriði og ef við sjáum eitthvað í Orðinu sem virðist vera í þversögn þá þarf bara að rannsaka ritningarnar og leita að sannleikanum.

Orðskviðirnir 25:2

Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál.

Ef við skoðum aðeins það sem ég punktaði hér að ofan sjáum við nokkur atriði sem vert er að skoða betur.

Atburðarrásin

Jesús og lærisveinarnir byrja kvöldið þann 14.Nisan á því að borða saman páskamáltíðina. Þessi máltíð er þekkt sem síðasta kvöldmáltíðin þar sem síðar um nóttina er Jesús tekin höndum í garðinum Getsemane. Jesús er svo leiddur fyrir ráðið þar sem hann er yfirheyrður og síðar leiddur til Pílatusar og Heródesar sem fundu enga sök hjá Honum. Þessa nótt er Jesús húðstrýktur og framseldur til krossfestingar. Um morguninn er svo Jesús krossfestur í kringum klukkan 09:00, það er enn 14.Nisan þegar þetta á sér stað þar sem dagurinn er frá sólsetri til sólseturs hjá gyðingum. 14.Nisan er einnig aðfangadagur og undirbúningur fyrir hátíð hinna ósýrðu brauða, þar sem Ísraelsmenn áttu að fjarlægja allt súrdeig úr húsum sínum og gera klárt fyrir þá hátíð sem varir í 7 daga. Fyrsti dagurinn eða 15.Nisan er sérstakur árlegur hvíldardagur sem fylgir þessari hátíð og hittir ekki endilega á hinn vikulega hvíldardag samkvæmt boðorðinu.

Markúsarguðspjall 15:42-46

Nú var komið kvöld. Þá var aðfangadagur, það er dagurinn fyrir hvíldardag. -43- Þá kom Jósef frá Arímaþeu, göfugur ráðsherra, er sjálfur vænti Guðs ríkis. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú. -44- Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn. -45- Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið. -46- En hann keypti línklæði, tók hann ofan, sveipaði hann línklæðinu og lagði í gröf, höggna í klett, og velti steini fyrir grafarmunnann.

Þá skulum við sýna fram á í Orðinu að þessa viku þegar Jesús er krossfestur hafi í raun verið tveir hvíldardagar, hinn árlegi hvíldardagur hinna ósýrðu brauða á fimmtudegi og svo hinn hefðbundni hvíldardagur á laugardegi.

Markúsarguðspjall 16:10

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Lúkasarguðspjall 23:56

Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Þær fara þann 16.Nisan sem er föstudagur, eftir að hvíldardagurinn þann 15.Nisan var liðinn, sem var hvíldardagur hinna ósýrðu brauða og kaupa ilmsmyrsl. Þær snúa svo aftur og byrja að undirbúa smyrslin um daginn þann 16.Nisan og við sólsetur um kvöldið hefst svo hinn vikulegi hvíldardagur, sem er laugardagur samkvæmt boðorðunum tíu og þá héldu þær kyrru fyrir. Það er svo um morguninn hinn fyrsta dag vikunnar sem þær koma að gröfinni og sjá að hún er tóm og að Jesús er upprisinn.

Lúkasarguðspjall 24:1-3

En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. -2- Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, -3- og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Orð Guðs sýnir skýrt að þessi atburðarrás passar 100% við þau vers sem segja að Jesús myndi vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar og þessi atburðarrás sýnir líka að Jesús uppfyllir skuggamyndina á einstakan hátt.

Matteusarguðsjall 12:38-40

Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn. -39- Hann svaraði þeim: Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. -40- Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

Hér er mynd sem sýnir þetta á myndrænan hátt og að Jesús hafi í raun verið krossfestur á miðvikudegi.

Guð er nákvæmur og uppfylling páskanna í Jesú er stórkostlegur sannleikur

  1. Fjórir dagar: Velja þurfti lamb og koma með það inn í húsið fjórum dögum fyrir páska. Fjórum dögum fyrir dauða sinn á krossinum aðfaranótt páska kom Jesús inn í Jerúsalem á asna. Einnig er einn dagur sem þúsund ár og það voru einmitt 4000 ár frá Adam til Jesú. (2. Mósebók 12:3-6, Matteus 12:1-11, Lúkas 19:29-38, Jóhannes 12:9-16.)
  2. Án lýta: Lambið varð að vera lýtalaust. Án skurðar, marbletta eða vansköpunar. Jesús var lýtalaus. Hann var syndlaus. Pílatus og Heródes fundu enga sök hjá honum. (2. Mósebók 12:5, Lúk 23:14-15, 1. Pétursbréf 1:18-19, )
  3. Allir: Hvert hús og hver fjölskylda varð að hafa sitt eigið lamb. Allir verða að opna sitt eigið hjarta fyrir því sem Jesús hefur gert fyrir þá og persónulega taka á móti honum sem Drottni sínum og frelsara. (2. Mósebók 12:3-4)
  4. 14. dagur: Páskalambið var slátrað aðfaranótt páska, síðdegis á 14. degi Nisan, sem er fyrsti mánuður tímatals Gyðinga. Jesús er lambið sem fórnað var á sama tíma eða á 14. degi fyrsta mánaðar. (2. Mósebók 12:6, Mark. 15:25, 31-38)
  5. Brotin bein: Ísraelsmönnum var ekki leyft að brjóta bein lambsins. Ekki meðan á eldamennskunni stóð og ekki einu sinni meðan því var neitt. Bein Jesú brotnuðu ekki við pyntingarnar sem hann mátti þola við krossfestinguna. (Jóhannes 19:31-36)
  6. Engir afgangar: Það þurfti að neyta lambsins að fullu aðfaranótt páska. Ekkert átti að vera yfir nótt. Jesús var tekinn af krossinum sama kvöld og krossfesting hans var, þó það væri ekki venjan. (2. Mósebók 12:8-10, Jóhannes 19:31)
  7. Frumburður: Lambið dó í stað frumburðar Ísraelsmanna. Jesús dó í okkar stað. Hann var „frumburður margra bræðra“ – Rómverjabréfið 8:29. Hann dó á krossinum til að sameina okkur eða sætta okkur við Guð.
  8. Blóð: Ísraelsmenn þurftu að stökkva blóði lambsins á dyrastafi þeirra sem tákn til Guðs. Sá sem dvaldi í húsinu á bak við blóð lambsins var óhultur fyrir dómi Guðs yfir Egyptum. Hver sem dvelur hjá Jesú og gerir vilja hans, blóð Jesú mun varðveita hann frá dómi. (2. Mósebók 12:7, 12-13, Rómverjabréfið 5:8-10)

Heiðni og hjáguðadýrkun

Árið 325 hélt Konstantínus keisari í Róm ráðstefnu í Nicaea þar sem margar stórar ákvarðanir voru teknar sem hafa sveipað hátíðir Drottins hulu og sannleikurinn hefur grafist undir siðum heiðingja. Konstantínus og ráðið ákvað að páskadagur ætti að vera á sunnudegi og það myndi ganga jafnt yfir alla heimsbyggðina og að siðum gyðinga ætti ekki lengur að fylgja þar sem þeir hefðu gerst sekir um mikla synd að framselja Jesú til krossfestingar.  Þetta ráð hafði einnig það markmið að sameina kirkjuna þar sem mikill ágreiningur ríkti um túlkun Biblíunnar og því voru ýmsar breytingar gerðar sem leiddu okkur frá sönnum rótum trúarinnar, ýtti undir gyðingahatur og greiddi veginn fyrir þeirri villu sem hefur fylgt kirkjunni síðan, þrátt fyrir að markmið Konstantínusar hafi, að því er virðist, átt að útrýma heiðni og kristna allar þjóðir. Ráðið í Nicaea er einnig upphafið af sameiningu ríkis og kirkju.

Páskar eru til dæmis kallaðir “Easter” sem leiða má líkur að eigi sér rætur að rekja til Astarte sem var himnadrottning eða falsgyðja sem var dýrkuð til forna og um er ritað t.d. í Jeremía 7.kafla. Þessi Astarte er gjarnan tengd við frjósemi.

Það er ekkert talað um páskaegg í Biblíunni, en það er hins vegar þekkt að Egyptar og Persar til forna skreyttu egg og gáfu sem gjafir til að dýrka falsguði í von um frjósemi.

Það er heldur ekkert talað um kanínur í Biblíunni varðandi páskahátíð Drottins, en kanínur eru einnig tákn um frjósemi.

Það er því augljóst að í dag hefur sönn túlkun á páskum og því sem Jesús gerði fyrir okkur á krossinum, sem er stærsti og merkilegasti viðburður okkar tíma, verið skipt úr fyrir hjáguðadýrkun og heiðna siði með djúpa tengingu við falsguði.

Aðalatriðið er að taka ákvörðun að fylgja Kristi

Það er yndislegt að rannsaka ritningarnar og sjá sannleikann, því það er sannleikurinn sem mun gera okkur frjáls. Tilgangur óvinarins er að afvegaleiðing frá sannleikanum og þar af leiðandi frá Kristi. Þetta sjáum við glöggt með því hvernig hann hefur náð að rugla páskahátíðinni og mörgu öðru sem viðkemur hinni heilnæmu kenningu sem okkur er gefin í Orði Guðs. Ég hvet þig þess vegna kæri lesandi að lesa í Biblíunni daglega og leita Guðs. Þá mun Guð leiða þig í rétta átt og sýna þér sannleikann og þú munt eignast persónulegt samband við skapara himins og jarðar, Jesú Krist.

Aðalatriðið er að Kristur dó fyrir okkar syndir og það skiptir ekki endilega öllu máli hvaða dag það var. En það er gott að sjá að Orð Guðs er rétt og uppfyllingin er nákvæmlega eftir fyrirmyndinni.

Rómverjabréfið 3:4

Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, 

Hvað er sannleikur?

Jóhannesarguðspjall 14:6

Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þú átt ekki lifandi trú á Jesú Krist hvet ég þig til að fara með þessa bæn og hafa svo samband við okkur til að fá leiðbeiningar um hvernig þú getur komist í samfélag við aðra trúaða og fengið leiðsögn varðandi næstu skref.

“Ég trúi því að Jesús Kristur hafi dáið fyrir mig á krossinum og að hann hafi risið upp frá dauðum. Jesús ég bið þig um að koma inn í hjarta mitt á þessu augnabliki, fyrirgefa mér og frelsa mig frá öllum mínum syndum. Ég bið þig um að fylla mig af Heilögum Anda þínum og leiða mig héðan í frá í Jesú nafni.”

Guð blessi þig
Sigurður Júlíusson