SOTK – Árið 2005

SOTK – Árið 2005

Frá þýðanda:

Lesandi athugi að þrátt fyrir að þessi grein sé að fjalla um árið 2005 er mjög gagnlegt efni í henni sem á við okkur í dag og áhugavert að skyggnast inn í anda Neville Johnson og þá eftirvæntingu sem hann hafði fyrir lokavakningunni á þessum tíma. Við erum klárlega komin enn nær í dag og ég bið stöðuglega, “Kom skjótt Drottinn minn Jesús”, eða eins og segir í bæninni “Til komi þitt ríki”.

Þegar við teljum niður til ársloka 2005 og lítum til baka yfir síðustu tólf mánuði á undan förum við að átta okkur á því að þetta ár var ekkert venjulegt ár. Við skulum líta á nokkra af mikilvægari þáttum þess sem gerðist.

Þann 26. desember 2004 sáum við hörmungarnar af völdum jarðskjálftans við Indónesíu og flóðbylgjuna í kjölfarið sem olli svo mikilli eyðileggingu. Þessir þjóðir hafa ekki náð sér enn. Lítum á nokkra þætti úr blaðinu “Spádómspunktar” sem við gáfum út á þeim tíma.

Tilvitnanir úr “Spádómspunktunum” í desember 2004

Þessi jarðskjálfti var sá stærsti í fjörutíu ár

Talan 40 hefur mikla spádómlega þýðingu, í fyrsta lagi táknar hún kynslóð. Oft í ritningunni er kynslóð talin 40 ár.

Fjórða Mósebók 32:13

Og reiði Drottins upptendraðist gegn Ísrael og hann lét þá reika um eyðimörkina í fjörutíu ár, þar til er öll sú kynslóð var liðin undir lok, er gjört hafði það, sem illt var fyrir augliti Drottins.

Jósuabók 5:6

Í fjörutíu ár fóru Ísraelsmenn um eyðimörkina, uns allt það fólk, allir vígir menn, er farið höfðu af Egyptalandi, voru dánir, því að þeir hlýddu ekki raust Drottins. Þess vegna hafði Drottinn svarið þeim, að þeir skyldu ekki fá að sjá landið, sem hann sór feðrum þeirra að gefa oss, land, sem flýtur í mjólk og hunangi.

Fyrir fjörutíu árum, árið 1964, var verið að gera kirkjunni viðvart um komu nýrrar hreyfingar Guðs á jörðinni, þessi ráðstöfun varð þekkt sem karismatíska hreyfingin. Þann 27. mars 1965 varð jarðskjálfti, sem hingað til er sá stærsti sem mælst hefur í Norður-Ameríku, 9,2 á Richter, meðfram strönd Alaska. Þessi skjálfti myndaði röð alda sem mældust 27 metrar á hæð sem rákust á strandlengjuna og eyðilagði óteljandi báta og heimili.

Stuttu eftir þennan atburð var óteljandi fjöldi lítilla dreifbýliskirkna um allt svæðið fullar af eldi Guðs sem úthellt var á meðal þeirra. Þessi úthelling Heilags Anda fór fljótt í gegnum Oregon og inn í Kaliforníu og endaði hjá biskupakirkju í Van Nuys og kveikti eld í biskupsrektor að nafni Dennis Bennett. Kirkjusaga samtímans sýnir nú að Bennett fæddi það sem varð þekkt sem karismatísk endurnýjun. Þessi hreyfing Guðs flæddi yfir hinn vestræna heim eins og mikill eldur sem fæddi Jesú hreyfinguna og margar aðrar stórar öldur heilags anda.

Talan fjörutíu táknar einnig lok reynslutímabils. Ísrael var fjörutíu ár í eyðimörkinni áður en þeir fóru inn í fyrirheitna landið. Jesús var fjörutíu daga í eyðimörkinni áður en hann hóf þjónustu sína.

Þetta talar um tíma undirbúnings og prófana, sem nú er að renna sitt skeið og ný öld að hefjast.

Fimmta Mósebók 8:15

sem leiddi þig um eyðimörkina miklu og hræðilegu, þar sem voru eitraðir höggormar og sporðdrekar og vatnslaust þurrlendi, og leiddi fram vatn handa þér af tinnuhörðum klettinum,

Fimmta Mósebók 8:16

hann sem gaf þér manna að eta í eyðimörkinni, er feður þínir eigi þekktu, svo að hann gæti auðmýkt þig og svo að hann gæti reynt þig, en gjört síðan vel við þig á eftir.

Við erum á tímum þar sem undirbúningur hjartans er afar mikilvægur ef við ætlum að ná næstu bylgju sem er að koma. Hreinleiki hjartans er ofarlega á dagskrá Guðs fyrir fólk sitt á þessari stundu, þetta er nauðsynlegt þar sem næsta bylgja mun taka okkur hærra en við höfum verið áður, þar sem hreinleiki hjartans er krafa til að komast inn og standast það sem koma skal.

Ég tel að þessi jarðskjálfti, sem aftur olli flóðbylgjunni, hafi djúpstæð áhrif á kirkjuna í dag. Þessir jarðskjálftar eru fæðingarverkir þar sem nýr dagur er að renna upp. Þetta er ekki bara endalok tímabils; það er endalok mikils tímabils í sögu kirkjunnar, rétt eins og siðaskiptin hófu nýtt stórt tímabil í kirkjusögunni. 40 ára undirbúnings- og prófunartímabili er að ljúka, rétt eins og aðalmarkmið Ísraels í Guði var að ganga inn í og ​​leggja undir sig fyrirheitna landið, þannig erum við að ganga inn í nýjan dag með djúpstæðar afleiðingar. Allt himnaríki hefur tekið sér stöðu, þar sem undirbúningi er nánast lokið fyrir næstu bylgju. Við höfum gengið í gegnum mikið ræktunartímabil í undirbúningi fyrir komandi uppskeru.

Lok á tilvitnunum

Við erum oft mjög sein í að þekkja rödd Drottins þegar hún kemur að okkur í annarri mynd.

Matteusarguðspjall 16:3

Og að morgni: Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn. Útlit loftsins kunnið þér að ráða, en ekki tákn tímanna.

Orð Guðs segir skýrt að það verði tákn á himnum og að þessi tákn séu rödd Guðs til okkar.

Sálmarnir 19:2

Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa. -3- Hver dagurinn kennir öðrum, hver nóttin boðar annarri speki. -4- Engin ræða, engin orð, ekki heyrist raust þeirra. -5- Og þó fer hljómur þeirra um alla jörðina, og orð þeirra ná til endimarka heims. Þar reisti hann röðlinum tjald.

Rödd stjörnu sem springur

Sjaldgæfur stórbrotinn atburður átti sér stað seint í desember 2004, atburður sem var þúsundir ára í mótun sem barst til plánetunnar okkar jarðarinnar í desember síðastliðnum.

Í 50.000 ljósára fjarlægð er stjarna sem kallast „Segulstjarna sem er aðeins um 20 kílómetrar í þvermál, en mun þyngri en sólin okkar með segulsvið sem er 1.000 trilljón sinnum sterkara en jörðin – þessi stjarna sendi frá sér gífurlegan gammageislunarpúls, þetta olli björtustu sprengingunni í sögu stjörnufræðinnar. Þessi sprenging gaf frá sér meiri orku á aðeins 0,2 sekúndum en sólin okkar gerir á um 200.000 árum.

„Brot úr sekúndu í desember sleppti deyjandi leifar sprunginnar stjörnu frá sér ljósbylgju sem var bjartari en Vetrarbrautin “Milky Way” og aðrar hálfar billjónir stjarna samanlagt“.

New York Times 20. febrúar 2004

Þetta tók 50 þúsund ár að ná til jarðar, þetta er í sjálfu sér kraftaverk tímasetningar Guðs.

Við erum að fara að upplifa upphafið að mestu hreyfingu Guðs sem heimurinn hefur nokkurn tíma séð.

Jesaja 9:2

Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós.

Matteusarguðspjall 4:16-17

Sú þjóð, sem í myrkri sat, sá mikið ljós. Þeim er sátu í skuggalandi dauðans, er ljós upp runnið. -17- Upp frá þessu tekur Jesús að prédika og segja: Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd.

Þessi mikli ljósglampi boðaði komu nýs dags sem myndi færa ljós dýrðar Guðs sem aldrei fyrr frá fæðingu Jesú.

40 ár, heil kynslóð frá fæðingu hinnar karismatísku hreyfingar, veldur annar jarðskjálfti flóðbylgju sem boðaði upphaf þessa nýja tíma. Þessu fylgdi fljótt ljósglampi sem skall á jörðina sem var sá mesti í sögu stjörnufræðinnar.

Það er mikilvægt að 40 ár eru liðin frá dauða William Branham eða 24. desember á þessu ári 2005. William Branham var þekktur fyrir að hafa verið upphafsmaður þess sem varð þekkt sem 1948 hreyfing Guðs eða lækningavakningin mikla. William Branham var mikill spámaður sem lifði langt fram yfir sína samtíð. Ég veit að margir eiga í vandræðum með William Branham þar sem margir fylgjendur hans þróuðu sértrúarsöfnuð í kringum hann, þetta dregur auðvitað ekki úr þeirri staðreynd að hann var mikill guðsmaður sem var notaður af Guði á máttugan hátt til að vera í fararbroddi mikillar hreyfingar Heilags Anda á fjórða áratugnum. Möttull William Branham er nú í boði fyrir þá sem í heilagleika og með tilfinningu fyrir örlögum sínum og köllun vilja taka hann upp.

Fæðing hvítasunnuhreyfingarinnar 1885

Bethshan ráðstefnan um heilagleika og lækningu, í London, Englandi var undir forystu William Boardman og A. B. Simpson.

Margir sagnfræðingar viðurkenna að núverandi hvítasunnuhreyfing hafi fyrst verið hafin á þessum fundi í júní 1885. Alexander Dowie og fleiri bentu á ráðstefnuna í London sem upphaf þeirrar lækningarhreyfingar sem þeir nutu. Talið er að þessi ráðstefna hafi lagt grunninn að endurreisn uppfyllingar andans og virkjun andlegra gjafa. 120 árum síðar lendum við einmitt á árinu 2005. Vitað er að 120 er talan sem táknar hvítasunnuna.

Fylling hvítasunnunnar er að koma fram núna í þessari kynslóð. Það eru margar spámannlegar tímalínur sem skerast á þessum tímamótum, þeir sem hafa eyra til heyra og hjörtu til að skynja mun undirbúa hjörtu sín fyrir það sem nú er að koma fram og mun taka okkur inn í stóra nýja hreyfingu Heilags Anda.

Kirkjan er við það að fara yfir í fyrirheitna landið og að fara yfir Jórdan táknaði sjálfan dauðann og nýja lífshætti, það er krafist af okkur að leggja niður líf okkar sem aldrei fyrr. 120 ár eru liðin frá fæðingu hvítasunnuhreyfingarinnar. Nú er kominn tími til að fara yfir í fyllingu hvítasunnuupplifunarinnar, það sem frumkirkjan hafði var merki um það sem Guð ætlar okkur í dag.

Síðara Korintubréf 1:22

Hann hefur sett innsigli sitt á oss og gefið oss anda sinn sem pant í hjörtum vorum.

Síðara Korintubréf 5:5

En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.

Orðið pant er gríska orðið arrhabon, sem þýðir veð eða innborgun (ekki heildarupphæðin)

Fimmta Mósebók 31:2

og sagði við þá: Ég er nú hundrað og tuttugu ára. Ég get ekki lengur gengið út og inn, og Drottinn hefir sagt við mig: Þú skalt ekki komast yfir hana Jórdan. -3- Drottinn Guð þinn fer sjálfur yfir um fyrir þér, hann mun sjálfur eyða þessum þjóðum fyrir þér, svo að þú getir tekið lönd þeirra til eignar. Jósúa skal fara yfir um fyrir þér, eins og Drottinn hefir sagt.

Við höfum heyrt mikið um Jósúakynslóðina en við höfum ekki séð hana í raun og veru, en 120 ár hafa verið uppfyllt, það er kominn tími til að Jósúamenn fari yfir og nái fyrirheitna landinu.

Sá sem hefur eyru til að heyra, hann heyri hvað Guð er að segja við kirkjuna í dag

Guð blessi þig!

SOTK – Að skilja þörfina fyrir forystu

SOTK – Að skilja þörfina fyrir forystu

Við þurfum að skilja að sama hver köllun okkar er þá er forysta eitthvað sem við þurfum að skilja og læra, þú munt þurfa að leiða eitthvað hvort sem þú ert húsmóðir eða forstöðumaður. Það er hins vegar þitt val hvort þú æfir þig í því eða ekki.

Mörg vandamál á heimilinu eru afleiðing lélegrar forystu eða engrar forystu, þetta á líka við um kirkjuna og veraldlega viðskiptavettvanginn. Við erum öll kölluð til að leiða á einhverju svæði í okkar eigin persónulega heimi. Þegar það er engin siðferðileg forysta á heimili eða rétt fyrirmynd getum við búist við því að stór vandamál muni eigi sér stað.

Andi lögleysis

Við höfum séð anda lögleysis rísa upp sem aldrei fyrr í vestrænum þjóðum, fyrst í New Orleans, síðan í Frakklandi og svo einnig í Sydney Ástralíu. Það er enginn vafi á því að anda hefur verið sleppt í þeim tilgangi að vekja upp þjóðernis- og/eða kynþáttahatur. Þessi andi hefur verið nærður af skorti á siðferðilegri grunnforystu á ríkisstjórnarstigum, alla leið niður í gegnum menntakerfið okkar, inn á heimili okkar og fjölskyldur. Með þrýstingi um að vera pólitískt réttur hefur Satan slegið í gegn í okkar vestræna samfélagi. Þetta hefur leitt til órökréttustu og fáránlegustu mótsagna sem við höfum séð. Þó að við vitum að Guð er góður, kærleiksríkur, sanngjarn og réttlátur, hatar Guð líka synd og mun aldrei samþykkja neitt gegn sínu viðmiði réttlæti. Grænu hreyfingarnar um allan heim eru í uppnámi þegar tré eru höggvin og hvalir drepnir, en þeim virðist allt í lagi með að myrða börn, þær eru einn fremsti talsmaður fóstureyðinga. Bjargaðu hvölum og dreptu börnin. Þessar fáránlegu mótsagnir eru afleiðing af lögleysi gagnvart stöðlum Guðs. Ekki misskilja mig. Ég trúi á að bjarga hvölum og trjánum innan skynsamlegra marka ásamt því að halda öllum viðmiðum Guðs.

Leiðin undirbúin fyrir mann syndarinnar

Síðara Þessaloníkubréf 2:3 & 7

Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar,

-7- Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af.

Þessi leyndardómur ranglætis (lögleysis) er nú þegar að verki í heiminum þetta er antikrists andi.

Fyrsta Jóhannesarbréf 2:18

Börn mín, það er hin síðasta stund. Þér hafið heyrt að andkristur kemur, og nú eru líka margir andkristar komnir fram. Af því vitum vér, að það er hin síðasta stund.

Við erum að sjá anda antikrists rísa upp sem aldrei fyrr í heiminum.

Margir hlutar kirkjunnar í dag hafa dreypt á anda andkrists og neitað því að Jesús sé sonur Guðs og að Jesús hafi verið Guð sem birtist í holdi.

Erkibiskupinn af Kantaraborg sagði að hann trúði ekki að Jesús hafi verið bókstaflegur sonur Guðs og að Jesús hafi ekki risið upp frá dauðum og að blóð Jesú hafi engan frelsunarmátt og að Biblían sé hvorki innblásin né hægt að taka hana bókstaflega. Þetta er andi antikrists sem afneitar því hver Kristur er.

Jóhannes postuli sagði að þegar þú sérð marga leiðtoga rísa upp með anda antikrists þá vitum við að endirinn er í nánd.

Fyrsta Jóhannesarbréf 2:22

Hver er lygari, ef ekki sá sem neitar, að Jesús sé Kristur? Sá er andkristurinn, sem afneitar föðurnum og syninum.

Þessi andi lögleysunnar sem við sjáum núna er upphaf nýs áfanga í áætlunum Satans um að ráða yfir þessari plánetu, en Guð segir þetta.

Jesaja 60:1-5

Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér! -2- Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér. -3- Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér. -4- Hef upp augu þín og litast um: Þeir safnast allir saman og koma til þín. Synir þínir koma af fjarlægum löndum, og dætur þínar eru bornar á mjöðminni. -5- Við þá sýn muntu gleðjast, hjarta þitt mun titra og svella, því að auðlegð hafsins hverfur til þín og fjárafli þjóðanna kemur undir þig.

Guð segir að mitt í miklu myrkri muni hin sanna kirkja Jesú Krists rísa upp sem aldrei fyrr í mikilli dýrð og krafti. Þetta mun hrinda af stað öflugustu vakningu sem heimurinn hefur nokkurn tíma séð. Gnægð hafsins (mannkynsins) mun breytast.

Þetta er tími án málamiðlana, tími þar sem við þurfum að vera 100% helguð Drottni. Tími fullkomins heilagleika í ótta Drottins, til að undirbúa endurkomu Hans.

Þú getur leitt eða fylgt fjöldanum

Forysta er öflugasta aflið sem manninum er trúað fyrir. Með henni varð óþekktur hermaður Korsíka gjaldþrota og sigraði voldugustu þjóðir jarðarinnar (Napóleon).

Auðmjúkur lögfræðingur frá Indlandi, án þess að hleypa af skoti eða gegna neinni hernaðar- eða pólitískri stöðu, braut styrk mesta heimsveldisins í heiminum. (Gandhi)

Forysta varð til þess að hundruð manna sviptu sig lífi í trúarsamfélagi í Suður-Ameríku.

Afrek Jesú og fylgjendahóps hans eru eitt af ótrúlegustu dæmum um forystu sem nokkurn tíma hefur átt sér stað. Þeir sneru heimi síns tíma á hvolf.

Forysta er ótrúlegt afl sem okkur er treyst fyrir

Þú verður í þínum heimi að leiða veginn í heilagleika og réttlæti með sterkri afstöðu í þessum núverandi vonda heimi.

Jesaja 57:14-15

Sagt mun verða: Leggið braut, leggið braut, greiðið veginn, ryðjið hverjum ásteytingarsteini úr vegi þjóðar minnar! -15- Já, svo segir hinn hái og háleiti, hann sem ríkir eilíflega og heitir Heilagur: Ég bý á háum og helgum stað, en einnig hjá þeim, sem hafa sundurkraminn og auðmjúkan anda, til þess að lífga anda hinna lítillátu og til þess að lífga hjörtu hinna sundurkrömdu.

Matteusarguðspjall 3:3

Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Rétt eins og Jóhannes skírari undirbjó veg Drottins fyrir fyrstu komu Jesú með boðskap um iðrun heilagleika og náðar, eins verðum við í dag að gera það sama og sannarlega leiða á okkar ábyrgðarsviði með náð, sannleika, heilagleika og kærleika.

Guð blessi þig!

SOTK – Treystu Guði

SOTK – Treystu Guði

Sálmarnir 4:6

Færið réttar fórnir og treystið Drottni.

Fyrir nokkrum árum talaði Drottinn við mig í draumi og sagði; “Ef það eru einhver atriði sem við treystum Honum ekki fyrir munu þau leiða til vandræða, vandræðin munu leiða okkur aftur til að treysta Honum og allt sem nýtist ekki fyrir Guðs ríkið. Munum við á endanum tapa.”

Ég var að velta þessu fyrir mér í sambandi við núverandi ástand heimsins og skilning á því að þetta hefur aldrei verið eins viðeigandi fyrir okkur og í dag. Við höfum séð tap á eignum fyrir milljarða dollara á síðustu árum. St Louis eitt og sér tapaði eignum að verðmæti nokkurra milljarða dollara í síðasta fellibylnum, sem flestar eru ekki tryggðar. Fuglaflensan blasir við sjóndeildarhringnum eins og Biblíuleg plága. Talið er að ef þessi flensa verður faraldur muni yfir 75 milljónir manna deyja. Sjúkrahúskerfi okkar eru þegar ofhlaðin að því marki að þau hrynja við minsta álag ef ekkert verður gert. Kostnaður vegna almannatrygginga er orðinn mikið áhyggjuefni fyrir flestar vestrænar þjóðir og horfur eru ekki góðar. Lífeyrissjóðir eru í besta falli varasamir. Hagfræðingur komst nýlega að þeirri niðurstöðu að lífeyrissjóðir yrðu ekki til að eilífu og yrðu þeir fyrstu til að fara ef til mikils samdráttar kæmi.

Þetta vekur upp þá spurningu, hvar setjum við raunverulega traust okkar fyrir dagana sem framundan eru? Það þýðir ekkert að loka hurðinni eftir að hesturinn hefur strokið. Þinn eigin persónulegi heimur getur algerlega breyst á einni nóttu, samdrættir gerast á þennan hátt, og það eru sannarlega blikur á lofti um meiriháttar samdrátt í heiminum. Í samdrætti hverfa peningar ekki, þeir skipta bara um hendur, verð á eignum lækkar og þeir sem eiga reiðufé kaupa þessar eignir fyrir brot af upprunalegu verðmæti og það eru skipti sem eiga sér stað. Kristnir menn þurfa að vera meðvitaðir um þennan veruleika þar sem sá tími kemur þegar mikið þarf að afla fyrir ríki Guðs.

Orðskviðirnir 13:22

en eigur syndarans eru geymdar hinum réttláta.

Eftir því sem tímarnir framundan verða dekkri verðum við að treysta Drottni á nýju stigi, nú er tíminn til að staðfesta traust okkar á Drottni fyrir alla hluti. Maðurinn setur allt sitt traust á peninga og það er síðasta vígið sem Guð tekur frá kristnum mönnum svo að allt traust þeirra megi vera á Honum.

Opinberunarbókin 13:17

og kemur því til leiðar, að enginn geti keypt eða selt, nema hann hafi merkið, nafn dýrsins, eða tölu nafns þess.

Tryggðu þig gagnvart Drottni í dag, gefðu eins og þú hefur aldrei gefið áður því að tímar koma þegar þú munt ekki geta það.

Predikarinn 11:1-2,4 & 6

Varpa þú brauði þínu út á vatnið, því þegar margir dagar eru um liðnir, munt þú finna það aftur. -2- Skiptu hlutanum sundur í sjö eða jafnvel átta, því að þú veist ekki, hvaða ógæfa muni koma yfir landið. 

-4- Sá sem sífellt gáir að vindinum, sáir ekki, og sá sem sífellt horfir á skýin, uppsker ekki. -6- Sá sæði þínu að morgni og lát hendur þínar eigi hvílast að kveldi, því að þú veist ekki, hvað muni heppnast, þetta eða hitt, eða hvort tveggja verði gott.

Ef þú ert að bíða eftir réttum tíma til að gefa, tíma þegar þú ert efnameiri, muntu ekki vera tilbúinn fyrir þá daga sem framundan eru.

Breytingar framundan

Fyrir stuttu deildi ég með ykkur endalokum tímabils. Það er verið er að undirbúa okkur fyrir næstu hreyfingu Guðs. Breytingar geta valdið óróleika fyrir marga, því okkur líður vel með það sem við þekkjum og erum vön. Hins vegar er þörf á breytingum til að vaxa, bæði persónulega og sem líkami, líkt og brimbrettakappi þurfum við að staðsetja okkur til að ná næstu bylgju. Þessi staðsetning er mikilvæg; ef brimbrettakappinn er of langt úti missir hann af öldunni og ef hann er ekki nógu langt úti fellur hann af öldunni og getur slasast illa. Það er afar mikilvægt á þessum tíma að við höfum skilning á þeim tímum og árstíðum sem við erum á.

Myrkir tímar munu koma; en góðu fréttirnar eru:

Jesaja 60:1-3

Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér! -2- Sjá, myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum. En yfir þér upp rennur Drottinn, og dýrð hans birtist yfir þér. -3- Þjóðirnar stefna á ljós þitt og konungar á ljómann, sem upp rennur yfir þér.

Guð blessi þig!

SOTK – Taktu köllunina föstum tökum 5.hluti

SOTK – Taktu köllunina föstum tökum 5.hluti

Hvort þú finnir köllun þína fer eftir hversu mikið þig langar til að finna hana

Oft er ég spurður spurningarinnar „hvernig finn ég það sem Guð hefur kallað mig til“?

Svarið er ekki það sem flestir kristnir vilja heyra. Raunverulega spurningin er hversu alvara ertu með þetta? Hversu mikið þráir þú að vita?

Mundu að allt sem kemur ódýrt endist ekki

Þú verður að leggja allt hjarta þitt í þetta til að vita, þú verður að leita, fasta, banka, biðja. Hversu alvara ertu með þetta?

Jeremía 29:13

Og þér munuð leita mín og finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta,

Ég hef sagt, “ef Guð sýnir mér mun ég gera það”. Ég hef fréttir fyrir þig með þetta viðhorf, þú munt aldrei vita það.

Orðskviðirnir 8:17

Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín ((*snemma), vantar í íslensku þýðinguna), finna mig. 

Snemma hebreska: 7223.; frá H7221; fyrst, á sínum stað eða tíma. Þetta orð hefur merkinguna; vel fyrir sólarupprás. Hvenær neitaðir þú þér síðast um að sofa lengur vegna þess að þú þurftir að finna Guð. Ef þú leitar hans snemma muntu finna hann.

Hósea 5:15

Ég mun fara burt og hverfa aftur á minn stað, uns þeir kannast við afbrot sín og leita míns auglitis. Þegar að þeim þrengir, munu þeir snúa sér til mín ((*snemma), vantar í íslensku þýðinguna).

Við verðum að leita Drottins þar til við vitum um örlög okkar, þar til við höfum einhvern skilning á því hvers vegna við vorum send á þessa jörð fyrir þennan tíma.

Skilgreindu þinn tilgang

Almenn markmið er aldrei hægt að ná, vertu ákveðin! Það er mikilvægt að vita hvað Guð hefur gefið þér að gera.

Safnaðu úrræðum

Þú þarft að safna þeim úrræðum sem þú þarft til að ná markmiði þínu. Fáðu þá þjálfun sem þú þarft. Undirbúa, undirbúa, undirbúa, hefur Guð kallað þig til að stýra trúarhóp á þessum endatímum? Undirbúið efni, gott efni. Uppskeran sem framundan er mun færa ótal manns inn í Guðs ríkið, auðlindir munu klárast, við munum klára biblíubækur og annað gott efni. Undirbúðu þig núna, Jósef sá hvað var í vændum og bjó sig undir að mæta hallærinu þegar það kom. Hvað sem Guð hefur kallað þig til, verður þú að undirbúa þig núna á meðan þú getur, á meðan tækifæri er til.

Einblíndu á þinn tilgang í lífinu

Fólk gerir mistök sem hafa litla þýðingu önnur hafa miklar afleiðingar, en mundu að öll mistök geta orðið endurlausn, sérhvert tap getur breyst í góðan ávöxt sem mun margfaldast. Snúðu aftur að tilgangi þínum, einbeittu þér aftur og þrýstu á, gleymdu þeim hlutum sem eru að baki.

Fílemonsbréfið 3:13-14

Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. -14- En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

Vertu einbeittur og vertu þolinmóður, láttu Guð sýna þér það sem þú þarft til að ná markmiði þínu og tilgangi. Losaðu þig við hluti sem eru ekki mikilvægir fyrir tilgang þinn, hluti sem sóa tíma þínum. Við getum verið svo upptekin að við missum af því mikilvæga, aðskiljum hið góða frá því sem er nauðsynlegt. Það er margt gott sem við getum gert, en þú þarft að einbeita þér að því sem Guð hefur kallað þig til.

Postulasagan 20:24

En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.

Umkringdu þig rétta fólkinu, aðskildu þig frá neikvæðu fólk í lífi þínu, aðskildu þig frá öfundsjúku fólki, þú hefur ekki tíma fyrir þessa vitleysu. Vertu manneskja með trú og framtíðarsýn.

Hvers vegna féll skikkjan á Elísa?

Fyrri Konungabók 19:19

Síðan fór Elía þaðan og hitti Elísa Safatsson. Hann var að plægja. Gengu tólf sameyki á undan honum, og sjálfur var hann með hinu tólfta. Þá gekk Elía til hans og lagði skikkju sína yfir hann.

Hann var að plægja með tólf sameyki af nautum, hvers vegna minnist ritningin á þetta? Þetta var alvöru metnaður í plægingu, venjulega plægir þú með tveimur nautum.

Ef Elísa er svona í veraldlegu starfi sínu, hvernig væri hans vinna í Guðs ríkinu, það er krafist metnaðs af heilum hug, mér hefur fundist margir kristnir vera börn þegar kemur að fórnfýsi og sársauka. Ef þú mætir ekki vegna þess að þú ert með slæman höfuðverk, þá vantar þig þrautseygju, áfram með þig!

Ábyrgð, skuldbinding, trúfesti, fólk vill vera trúboðar en mætir ekki í kirkju vegna þess að það er með höfuðverk. Líttu á Pál, gafst hann upp við mótlæti?

Fyrra Tímóteusarbréf 1:12

Ég þakka honum, sem mig styrkan gjörði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu,

Elísa brenndi brýr sínar á eftir sér. Hann hagræddi lífinu og einblíndi á þá þjónustu sem Guð hafði kallað hann til.

Fyrra Korintubréf 16:13

Vakið, standið stöðugir í trúnni, verið karlmannlegir og styrkir.

Hebreabréfið 6:15

Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.

Síðara Tímóteusarbréf 4:5

En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.

Guð blessi þig!

Páskar / Pesach / Passover

Páskar / Pesach / Passover

Í þessari grein langar mig að varpa ljósi á hina raunverulegu páskahátíð Drottins eins og um hana er ritað í Biblíunni. Þetta er ein af helgustu hátíðum bæði gyðinga og kristinna manna, því hún fjallar um frelsisverk Drottins. Af hverju gerum við það sem við gerum í dag, hvar byrjaði það og er uppruninn frá Guði eða einhverju allt öðru? Því miður hefur hinni heilnæmu kenningu og sannleikanum verið skipt út að miklu leiti fyrir hjáguðadýrkun og heiðna siði. Páskasiðir nútímans eru þar engin undantekning. Við skulum fara í Orðið og lesa hvað það hefur að segja um páskana og skoða hvernig Jesús Kristur uppfyllti þessa hátíð með lífi sínu og fórn.

Uppruni Páskanna | 2. Mósebók 12 kafli

Þá mælti Drottinn við þá Móse og Aron í Egyptalandi á þessa leið: -2- Þessi mánuður skal vera upphafsmánuður hjá yður. Hann skal vera fyrsti mánuður ársins hjá yður. -3- Talið til alls safnaðar Ísraelsmanna og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal hver húsbóndi taka lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hvert heimili. -4- En sé eitt lamb of mikið fyrir heimilið, þá taki hann og granni hans, sá er næstur honum býr, lamb saman eftir tölu heimilismanna. Eftir því sem hver etur, skuluð þér ætla á um lambið. -5- Lambið skal vera gallalaust, hrútlamb veturgamalt, og má vera hvort sem vill ásauðarlamb eða hafurkið. -6- Og þér skuluð varðveita það til hins fjórtánda dags þessa mánaðar. Þá skal öll samkoma Ísraelssafnaðar slátra því um sólsetur. -7- Þá skulu þeir taka nokkuð af blóðinu og ríða því á báða dyrastafi og dyratré húsa þeirra, þar sem þeir eta lambið. -8- Sömu nóttina skulu þeir eta kjötið, steikt við eld. Með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta það. -9- Ekki skuluð þér eta neitt af því hrátt eða soðið í vatni, heldur steikt við eld, höfuðið með fótum og innyflum. -10- Engu af því skuluð þér leifa til morguns, en hafi nokkru af því leift verið til morguns, þá skuluð þér brenna það í eldi. -11- Og þannig skuluð þér neyta þess: Þér skuluð vera gyrtir um lendar yðar, hafa skó á fótum og stafi í höndum. Þér skuluð eta það í flýti. Það eru páskar Drottins. -12- Því að þessa sömu nótt vil ég fara um Egyptaland og deyða alla frumburði í Egyptalandi, bæði menn og fénað. Og refsidóma vil ég láta fram koma á öllum goðum Egyptalands. Ég er Drottinn. -13- Og blóðið skal vera yður tákn á þeim húsum, þar sem þér eruð: Er ég sé blóðið, mun ég ganga fram hjá yður, og engin skæð plága skal yfir yður koma, þegar ég slæ Egyptaland. -14- Þessi dagur skal vera yður endurminningardagur, og þér skuluð halda hann sem hátíð Drottins. Kynslóð eftir kynslóð skuluð þér hann hátíðlegan halda eftir ævarandi lögmáli. -15- Í sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. Þegar á fyrsta degi skuluð þér flytja súrdeig burt úr húsum yðar, því að hver sem etur sýrt brauð frá fyrsta degi til hins sjöunda, hann skal upprættur verða úr Ísrael. -16- Á hinum fyrsta degi skuluð þér halda helga samkomu og sömuleiðis á hinum sjöunda degi helga samkomu. Á þeim dögum skal ekkert verk vinna, nema það megið þér tilreiða, sem hver og einn þarf sér til matar. -17- Þér skuluð halda helga hátíð hinna ósýrðu brauða, því að einmitt á þessum degi leiddi ég hersveitir yðar út af Egyptalandi. Fyrir því skuluð þér halda heilagt þennan dag, kynslóð eftir kynslóð, eftir ævarandi lögmáli. -18- Í fyrsta mánuðinum skuluð þér ósýrt brauð eta frá því um kveldið hinn fjórtánda dag mánaðarins og til þess um kveldið hinn tuttugasta og fyrsta dag mánaðarins. -19- Í sjö daga skal súrdeig ekki finnast í húsum yðar, því að hver sem þá etur sýrt brauð, sá maður skal upprættur verða úr söfnuði Ísraels, hvort sem hann er útlendur eða innlendur. -20- Þér skuluð ekkert sýrt brauð eta. Í öllum bústöðum yðar skuluð þér eta ósýrt brauð. -21- Þá stefndi Móse saman öllum öldungum Ísraelsmanna og sagði við þá: Farið og takið yður sauðkindur handa heimilum yðar og slátrið páskalambinu. -22- Takið ísópsvönd og drepið honum í blóðið, sem er í troginu, og ríðið blóði úr troginu á dyratréð og báða dyrastafina. Og enginn yðar skal fara út fyrir dyr á húsi sínu fyrr en að morgni. -23- Því að Drottinn mun fara yfir landið til þess að ljósta Egypta. Hann mun sjá blóðið á dyratrénu og báðum dyrastöfunum, og mun þá Drottinn ganga fram hjá dyrunum og ekki láta eyðandann koma í hús yðar til að ljósta yður. -24- Gætið þessa sem ævinlegrar skipunar fyrir þig og börn þín. -25- Og þegar þér komið í landið, sem Drottinn mun gefa yður, eins og hann hefir heitið, þá skuluð þér halda þennan sið. -26- Og þegar börn yðar segja við yður: Hvaða siður er þetta, sem þér haldið? -27- þá skuluð þér svara: Þetta er páskafórn Drottins, sem gekk fram hjá húsum Ísraelsmanna í Egyptalandi, þá er hann laust Egypta, en hlífði vorum húsum.

3.Mósebók 23:4-8

Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma. -5- Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins. -6- Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð. -7- Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu. -8- Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu.

Drottinn frelsar Ísrael

Hér fyrir ofan er talað um upphafið af þeirri hátíð Drottins sem kallast Páskar, einnig nefnt Passover eða framhjáganga. Þessi hátíð á að vera haldin árlega til minningar um að Drottinn varðveitti börn Ísraelsmanna og leiddi þá út úr þrældómi Egyptalands inni í fyrirheitna landið.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga í versunum hér að ofan.

  • Upphafsmánuður Ísraelsmanna heitir “Nisan” líkt og upphafsmánuður okkar heitir “Janúar”.
  • Það átti að taka lambið þann 10. Nisan og varðveita það til hins 14. Nisan eða í 4 daga.
  • Dagar eru taldir á milli þess sem sól sest hjá Ísraelsmönnum og fellur yfirleitt í kringum kl. 18:00, ekki á miðnætti eins og á sólardagatalinu okkar.
  • Páskar hefjast þann 14.Nisan við sólsetur og var lambinu slátrað um sólsetur og blóðinu dreypt á dyratréð og dyrastafina og um nóttina átti að eta kjötið.
  • 14. Nisan er einnig aðfangadagur og undirbúningur fyrir “Hátíð hinna ósýrðu brauða”, þar sem allt súrdeig er flutt úr húsum og allt gert klárt fyrir hin árlega hvíldardag.
  • 15. Nisan er árlegur hvíldardagur og fyrsti dagurinn í hátíð hinna ósýrðu brauða. Mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi dagur er ekki sami hvíldardagur og hinn vikulegi “Shabbat” þó að það geti hist þannig á í okkar sólardagatali.

Jesús uppfyllir þessa hátíð/skuggamynd með lífi sínu og dauða á krossi

Við skulum byrja á því að sjá að það er engin leið að telja þrjá daga og þrjár nætur ef Jesús var krossfestur á föstudegi og reis upp fyrir sólarupprás á sunnudegi. Við skulum reyna það og sjá hvað við fáum út.

  1. Jesús er krossfestur um kl. 09:00 að morgni, og um háeigi varð myrkur um allt land til nóns eða kl. 15:00 og þá kallaði Jesús hárri röddu “Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!”, og svo gaf hann upp andann.
  2. Jesús deyr því um kl. 15:00 og við skulum segja að það sé föstudagur. Jósef frá Arímaþeu fer til Pílatusar og biður um líkama Jesú því það var aðfangadagur og mikilvægt að koma líkama Jesú í gröf áður en hvíldardagurinn færi í hönd.
  3. Við sjáum því að Jesús er lagður í gröfina rétt áður en hvíldardagur hefst og við skulum segja að það sé hinn vikulegi “Shabbat” eða hvíldardagur gyðinga. Hér eru því mesta lagi liðnar um 3-4 klst. frá því að Jesús gefur upp andann þar til hann er lagður í gröfina.
  4. Það segir svo í Orðinu að konurnar hefðu komið í dagmál hinn fyrsta dag vikunnar sem er sunnudagur á meðan enn var dimmt og sáu að gröfin var tóm og Jesús þegar upprisinn. Það eru því um 24 klst. + 12 klst. eða um 40 klst.
  5. Það er því engin leið að ná þremur dögum og þremur nóttum með þessari leið. Það er bara ekki hægt að telja þrjá daga og þrjár nætur ef að Jesús á að hafa verið krossfestur á föstudegi.

Er þá Orð Guðs ekki rétt ?

Orð Guðs er sannleikur og Guð er gríðarlega nákvæmur, við sjáum það bara á fyrirmælum hans varðandi undirbúning á páskamáltíðinni sem og aðrar hátíðir, fyrirmyndina af því hvernig musterið átti að byggjast og margt fleira, Guð fer niður í algjör smáatriði og ef við sjáum eitthvað í Orðinu sem virðist vera í þversögn þá þarf bara að rannsaka ritningarnar og leita að sannleikanum.

Orðskviðirnir 25:2

Guði er það heiður að dylja mál, en konungum heiður að rannsaka mál.

Ef við skoðum aðeins það sem ég punktaði hér að ofan sjáum við nokkur atriði sem vert er að skoða betur.

Atburðarrásin

Jesús og lærisveinarnir byrja kvöldið þann 14.Nisan á því að borða saman páskamáltíðina. Þessi máltíð er þekkt sem síðasta kvöldmáltíðin þar sem síðar um nóttina er Jesús tekin höndum í garðinum Getsemane. Jesús er svo leiddur fyrir ráðið þar sem hann er yfirheyrður og síðar leiddur til Pílatusar og Heródesar sem fundu enga sök hjá Honum. Þessa nótt er Jesús húðstrýktur og framseldur til krossfestingar. Um morguninn er svo Jesús krossfestur í kringum klukkan 09:00, það er enn 14.Nisan þegar þetta á sér stað þar sem dagurinn er frá sólsetri til sólseturs hjá gyðingum. 14.Nisan er einnig aðfangadagur og undirbúningur fyrir hátíð hinna ósýrðu brauða, þar sem Ísraelsmenn áttu að fjarlægja allt súrdeig úr húsum sínum og gera klárt fyrir þá hátíð sem varir í 7 daga. Fyrsti dagurinn eða 15.Nisan er sérstakur árlegur hvíldardagur sem fylgir þessari hátíð og hittir ekki endilega á hinn vikulega hvíldardag samkvæmt boðorðinu.

Markúsarguðspjall 15:42-46

Nú var komið kvöld. Þá var aðfangadagur, það er dagurinn fyrir hvíldardag. -43- Þá kom Jósef frá Arímaþeu, göfugur ráðsherra, er sjálfur vænti Guðs ríkis. Hann dirfðist að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú. -44- Pílatus furðaði á, að hann skyldi þegar vera andaður. Hann kallaði til sín hundraðshöfðingjann og spurði, hvort hann væri þegar látinn. -45- Og er hann varð þess vís hjá hundraðshöfðingjanum, gaf hann Jósef líkið. -46- En hann keypti línklæði, tók hann ofan, sveipaði hann línklæðinu og lagði í gröf, höggna í klett, og velti steini fyrir grafarmunnann.

Þá skulum við sýna fram á í Orðinu að þessa viku þegar Jesús er krossfestur hafi í raun verið tveir hvíldardagar, hinn árlegi hvíldardagur hinna ósýrðu brauða á fimmtudegi og svo hinn hefðbundni hvíldardagur á laugardegi.

Markúsarguðspjall 16:10

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann.

Lúkasarguðspjall 23:56

Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Þær fara þann 16.Nisan sem er föstudagur, eftir að hvíldardagurinn þann 15.Nisan var liðinn, sem var hvíldardagur hinna ósýrðu brauða og kaupa ilmsmyrsl. Þær snúa svo aftur og byrja að undirbúa smyrslin um daginn þann 16.Nisan og við sólsetur um kvöldið hefst svo hinn vikulegi hvíldardagur, sem er laugardagur samkvæmt boðorðunum tíu og þá héldu þær kyrru fyrir. Það er svo um morguninn hinn fyrsta dag vikunnar sem þær koma að gröfinni og sjá að hún er tóm og að Jesús er upprisinn.

Lúkasarguðspjall 24:1-3

En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. -2- Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, -3- og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Orð Guðs sýnir skýrt að þessi atburðarrás passar 100% við þau vers sem segja að Jesús myndi vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar og þessi atburðarrás sýnir líka að Jesús uppfyllir skuggamyndina á einstakan hátt.

Matteusarguðsjall 12:38-40

Þá sögðu nokkrir fræðimenn og farísear við hann: Meistari, vér viljum sjá þig gjöra tákn. -39- Hann svaraði þeim: Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar spámanns. -40- Jónas var í kviði stórhvelisins þrjá daga og þrjár nætur, og eins mun Mannssonurinn vera þrjá daga og þrjár nætur í skauti jarðar.

Hér er mynd sem sýnir þetta á myndrænan hátt og að Jesús hafi í raun verið krossfestur á miðvikudegi.

Guð er nákvæmur og uppfylling páskanna í Jesú er stórkostlegur sannleikur

  1. Fjórir dagar: Velja þurfti lamb og koma með það inn í húsið fjórum dögum fyrir páska. Fjórum dögum fyrir dauða sinn á krossinum aðfaranótt páska kom Jesús inn í Jerúsalem á asna. Einnig er einn dagur sem þúsund ár og það voru einmitt 4000 ár frá Adam til Jesú. (2. Mósebók 12:3-6, Matteus 12:1-11, Lúkas 19:29-38, Jóhannes 12:9-16.)
  2. Án lýta: Lambið varð að vera lýtalaust. Án skurðar, marbletta eða vansköpunar. Jesús var lýtalaus. Hann var syndlaus. Pílatus og Heródes fundu enga sök hjá honum. (2. Mósebók 12:5, Lúk 23:14-15, 1. Pétursbréf 1:18-19, )
  3. Allir: Hvert hús og hver fjölskylda varð að hafa sitt eigið lamb. Allir verða að opna sitt eigið hjarta fyrir því sem Jesús hefur gert fyrir þá og persónulega taka á móti honum sem Drottni sínum og frelsara. (2. Mósebók 12:3-4)
  4. 14. dagur: Páskalambið var slátrað aðfaranótt páska, síðdegis á 14. degi Nisan, sem er fyrsti mánuður tímatals Gyðinga. Jesús er lambið sem fórnað var á sama tíma eða á 14. degi fyrsta mánaðar. (2. Mósebók 12:6, Mark. 15:25, 31-38)
  5. Brotin bein: Ísraelsmönnum var ekki leyft að brjóta bein lambsins. Ekki meðan á eldamennskunni stóð og ekki einu sinni meðan því var neitt. Bein Jesú brotnuðu ekki við pyntingarnar sem hann mátti þola við krossfestinguna. (Jóhannes 19:31-36)
  6. Engir afgangar: Það þurfti að neyta lambsins að fullu aðfaranótt páska. Ekkert átti að vera yfir nótt. Jesús var tekinn af krossinum sama kvöld og krossfesting hans var, þó það væri ekki venjan. (2. Mósebók 12:8-10, Jóhannes 19:31)
  7. Frumburður: Lambið dó í stað frumburðar Ísraelsmanna. Jesús dó í okkar stað. Hann var „frumburður margra bræðra“ – Rómverjabréfið 8:29. Hann dó á krossinum til að sameina okkur eða sætta okkur við Guð.
  8. Blóð: Ísraelsmenn þurftu að stökkva blóði lambsins á dyrastafi þeirra sem tákn til Guðs. Sá sem dvaldi í húsinu á bak við blóð lambsins var óhultur fyrir dómi Guðs yfir Egyptum. Hver sem dvelur hjá Jesú og gerir vilja hans, blóð Jesú mun varðveita hann frá dómi. (2. Mósebók 12:7, 12-13, Rómverjabréfið 5:8-10)

Heiðni og hjáguðadýrkun

Árið 325 hélt Konstantínus keisari í Róm ráðstefnu í Nicaea þar sem margar stórar ákvarðanir voru teknar sem hafa sveipað hátíðir Drottins hulu og sannleikurinn hefur grafist undir siðum heiðingja. Konstantínus og ráðið ákvað að páskadagur ætti að vera á sunnudegi og það myndi ganga jafnt yfir alla heimsbyggðina og að siðum gyðinga ætti ekki lengur að fylgja þar sem þeir hefðu gerst sekir um mikla synd að framselja Jesú til krossfestingar.  Þetta ráð hafði einnig það markmið að sameina kirkjuna þar sem mikill ágreiningur ríkti um túlkun Biblíunnar og því voru ýmsar breytingar gerðar sem leiddu okkur frá sönnum rótum trúarinnar, ýtti undir gyðingahatur og greiddi veginn fyrir þeirri villu sem hefur fylgt kirkjunni síðan, þrátt fyrir að markmið Konstantínusar hafi, að því er virðist, átt að útrýma heiðni og kristna allar þjóðir. Ráðið í Nicaea er einnig upphafið af sameiningu ríkis og kirkju.

Páskar eru til dæmis kallaðir “Easter” sem leiða má líkur að eigi sér rætur að rekja til Astarte sem var himnadrottning eða falsgyðja sem var dýrkuð til forna og um er ritað t.d. í Jeremía 7.kafla. Þessi Astarte er gjarnan tengd við frjósemi.

Það er ekkert talað um páskaegg í Biblíunni, en það er hins vegar þekkt að Egyptar og Persar til forna skreyttu egg og gáfu sem gjafir til að dýrka falsguði í von um frjósemi.

Það er heldur ekkert talað um kanínur í Biblíunni varðandi páskahátíð Drottins, en kanínur eru einnig tákn um frjósemi.

Það er því augljóst að í dag hefur sönn túlkun á páskum og því sem Jesús gerði fyrir okkur á krossinum, sem er stærsti og merkilegasti viðburður okkar tíma, verið skipt úr fyrir hjáguðadýrkun og heiðna siði með djúpa tengingu við falsguði.

Aðalatriðið er að taka ákvörðun að fylgja Kristi

Það er yndislegt að rannsaka ritningarnar og sjá sannleikann, því það er sannleikurinn sem mun gera okkur frjáls. Tilgangur óvinarins er að afvegaleiðing frá sannleikanum og þar af leiðandi frá Kristi. Þetta sjáum við glöggt með því hvernig hann hefur náð að rugla páskahátíðinni og mörgu öðru sem viðkemur hinni heilnæmu kenningu sem okkur er gefin í Orði Guðs. Ég hvet þig þess vegna kæri lesandi að lesa í Biblíunni daglega og leita Guðs. Þá mun Guð leiða þig í rétta átt og sýna þér sannleikann og þú munt eignast persónulegt samband við skapara himins og jarðar, Jesú Krist.

Aðalatriðið er að Kristur dó fyrir okkar syndir og það skiptir ekki endilega öllu máli hvaða dag það var. En það er gott að sjá að Orð Guðs er rétt og uppfyllingin er nákvæmlega eftir fyrirmyndinni.

Rómverjabréfið 3:4

Guð skal reynast sannorður, þótt hver maður reyndist lygari, 

Hvað er sannleikur?

Jóhannesarguðspjall 14:6

Jesús segir við hann: Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Ef þú átt ekki lifandi trú á Jesú Krist hvet ég þig til að fara með þessa bæn og hafa svo samband við okkur til að fá leiðbeiningar um hvernig þú getur komist í samfélag við aðra trúaða og fengið leiðsögn varðandi næstu skref.

“Ég trúi því að Jesús Kristur hafi dáið fyrir mig á krossinum og að hann hafi risið upp frá dauðum. Jesús ég bið þig um að koma inn í hjarta mitt á þessu augnabliki, fyrirgefa mér og frelsa mig frá öllum mínum syndum. Ég bið þig um að fylla mig af Heilögum Anda þínum og leiða mig héðan í frá í Jesú nafni.”

Guð blessi þig
Sigurður Júlíusson