Um okkur

Tilgangur Ljós í myrkri er að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist og hann upprisinn.

Ljós í myrkri

Fyrsta vefsíða Ljós í myrkri var lítil blog síða þar sem fyrstu greinar mínar byggðar á Biblíunni og trúargöngu urðu að veruleika. Vefsíðan hefur farið í gegnum nokkrar uppfærslur og markar núverandi síða, sem fór í loftið 22.02.2022, tímamót þar sem ég hef ákveðið að fara aftur af stað eftir 7 ára hlé. Á sínum tíma var Ljós í myrkri með kristilegan þátt í sjónvarpi og reglulegar samkomur, en öll sú þjónusta fæddist út frá fyrstu vefsíðunni og þjónustunni í kringum hana.

 

Orð Guðs er grundvöllurinn

Jesú Kristur er eina leiðin til Guðs og aðeins fyrir Hann öðlumst við eilíft líf

Jóh 14:6

Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.

Guð er einn. Jesús Kristur er birtingarmynd og ímynd hin ósýnilega Guðs

Kól 1:15-20

Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar. Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum. Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu. Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi. 

Guð er góður. Hann elskar þig og vill eiga persónulegt samband við þig í dag

Sálm 34:9

Finnið og sjáið, að Drottinn er góður, sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum.

Lífið er andleg barátta milli góðs og ills og hugurinn er bardagavöllurinn

Efe 6:12

Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.

Orð Guðs (Biblían) er lifandi. Nauðsynlegt er að lesa og biðja daglega

Heb 4:12

Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

Helgun er nauðsynleg til að sigrast á anda heimsins

Heb 12:14

Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.

Hver og einn hefur köllun og hlutverk í Kristi. Við þurfum að gera þá köllun og útvalning vissa

2.Pét 1:10

Kostið þess vegna því fremur kapps um, bræður, að gjöra köllun yðar og útvalning vissa. Ef þér gjörið þetta, munuð þér aldrei hrasa.

Það styttist í endurkomu Jesú og við verðum að vaka og hafa olíu á lömpum okkar

Matt 25:1-13

Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér, en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu. Um miðnætti kvað við hróp: Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað. Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki. Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Okkar hlutverk er að vitna um Krist og allt það góða sem hann hefur gert fyrir okkur.

Matt 28:19

Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.

Okkar markmið

  • Tilgangur Ljós í myrkri er að breiða út fagnaðarerindið um Jesú Krist og hann upprisinn.
  • Vitna um kraft Guðs og öll hans kraftaverk. Jesús Kristur er sá sami í gær, í dag og um aldir.
  • Elska Guð af öllu hjarta og náungan eins og okkur sjálf.
  • Biðja fyrir kirkju Krists og þjóðunum þar til við sjáum vakningu breiðast út um allan heiminn.
  • Byggja upp líkama Krists þar til við verðum öll einhuga í trúnni og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.
  • Leggja hendur yfir sjúka og sjá þá heila og reka út illa anda.
  • Styrkja og hjálpa þeim eftir fremsta megni sem eru í nauðum, fátækt og erfiðleikum.

 

Ef að þú átt ekki lifandi samfélag við Jesú Krist og þráir að kynnast Guði getur þú beðið hann að koma inn í þitt líf hér og nú með því að fara með frelsisbæn í einlægni hjartans.

Ég trúi því að Jesús Kristur hafi dáið fyrir mig og að hann hafi risið upp frá dauðum. Jesús ég bið þig um að koma inn í hjarta mitt á þessu augnabliki og frelsa mig frá syndum mínum. Jesús ég býð þig velkominn inn í líf mitt og ég bið þig um að leiða mig héðan í frá. Ég bið þig að fylla mig af anda þínum heilagi faðir, ég þakka þér að ég er nú þitt barn.

Náð Guðs veri með þér.

Rómverjabréfið 12 kafli.

Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna. Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum. Vér höfum á einum líkama marga limi, en limirnir hafa ekki allir sama starfa. Eins erum vér, þótt margir séum, einn líkami í Kristi, en hver um sig annars limir. Vér höfum margvíslegar náðargjafir, eftir þeirri náð, sem oss er gefin. Sé það spádómsgáfa, þá notum hana í hlutfalli við trúna. Sé það þjónusta, skulum vér þjóna. Sá sem kennir, hann kenni, sá sem áminnir, hann áminni. Sá sem útbýtir gjöfum, gjöri það í einlægni. Sá sem veitir forstöðu, sé kostgæfinn og sá sem iðkar miskunnsemi, gjöri það með gleði. Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda, en haldið fast við hið góða. Sýnið hver öðrum bróðurkærleika og ástúð, og verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing. Verið ekki hálfvolgir í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glaðir í voninni, þolinmóðir í þjáningunni og staðfastir í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra, stundið gestrisni. Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum. Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn. En ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum. Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.