Af öllu því sem við teljum skipta máli hér á jörð, ef við eigum ekki kærleika erum við illa stödd. Ég hef lesið um og heyrt vitnisburði frá fólki sem fékk að skyggnast inn í himnaríki eftir að hafa dáið hér á jörðunni en komið svo til baka aftur eftir endurlífgun. Hvað heldur þú að þau hafi fengið að upplifa eða sjá?

Bob Jones sá hvernig röð að fólki sem hafði nýlega dáið á jörðunni og var hólpið gekk fram hjá Jesú og það eina sem Hann spurði þau að, var; “Lærðir þú að elska?”

Önnur frásaga er frá manni sem hét Jón Jóhannsson, sem á 19. aldursári árið 1867, dreymdi athyglisverðan draum. Hér er brot úr honum;

“En hvað kemur til þess“, sagði ég ennfremur, „að hinir voldugustu eru eigi látnir vera innstir, en hinir auvirðilegustu fremstir?“ „Eigi er hér farið eftir slíku“, mælti hann, „heldur er sá settur innst, sem flest hefur gjört góðverk á jörðinni, en hinn er þau gjörir fæst, er settur fremstur, en sérhver er þó ánægður með þann stað, sem honum er úthlutaður, hvort sem hann er innarlega eða framarlega”.

Markúsarguðspjall 12:29-31

Jesús svaraði: Æðst er þetta: Heyr, Ísrael! Drottinn, Guð vor, hann einn er Drottinn. -30- Og þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum. -31- Annað er þetta: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ekkert boðorð annað er þessum meira.

1.Korintubréf 13 kafli

Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. -2- Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. -3- Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari. -4- Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. -5- Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. -6- Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. -7- Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. -8- Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok. -9- Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum. -10- En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.-11- Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn. -12- Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn. -13- En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.

1. Pétursbréf 4:8

Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.

Orðskviðirnir 17:9

Sá sem breiðir yfir bresti, eflir kærleika, en sá sem ýfir upp sök, veldur vinaskilnaði.

Sakaría 7:9

Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi.

Jóhannesarguðspjall 15:13

Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.

Rómverjabréfið 5:8

En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.

Galatabréfið 5:22

En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.

Efesus 4:2

Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.

Við skulum ekki vera eins og farísearnir forðum sem vildu stöðuglega treysta ytri yfirburðum og berja þá niður sem ekki stóðust kröfur lögmálsins.

Minnstu þess heldur hvernig þú tókst á móti, hversu þolinmóður og miskunnsamur Guð hefur verið þér.

Ef menn vissu alla þína bresti, fyrir hversu löngu heldur þú að þeir væru búnir að afskrifa þig!

Úr því að Guð hefur sýnt okkur slíka miskunn í Jesú Kristi og hefur ekki bara fyrirgefið, heldur einnig greitt gjaldið fyrir allar okkar syndir, sem þýðir í raun að hann er stöðuglega að fyrirgefa, svo framarlega að beðið sé um það.

Þannig skulum við einnig sýna öðrum miskunn og fyrirgefa!

Náð Guðs veri með þér!

“Do all the good you can. By all the means you can. In all the ways you can. In all the places you can. At all the times you can. To all the people you can. As long as ever you can.”
― John Wesley