Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir. Heb 13-7-8

Virðið fyrir yður ævi þeirra sem á undan fóru og líkið eftir trú þeirra – Hvers vegna legg ég svo mikla áherslu á þetta?

Það er fátt sem sýnir betur hvernig hægt er að upplifa Guð og kraft hans en frásögur af lífi og afrekum þeirra sem á undan okkur fóru. Þessir vitnisburðir sýna berlega hvernig lífi þessar hetjur lifðu. Kærleikinn, helgunin, trúfestin og hugrekkið sem þau sýndu til að lifa í vilja Guðs, stöðug fórn fyrir Guð og menn.

Líf manna eins og William Branham, John G.Lake, Smith Wigglesworth og kvenna eins og Kathryn Kuhlman, Maria Woodworth Etter, Aimee Semple McPherson svo einhverjar séu nefndar. Ég get nefnt marga aðra sem hafa haft mikil áhrif á mig en þessar trúahetjur hér að ofan eru líklega með þeim þekktari sem voru uppi á síðustu öld. Þekkir þú líf þeirra og ertu að líkja eftir trú þeirra?

Til eftirbreytni

Ég er viss um að ef þessir vitnisburðir, þessar sögur um samfélag manna við Guð væri þekktar meðal fólks í dag, væri staðan ekki eins slæm og hún er andlega. Það virðist vera að djöflinum hafi tekist að einhverju leiti að hylja yfir þessa vitnisburði með illum orðrómi og öðrum brögðum, þannig að sú arfleifð sem okkar kynslóð átti að erfa er oss hulinn og gleymd. Það er óskiljanlegt að þessar sögur skulu vera að mestu leiti óþekktar og ókenndar í kirkjum og söfnuðum heimsins. Við höfum þó enn tækifæri til þess að gera betur.

Þetta eru sterkar fyrirmyndir eins og persónur Biblíunnar. Í þessu tilfelli er sagan nær okkur og heimildirnar ekki svo ýkja gamlar. Það ætti að gefa okkur öllum von um að með réttri Guðsdýrkun og helgun er enn möguleiki á að sjá kraft Guðs starfa kröftuglega á meðal okkar.

Það krefst hugrekkis að vitna fyrir öðrum og að vera öðruvísi. Það eru nýleg dæmi sem sýna það að ef einhver minnist á eitthvað sem ekki er vinsælt í heiminum, flæðir yfir viðkomandi árásir og ofsóknir. Engan ætti að undra, lærisveinarnir gengu í gegnum nákvæmlega það sama og gáfu flestir á endanum líf sitt fyrir að segja sannleikann.

Helgun og friður

Það er á hreinu að það er engin leið fyrir okkur að verða eins og þær fyrirmyndir sem ég nefndi áðan, án Krists. Það var einmitt sú opinberun sem knúði allt þetta fólk til þess að leita Guðs af öllu hjarta og ávöxturinn af því var sannur friður.

Ég er að lesa klassíska kristna bók sem heitir, The Pursuit of God, eða Leitin að Guði – eftir A.W. Tozer sem var uppi á síðustu öld. Hún fjallar meðal annars um helgun og hvernig við finnum vilja Guðs.

A.W. Tozer (1897-1963) skrifar í inngangi bókarinnar. Sannur sálarfriður, ávöxtur þeirra sem raunverulega leita Guðs, er sjaldséður hjá Kristnum í dag (skrifað snemma á 20 öldinni).
Allt of margir hafa sæst á að ófriður sé hluti af raunveruleikanum og hafa hætt að leita Guðs af öllu hjarta.

Jóh 14:27

Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.

Það er raunverulegur friður í boði í dag og hann finnur þú aðeins í Guði.

Friður er hugafar og í Kristi er eilífur friður og sálarró. Hvað sem á dynur í heiminum, þínu lífi eða í þinni þjóð. Ef þú leitar Guðs raunverulega af öllu hjarta, alla daga og átt persónulegt samfélag við Hann. Þá á ekki einu sinni ótti við dauðann að hafa áhrif á þig.

Helgun er sú leið sem allir þufa að fara

Sú sorglega staðreynd er sú að maðurinn hefur snúið sér frá því að dýrka skapara sinn yfir í það að dýrka hið skapaða. Eftirsókn eftir hlutum er djúp þrá sem flestir stjórnast af í dag, útlitsdýrkun, stöðudýrkun og svo mætti lengi telja. Hvað segir Jesús um allt þetta?

Matt 16:25

Því að hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.
Fyrir þá sem vilja komast nær Guði

Jesús sagði sá sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér! Ef við náum að gjörsigra alla eftirsókn eftir vindi og dauðum hlutum, sem engin tekur með sér eftir að þessu lífi lýkur. Þá finnum við raunverulega lífið og öðlumst raunverulegan frið.

Vers um Helgun

Róm 12:1-2

Því brýni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram sjálfa yður að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn og rétt guðsdýrkun af yðar hendi. -2- Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.

Kól 3:1-2

Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. -2- Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er.

Heb 12:14

Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.

1. Þess 4:7

Ekki kallaði Guð oss til saurlifnaðar, heldur helgunar.

2. Kor 7:1

Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.

Heb 12:10

Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.

Guð er heilagur og til þess að finna Hann þá þurfum við að vera heilög. Tölum eitt skref í einu og biðjum Guð að sýna okkur hvað við getum gert til þess að vinna þennan sigur sem allir menn þurfa að vinna vilji þeir finna Guð.

Látum Orð Guðs tala til okkar og verum ekki aðeins áheyrendur, heldur gerendur og tökum háttaskipti hugarfarsins. Helgum okkur af öllu hjarta og sigrum þessa öld eins og trúarhetjurnar gerðu á öldum áður.

Náð Guðs veri með yður.

“To be in Christ – that is redemption; but for Christ to be in you – that is sanctification!”
― W. Ian Thomas