Við áramót eru margir sem setja sér markmið. Margir gefast fljótt upp og falla til baka í sama gamla farið á meðan aðrir ná markmiðum síðum. Sum markmið eru óraunhæf en önnur gerleg.

Hvað skilur í sundur þá sem ná sínum markmiðum og þeim sem ná þeim ekki og hvernig getur þú sett markmið sem þú nærð að standast?

Eins og með allt í þessu lífi þá höfum við einn raunverulegan leiðarvísir þar sem allur sannleikur býr og ef við byggjum ekki líf okkar á honum þá munum við bregðast að lokum. Því án Guðs er engin leið að frelsast frá dauðanum sem ætti að vera okkar æðsta markmið, þ.e að öðlast eilíft líf. Við höfum mörg vers í Biblíunni sem kenna okkur um markmið og hvernig við náum raunverulegum árangri.

Hvað eru göfug markmið?

Markmiðin eru misjöfn eins og þau eru mörg. Geta verið betri heilsa, hollara mataræði, fara í ræktina, verða betri manneskja, eignast meiri fjármuni, fá betri vinnu, verða betri foreldri, læra á hljóðfæri svo eitthvað sé nefnt. Það eru mörg göfug markmið sem geta gert líf okkar betra á þessari jörð. Þessi markmið krefjast öll fórna, metnaðar, sjálfaga og fl. Til að fá betri vinnu og hærri laun, þá þarf þú að verða betri, þú þarft mögulega að auka þekkingu þína, auka afköst þín, standa þig betur en þú hefur gert.

“Life and business is like the changing seasons. You cannot change the seasons, but you can change yourself. Therein lies the opportunity to live an extraordinary life–the opportunity to change yourself.” – Jim Rohn

Ég hef lesið margar af þekktustu sjálfshjálparbókum þessa heims eins og “Think and Grow Rich”, “7 Strategies for Wealth and Happiness”, “How to Win Friends & Influence People”, Eat That Frog”, “The 7 Habits of Highly Effective People”, Rich Dad, Poor Dad” og fleiri. Þrátt fyrir að ég sé ekki sammála öllu í þessum bókum þegar ég ber þær saman við bók bókanna “Biblíuna”. Þá eiga þessar bækur það allar sameiginlegt að byggja boðskap sinn á lögmálum Guðs, því jú það eru engin önnur lögmál. Við getum svo sannarlega haft önnur markmið en að verða bara rík á fjármuni. Það sem þessir aðilar eiga sameiginlegt er að þeir náðu undraverðum árangri í því sem þeir tóku sér fyrir hendur og því er hægt að nota sömu aðferðir til þess að ná andlegum og göfugum markmiðum.

Andlegar rætur orsökin af öllum okkar brestum

Hér liggur leyndardómur sem fæstir hafa í huga þegar þeir setja sér markmið. Markmið eru skrifuð niður og svo hefst baráttan, einn dag í einu, borða hollt, fara í ræktina, svo líða dagarnir og áður en þú veist af eru markmiðin brostin og allt komið í sömu venjur og áður. Það þarf að skoða rótina, hvers vegna er ég í yfirþyngd, hvers vegna borða ég allt of mikið af sætindum, hvers vegna drekk ég of mikið áfengi, hvers vegna leita ég í þetta eða hitt sem er ekki gott fyrir mig? Yfirleitt er það vegna þess að það er verið að deyfa andlegan sársauka tímabundið með holdlegum nautnum. Ef það er ekki tekist á við rótina, andlegu meinin og sársaukann, eru yfirgnæfandi líkur á að markmiðin verði að engu og sömu gömlu leiðirnar farnar til að deyfa. Við þurfum að biðja Guð um að rannsaka hjörtun okkar og sýna okkur hvar rótin liggur og biðja Hann um að hjálpa okkur að græða sárin.

Þrjú skref grundvöllurinn að því að ná markmiðum

Fyrsta skrefið: Matt 6:33

“…leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.”

Hér liggur lykillinn að allri velgengni. Þetta er langt frá því að vera eina versið í Biblíunni sem kennir, að ef við leitum vilja Guðs, fylgjum Hans Orði og lögmálum þá mun okkur vegna vel. Drottinn er með okkur, ekki á móti, og Hann vill að okkur vegni vel. Hann hefur gefið okkur lögmálin til þess að skilja þau og breyta eftir þeim og þau hafa ekki breyst. Þau hafa verið eins frá grundvöllun veraldar og ef að höfundar bókanna sem ég nefndi fyrir ofan náðu árangri með því að fylgja lögmálum Guðs, getur þú það.

“Success is nothing more than a few simple disciplines, practiced every day.” – Jim Rohn

Annað skrefið: Orðskv. 16:1-3

Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi, en svar tungunnar kemur frá Drottni. -2- Manninum þykja allir sínir vegir hreinir, en Drottinn prófar hugarþelið. -3- Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða.

Það eru mörg vers sem sýna okkur að það er gott að setja sér markmið og fyrirætlanir. Þau þurfa samt að vera samkvæmt vilja Guðs og því sem er gott fyrir líf okkar. Markmið þessa lífs er ekki eitthvað sem við náum og er svo bara komið. Markmiðin þurfa að verða lífsstefna og raunveruleg rútína alla daga. Þú borðar ekki hollt í þrjár vikur og þá er þetta bara komið. Við erum í raunverulegri baráttu við holdið og djöfulinn sem stöðuglega reynir að ánetja okkur óhollum lífsskaðandi venjum sem að lokum leiða til dauða. Við verðum að hafa mun háleitari markmið en svo að við ætlum að taka einhvern kúr eða hætta einhverju um stund, hvíla okkur aðeins á einhverju. Við þurfum að útrýma hinu illa úr lífi okkar í eitt skipti fyrir öll og keppast að markinu sem er vaxtartakmark Krist fyllingar. Aðalmarkmiðið er svo hægt að brjóta niður í mörg undirmarkmið sem auðvelda sigur. Hér fyrir neðan ætla ég að útlista mín markmið og ávinninginn.

Ég setti mér markmið fyrr á þessu ári sem hljómaði svona:

Halda áfram að stíga inn í köllun mína og þjónustu og byrja á litlum skrefum eins og að skrifa greinar. Síðar taka upp myndskeið. Tilgangurinn er að gera köllun mína og útvalningu vissa.

Þetta var í ágúst sl. og hef ég síðan þá skrifað nokkrar greinar, hafið þjónustu í United RVK þar sem ég bæði er í fyrirbænaþjónustu og hef verið að kenna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef skrifað niður markmið mín og séð þau ganga í uppfyllingu. Ég get listað upp fullt af markmiðum undanfarin ár sem hafa gengið í uppfyllingu með því að skrifa þau niður og brjóta þau upp í undirmarkmið. Þannig að ég veit að þetta virkar og virkar vel sé rétt af því staðið.

Nú hef ég uppfært markmið mín sem er gott að gera reglulega, það verða stundir þar sem við bregðumst og föllum í gamla farið, en ekki gefast upp. Alltaf að rísa upp aftur og halda áfram!

Orðskv. 16:26-27

Gjör braut fóta þinna slétta, og allir vegir þínir séu staðfastir. -27- Vík hvorki til hægri né vinstri, haltu fæti þínum burt frá illu.

Mín markmið fyrir 2023

Aðalmarkmið

Verða eitt með Guði og ná vaxtartakmarki Krists fyllingar svo Guð geti notað mig ásamt öðrum á undursamlegan hátt til að leiða fjölda til trúar og lækninga, með kraftaverkum, táknum og undrum.

Undirmarkmið 1 – Heilsa, mataræði og aukin hamingja:

  1. Vakna 05:30
  2. Biðja og lesa í Orðinu
  3. Borða hollan mat og taka út sætindi
  4. Æfa reglulega og teygja
  5. Hugleiðsla og göngutúrar
  6. Upp í rúm að lesa 22:00 og sofa 22:30

Ávinningur: Þetta undirmarkmið mun gera mér betur kleift að höndla áskoranir lífsins, hafa aukið úthald, betri heilsu, andlegt jafnvægi, aukna gleði og hamingju til að leita og þjóna Drottni af öllu hjarta, verða betri faðir og manneskja í öllum samskiptum og kærleika.

Undirmarkmið 2 – Betri faðir:

Byggja upp börnin mín upp í trú á Jesú Krist, þjálfa þau í samskiptum, fjármálum, markmiðum, kærleika, hlýðni, umgengni, og öðrum góðum kostum.

Ávinningur: Lykilskylda mín sem faðir er að undirbúa börnin mín fyrir lífið og framtíðina. Ávinningurinn er mikill í formi samskipta, umgengni, hjálpsemi og gæðastunda með fjölskyldunni. Einnig er mikill ávinningur fyrir þau að vera vel undirbúin fyrir lífið og þær áskoranir sem bíða þeirra.

Undirmarkmið 3 – Verða skuldlaus:

Þetta markmið þarf að vinna markvisst og skera niður útgjöld þar sem hægt er. Byrja á því að gera áætlun, borga niður fyrst lánin með hæstu vextina og leita leiða til að hagræða í rekstri og tekjum.

Ávinningur: Að skulda engum neitt er það sem við eigum að sækjast eftir og hefur gríðarlegan ávinning í för með sér. Minna stress, færri áhyggjur, meiri tími til að einbeita sér að aðal- og undirmarkmiðum. Auknar gæðastundir með fjölskyldunni og sjálfum sér.

Undirmarkmið 4 – Verða góður á gítar:

Læra að spila öll lofgjörðarlög á gítar og geta spilað í flæði og söng án texta.

Ávinningur: Það er góð tilfinning að geta spilað vel á hljóðfæri og geta betur lofað Drottinn í söng og lofgjörð bæði einsamall og í hópi.

Vel útfærð markmið eru mun líklegri til að verða að veruleika og geta hjálpað þér að verða besta útgáfan af sjálfum þér. Hér er tengill á skjal sem ég hef útbúið fyrir ykkur ef þið viljið setja ykkur markmið á nýju ári.

Hlekkur á skjal: Markmið 2023

Þessi aðferð hentar ekki endilega öllum en hún hefur reynst mér gríðarlega vel. Ég hef því gefið mér tíma til þess að setja þetta niður á persónulegan hátt svo það geti orðið ykkur til innblásturs og blessunar.

Hér eru nokkur öflug vers sem gott er að hafa í huga varðandi markmið, en allt sé gert í samræmi við vilja Guðs fyrir líf eins og hvers.

Fil 3:13-14

Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. -14- En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem fram undan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

Jak 4:13-14

Heyrið, þér sem segið: Í dag eða á morgun skulum vér fara til þeirrar eða þeirrar borgar, dveljast þar eitt ár og versla þar og græða. -14- Þér vitið ekki hvernig líf yðar mun verða á morgun. Því að þér eruð gufa, sem sést um stutta stund en hverfur síðan. -15- Í stað þess ættuð þér að segja: Ef Drottinn vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað.

Fil 4:8 og 13

-8- Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.

-13- Allt megna ég fyrir hjálp hans, sem mig styrkan gjörir.

Orðskv. 16:3

Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða.

Megi Guð gefa þér blessað og farsælt ár 2023.

Sigurður Júlíusson