Hér fyrir neðan eru fimm atriði sem fjalla um að ná árangi í því sem við tökum okkur fyrir hendur og þá ekki síst trúargöngunni.

Settu þér markmið og fylgdu þeim eftir af öllu hjarta. Þú ert meira en sigurvegari fyrir Jesú Krist og mundu að meiri er sá sem er í þér en sá sem er í heiminum.

1. atriði:

Trú er fyrsta skrefið í átt að velgengni ( Þú verður að trúa að þú getir hvað sem er)

Sá getur allt sem trúir. (Mark 9:23)

Dæmi: Menn höfðu trú fyrir því að komast á tunglið. Í Hebreabréfinu 11. kafla er talað um trúarhetjurnar.  Menn hafa trúað og náð árangri á öllum sviðum lífsins og hægt er að taka mörg dæmi en trúin er skilyrði.

2. atriði:

Þú verður að þrá það sem þú vilt ná fram í lífinu af öllu hjarta.

Sál mín tærist af þrá eftir hjálpræði þínu, ég bíð eftir orði þínu. (Sálm 119:81)

Dæmi: Allir sem sem hafa átt trú um að þeir gætu eitthvað, áttu einnig þvílíka þrá um að sjá það verða að raunveruleika sem þeir trúðu á sbr. dæmið hér fyrir ofan.

3. atriði:

Þú verður að beina hugsunum þínum í átt að takmarkinu og hugsa aðeins jákvæðar hugsanir.

Það sem maður hugsar í hjarta sínu, er hann. (Orðskv 23:7)

Dæmi: Þú mátt ekki hugsa um að þú getir ekki, að það sé of erfitt, það tekur of langan tíma, því þá mun þér mjög líklega mistakast. En ef þú hugsar í trú um að þú getir það þrátt fyrir alla þá mótstöðu sem kann að koma gegn þér og þú heldur áfram að hugsa ég get, ég þrái, ég trúi þá munt þú ná árangri í lífinu. Í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur.

4. atriði:

Þú verður að vera dugleg/ur og keppast að takmarkinu allt þitt líf og ekki gefast upp.

Vitið þér ekki, að þeir, sem keppa á íþróttavelli, hlaupa að sönnu allir, en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig, að þér hljótið þau. Sérhver, sem tekur þátt í kappleikjum, neitar sér um allt. Þeir sem keppa gjöra það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig, en vér óforgengilegan. (1. Kor 9:24-25)

Dæmi: Það er fátt í heiminum sem er frítt og fæst án þess að eitthvað sé gert í staðinn. Til þess að lifa þarf að þéna peninga. Til þess að öðlast menntun þarf að læra o.s.frv.

Allir þeir sem eru duglegir og eru tilbúnir að leggja mikið á sig til þess að láta drauma sína rætast munu uppskera hamingju, sjálfsöryggi, frið, gleði og svo mætti lengi telja. En allt sé gert í Drottni.

5. atriði:

Þolinmæði er fimmta atriðið og geta hin atriðin ekki án hennar verið.

En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði. (Róm 8:25)

Dæmi: Við vitum að ekkert gerist af sjálfum sér og oft þurfum við að bíða lengi eftir ýmsum hlutum. T.d að klára framhaldsskóla tekur yfirleitt 4 ár, en með mikilli vinnu, þrá og trú er hægt að klára hann á styttri tíma og spara sér þannig tíma. Allt tekur tíma en með vinnusemi, skipulagningu, þrá og trú er oft hægt að stytta biðtímann töluvert.

Náð Guðs veri með yður.