William Marrion Branham var bandarískur lækningapredikara og spámaður sem hóf lækningavakninguna miklu eftir síðari heimsstyrjöldina. Hann fæddist þann 6.apríl árið 1909 og þjónaði Guði í 56 ár áður en hann fór heim til Drottins þann 24.desember 1965.

William Branham var ein af þýðingamestu persónum síðari tíma og hefur engin af öllum þeim sem ég hef kynnt mér haft jafn mikil áhrif á líf mitt og trúargöngu.

Óvenjulegur atburður átti sér stað við fæðingu hans því að ljós kom inn í litla fjallakofann þar sem hann fæddist og hvíldi yfir honum í stutta stund. Móðir hans mundi alltaf eftir þessum atburði og hugsaði með sér að hugsanlega yrði þessi drengur sérstakur.

Strax sem ungur drengur byrja óskiljanlegir hlutir að gerast og eitt skipti sá hann lítinn hvirfilvind og heyrði rödd út úr honum sem sagði, þú skalt aldrei reykja eða drekka því ég hef verk fyrir þig að vinna þegar þú verður eldri. Af þessu má sjá að Guð var með honum frá fæðingu og átti svo sannarlega eftir að uppfylla þessi orð sem hann hafði talað til hans í gegnum hvirfilvindinn.

William ólst upp við mikla fátækt, svo mikla að hann átti í vandræðum með að hafa föt í skólann, einnig fannst honum hann alltaf öðruvísi sem barn vegna þessara einkennilegu atburða sem komu fyrir hann.

Þegar hann verður eldri þá kynnist hann konu sem hét Hope og byrjar að fara með henni í kirkju.  Þar finnur hann sig vel til að byrja með. Fljótt fer að bera á fleiri yfirnáttúrulegum hlutum í lífi hans. Hann fer að sjá sýnir sem sýna í mikilli nákvæmni atburðarrás þar sem hann sér sjálfan sig biðja fyrir mjög sjúku og slösuðu fólki og það verður alheilt. Stuttu eftir sýnirnar lendir hann í sömu kringumstæðum og hann hafði séð í sýninni og fólkið læknast fullkomlega. Hann á erfitt með að skilja það sem er að gerast fyrir hann. Eitt sinn þegar hann fær sýn þar sem Jesús birtist honum, fer hann að spyrja aðra guðsmenn sem hann þekkti og sinn eiginn forstöðumann, hvað væri að gerast með líf hans. Hann fékk þau svör að hann ætti að láta þetta eiga sig og að þetta væri frá djöflinum, að hann ætti bara að lesa í Biblíunni, biðja og þá myndi honum farnast vel.

Þarna sjáum við enn og aftur hvernig sumir taka við því sem Guð er að gera. Þeir skilja ekki það sem er að gerast, óttast það og segja það frá djöflinum. Þetta var eins á þeim tímum þegar Jesús þjónaði á jörðinni. Fræðimennirnir og farísearnir sögðu hann gera kraftaverkin fyrir fulltingi illra anda.

William sá fljótt að mikill ágreiningur var um Biblíunna á milli kirkjudeilda og að fáum bar saman. Þetta gerði hann enn ringlaðari um hver Guð raunverulega væri og hvar Hann væri að finna. Þá tók hann ákvörðun um að hann myndi fara út í skóg og ekki koma aftur fyrr en Guð myndi gefa honum svar um hvað væri rétt og honum var alvara.

Guð sendir engil

Hann fer og finnur helli, fer inn í hann og byrjar að bíða. Tíminn líður en Guð sendir honum engil sem segir að Guð muni nota hann til að fara með fagnaðarerindið út um allan heim, að sjúkir munu læknast, kraftaverk munu gerast og meira að segja að hann muni biðja fyrir konungum. Þessu átti hann erfitt með að trúa þar sem hann var bara fátækur sveitamaður. Engillinn sagði að Guð myndi gefa honum tvö tákn eins og Móse voru gefin tvö tákn til að fólkið myndi trúa. Fyrra táknið var að hann myndi greina í hönd sinni sjúkdóm þess sem hann myndi taka í höndina á, síðara táknið var að hann myndi geta séð inn í líf fólks á yfirnáttúrulegan hátt.

Þetta  rættist heldur betur og fór hann út um allan heim að þjóna Guði. Kraftaverkin sem áttu sér stað voru svo yfirnáttúrleg að ég hef ekki vitað annað eins, fólk reis upp frá dauðum, það þurfti sendiferðabíla eftir samkomur til að sækja tóma hjólastóla, hækjur og allaveganna hjálpartæki sem fólk skildi eftir, eftir að hafa fengið fullkomna lækningu. Það voru þó ekki bara kraftaverkin sem gerðu hann frábrugðin hinum hetjum Guðs. Það var annað táknið sem engillinn hafði sagt að Guð myndi gefa honum og opinberunin sem Guð gaf honum sem skar hans þjónustu úr. Spádómsgjöfin var svo öflug í lífi hans að hann tók heilu raðirnar af fólki sagði þeim hvað þau hétu, hvar þau áttu heima, hvað væri að hrjá þau, hvað þau voru að hugsa. Trúin sem myndaðist, þegar hann var að opinbera um líf fólks upp á sviði og lýsa fólk læknað, er eitthvað sem ég get ekki lýst, stundum varð hún svo öflug að fólk út um allan sal henti frá sér hækjum, steig upp úr hjólastólum og læknaðist af allaveganna sjúkdómum.

Ég vil segja eftir að hafa kynnt mér líf þessa manns að ég hef ekki kynnst eins auðmjúkum manni, sem elskaði Drottinn og fólk af öllu hjarta og lagði líf sitt í sölurnar fyrir fagnaðarerindið. Þessi þjónusta kom ekki án verðs eða þrenginga, William gekk í gegnum hræðilega hluti, þrengingar, veikindi, margir af vinum hans snérust gegn honum og hrakyrtu hann, og enn þann dag í dag er boðskapur hans kallaður villa af mörgum.

William Branham er sérstakur að mínu mati vegna þess að ég trúi hann var spámaður sendur fyrir síðustu tíma, til að leiðrétta hina sönnu kirkju fyrir komu Krists. Guð sagði það sjálfur árið 1933 þegar William Branham var að skýra í Ohio ánni. Þá kom ljós niður af himni og rödd sagði; “eins og Jóhannes skírari var sendur til að boða fyrri komu Krists, eins ert þú sendur með boðskap til að boða seinni komu Krists”. Þrjú þúsund manns voru viðstaddir þegar að þetta gerðist og heyrði fólkið ýmist röddina eða sáu ljósið. Um þennan atburð var fjallað í fréttablöðum á staðnum og spurðist um allt. Þetta var staðfest tvisvar í viðbót, fyrra skiptið þegar einstaklingur talaði í tungum á einni samkomunni og annar túlkaði; “eins og Jóhannes var sendur til að boða fyrri komu Krists, eins ert þú sendur til að boða seinni komu Krists”. Síðara skiptið var þegar maður kom upp að William á einni samkomunni og spurði hann hvernig hann stafaði nafnið sitt og þegar hann sá það hrópaði hann til móður sinnar og sagði; “þetta er hann”. Móðir mannsins kom þá og sagði að fyrir 22 árum eða þegar William Branham var 16 ára, þá hefði hún og maðurinn hennar verið að biðja, hún í tungum og maðurinn hennar útlagði og hún sýndi William miða sem á stóð; “Svo segir Drottinn: Á síðustu dögum, áður en Drottinn kemur, mun ég senda þjón minn William Branham upp vesturströndina”.

Það voru mörg önnur yfirnáttúruleg tákn sem Guð gaf til að staðfesta að þarna væri þjónn Hans á ferð, tákn sem ég hef ekki séð í neinni annarri þjónustu. Það er eitthvað alveg sérstakt við það sem Guð var að gera þarna og það sem skiptir öllu máli er að vita hvað það var og taka á móti því.  Þetta snýst ekki um sendiboðann heldur skilaboðin sem hann gaf og hægt er að lesa um í ævisögunni. Einnig er hægt að hlusta á yfir 1100 prédikanir sem Branham skildi eftir sig í snjallforritinu “The Table“, því Drottinn lagði mikla áherslu á að skilaboðin yrðu vandlega varðveitt og aðgengileg öllum.

Ég hvet ykkur til  að skoða líf þessa manns, ég tel það mjög þýðingarmikið fyrir alla að vita hvað Guð gerði í gegnum líf hans og hvaða opinberanir hann fékk frá Guði fyrir okkar tíma. Það er hægt að kaupa ævisöguna um líf hans hans hér á síðunni.

Viðtal við William Branham og spámannleg samkoma

“Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.” Heb 13:7-8