John Alexander Dowie var skosk-ástralskur guðsmaður þekktur sem trúboði og lækningarpredikari. Hann hóf feril sinn sem hefðbundinn prestur í Suður-Ástralíu en Guð hafði mun stærri áform í huga fyrir þennan mann sem fæddist 25.maí árið 1847. Hann átti eftir að breyta gangi trúarsögunnar á þeim 60 árum sem hann lifði og gætti áhrifa hans og þjónustu í lífi fjölmarga öflugra guðsmanna sem á eftir komu og má þar helst nefna John G. Lake.

John Alexander Dowie var mjög merkilegur maður. Ég hef tekið fram í öðrum greinum hve mikil áhrif þessi maður hafði á þeim tíma sem hann lifði á. Hann breytti trúarlífi kristinna manna með þeim hætti sem maður getur ekki ímyndað sér. Drottinn notaði nefnilega John Alexander Dowie til að koma með yfirnáttúrulega lækningu frá Guði aftur til heimsins eins og var á tímum frumkirkjunar.

Dowie fæddist inn í fátækt eins og margir af hinum sem ég hef fjallað um og var lífið erfitt. Hann lenti í miklum veikindum sem barn, og var eins með hann og William Branham, þeir áttu varla föt til að nota í skólann. Dowie lét það ekki stoppa sig heldur hélt áfram að læra og átti hann auðvelt með það, og las hann t.d. Biblíuna í gegn þegar hann var aðeins 6 ára gamall. Mjög ungur þá frelsast Dowie eða 7 ára gamall og byrjar að iðka trú sína.

Hann flytur til Ástralíu með foreldrum sínum þegar hann er 13 ára og átti hann eftir að hafa mikil áhrif á það land. Hann byrjaði að vinna en fann fyrir kalli Guðs um að hann ætti að fara út í þjónustu. Hann byrjaði að undirbúa sig fyrir þjónustuna en fór í millitíðinni til Englands til að læra og var þar í þrjú ár.

Öll þessi ár er Guð að eiga við hann og undirbúa hann fyrir þá köllun sem hann átti eftir að stíga inn í. Hann eins og margir af þeim sem ég hef fjallað um fengu sjálfir lækningu frá Guði fyrir sitt eigið líf. Það gaf honum trú fyrir því að Guð sé megnugur að lækna, en hann hafði verið að glíma við krónískar meltingartruflanir.

Eftir nokkurt skeið í Englandi þá fær hann skeyti frá föður sínum um að koma aftur til Ástralíu því eitthvað hafði komið uppá. Þar fær hann stöðu sem forstöðumaður og byrjar að stíga inn í köllun sína. Það líður ekki á löngu þar til hann  byrjar að predika hart gegn áfengi og öðrum ólifnaði og það urðu ekki allir sáttir við hans stíl, því að hann predikaði hart gegn synd.

Þið getið hlustað á hljóðupptöku með Dowie neðst í þessari grein og þá munuð þið fá smá hugmynd um hvernig hann lét heyra í sér. Enn eftir að hafa verið við þessa kirkju í Englandi um nokkurt skeið þá finnst honum hann ekki sjá nægilegan vöxt eða áhuga hjá fólkinu í að stíga lengra með Guði, svo að hann lætur af embætti sínu sem forstöðumaður í þeirri kirkju. Honum er fljótlega boðið að leiða kirkju nálægt Syndey í Ástralíu og stuttu eftir að hann tekur við þar er svarti dauði að brjótast út og byrjar að drepa þúsundir. Þar er hann algjörlega að þroti kominn, eftir að hafa jarðað í kringum 40 manns úr sínum eigin söfnuði.

Dowie var að biðja og hrópa til Guðs yfir því hvernig gæti staðið á því að þetta væri að gerast og sérstaklega fyrir fólk sem tilheyrði Jesú Kristi og var sannkristið fólk. Þá benti Guð honum á Postulasöguna 10:38, það kom ljós á ritningarstaðinn sem opinberaði honum að Guð væri læknirinn en djöfullinn kæmi með sjúkdómanna. Þegar hann var nýbúinn að fá þessa opinberun komu menn hlaupandi til hans og sögðu honum að ung kona úr söfnuðinum hans væri að deyja. Hann klæddi sig fljótt og hljóp af stað og komu þeir skömmu seinna á staðinn. Þar var unga konan við dauðans dyr. Einn maður úr söfnuðinum var þarna og Dowie sagði honum að biðja, en hann byrjaði að segja „megi Guðs vilji ná fram að ganga“ þá sagði Dowie við hann „villtu hætta þessu, þú biður ekki megi Guðs vilji ná fram að ganga um verk djöfulsins“ og byrjaði að biðja fyrir konunni. Eftir stutta stund sofnaði hún. Móðir hennar fór að gá að hvort hún væri dáin en Dowie sagði „hún lifir en farðu og sæktu handa henni eitthvað að borða og drekka“. Dowie hallaði svo sér yfir hana og vakti hana og hún var fullkomlega heilbrigð, því næst fór hann til systur hennar og bróður sem voru líka að deyja og bað og urðu þau bæði fullkomlega heilbrigð.

Þarna hefst í raun hin mikla þjónusta Dowie sem átti eftir að verða stórkostleg og hafa áhrif um allan heim. Eftir þetta dó engin úr hans söfnuði úr svarta dauða.

Dowie fór síðar til Bandaríkjanna þar sem hann hélt áfram að predika með krafti gegn syndinni. Þar var svo hart gengið að honum að hann var handtekin 100 sinnum á sama ári og látin dúsa í fangaklefa yfir nótt og gáfu þeir honum ástæðuna að hann stundaði lækningar án leyfis. Einu sinni var sprengju komið fyrir undir skrifborðinu hans en Guð lét hann vita í draumi þann morgunin að það væri setið um líf hans. Þegar hann var á skrifstofu sinni það kvöldið talaði Guð þrisvar sinnum til hans „farðu út“ Dowie lét segjast í þriðja skiptið og stuttu síðar sprakk skrifstofan í loft up. Það voru sem sagt þokkalegar ofsóknir gegn honum á þessum tíma, enda vó hann hart að áfengissölunni, syndinni og læknastéttinni. (En læknastéttin á þessum tíma var með allt öðrum hætti en hún er í dag.)

Það var ekki bara mafían sem var á móti Dowie, heldur var læknastéttin í forsvari fyrir þeim ofsóknum sem á starfinu dundi, einnig voru þar stjórnmálamenn, lögregla, blaðamenn, og fleiri sem voru á móti honum og gerðu allt sem þeir gátu til þess að hrekja hann burt úr Chicago.

Réðust þeir einnig á blaðið “Leaves of Healing” sem var blað kirkjunnar, til þess að reyna að stoppa útbreiðsluna á starfi Dowie, en Guð sá til þess að menn fengu uppskeru af því sem þeir sáðu. Þeir sem fóru gegn honum lentu illa í því og ofsóknunum linnti um skeið.

Lög voru gerð til þess að stoppa að Dowie bæði fyrir fólki og allt var reynt en Dowie varði sig sjálfur og fékk öll mál niðurfelld, yfirleitt með því að áfrýja til æðri dómstóla. Á endanum þá hrundi allt hjá ofsækjendunum. Yfirmaður fréttablaðsins í Chicago endaði í fangelsi fyrri spillingu, og ofsækjendurnir komust að því að allt streðið hjá þeim hafði orðið til þess að Dowie varð enn vinsælli. Hafði allt þeirra áreiti gefið Dowie mjög góða auglýsingu og fengust margir vitnisburðir skjalfestir í dómskjölum vegna þeirra mála sem þeir höfðu sótt gegn honum.

Eftir þetta leigir Dowie eitt stærsta hús Chicago undir samkomur og þúsundir koma til þess að heyra fagnaðarerindið og fá fyrirbænir fyrir lækningu.

Hér fyrir neðan eru tveir vitnisburðir af mörgum sem áttu sér stað á þessum tíma

Amanda Hicks náskyld frænka Abraham Lincoln ferðaðist 650 kílómetra í rúmi í lest. Hún var með óbærilega verki þjáð af ólæknandi illkynjuðu krabbameini.

Vinur hennar hafði farið til Chicago vantrúaður til þess að rannsaka þessar guðlegu lækningar sem hann hafði frétt af.  Eftir að hafa gert það ráðlagði hann Amöndu að fara í ferðina. Ferðin var ekki auðveld þar sem hún lá við dauðans dyr full af morfíni til þess að lina mestu kvalirnar. Hún lét þó verða af því og kvaddi vini og vandamenn sem álitu að þetta yrði hennar síðasta för og að þeir sæju hana ekki aftur.

Þegar hún kom fyrirskipaði Dowie að hún skyldi hætta á morfíninu áður en hann bæði fyrir henni. Þá tók við erfiður bardagi Amöndu við að trappa sig niður og á þriðja degi var hún gjörsamlega búin á því. Þá bað Dowie fyrir því að hún mætti sofna og hvílast og hún fékk frí frá kvölunum, sofnaði stuttu seinna og vaknaði ekki fyrr en um morguninn.

Eftir að hún vaknaði var hún flutt á heimili Dowie hjónanna þar sem hún var í mjög alvarlegu ástandi. Þegar Dowie bað fyrir henni fóru verkirnir samstundis og um kvöldið var hún farin að ganga um. Nokkra daga tók fyrir krabbameinið og annan óþverra að hreinsast út úr líkama hennar og á þeim dögum minkaði mittið á henni um 15 sentimetra. Styrkurinn kom fljótt og góð matarlist og fékk hún fullkomna lækningu.

Fljótlega snéri hún til baka til Clinton þar sem hún bjó og var vel tekið af vinum og vandamönnum. Spurðist um allt af lækningunni og vitnaði hún kraftaverkið hvar sem tækifæri gafst. Stuttu eftir að hún snéri aftur til starfa sem skólastjóri hjá háskólanum í Clinton sem hún hafði að miklu leiti byggt upp, var henni sagt upp vegna þess að hún talaði um að Jesús Kristur hefði læknað hana, væri frelsari og læknir síns fólks. Eftir það fór hún til Evrópu og vitnaði um það sem Kristur hafði gert fyrir hana hvert sem hún fór.

Hinn vitnisburðurinn var um konu þingmanns sem kom til Dowie, hún var að deyja úr krabbameini og læknarnir gátu ekkert gert fyrir hana. Þingmaðurinn spurði Dowie hvort það væri eitthvað sem hann gæti gert. Þessi þingmaður hafði verið mjög virtur en var kominn á eftirlaun og sá um heimili eldri hermanna ásamt konunni sinni. Dowie samþykkti að biðja fyrir henni ef hún væri tilbúin að leggja allt sitt traust á Guð og afsala öllu trausti á mönnum. Hún samþykkti það og Dowie bað fyrir henni og samstundist fékk hún lækningu. Hún vitnaði síðan á einni samkomunni um að hún hefði lagt allt sitt traust á Guð þar sem Guð hefði læknað hana og að nú biði mikil uppskera á heimilinu, því gömlu hermennirnir hefðu allir lofað að gefa Guði líf sitt ef hún kæmi læknuð til baka.

Ef ég reyni nú að draga mál mitt saman, þá gerast miklir hlutir á árinu 1896 til 1900, Dowie stofnar kirkju „Alþjóðlegu Kristnu Kirkjuna“ og hefst þá atburðarrás sem varð mjög öflug og hafði áhrif á alla Chicago. Kirkjan átti að byggja á sömu postulegu lögmálum og frumkirkjan hafði verið byggð á. Það var haldin ráðstefna þar sem áhugasamir komu saman til þess að ræða um þessi áform og kirkjan var stofnuð og mikið starf fór af stað.  Hópur sem var um 3000 manns fóru tveir og tveir saman í hús í Chicago og kallaðist sá hópur (hinir sjötíu).

Svar Dowie þegar einn af bræðrunum segir hann vera postula og einn af þeim mestu á síðari tímum

DR. DOWIE: Ég hef enga aðra trú en að bróðir Calvery hafi sagt þetta í þeirri fullu hreinskilni sem alltaf hefur fylgt honum, og að hann sé ekki sekur um neitt smjaður. En ég er líka alveg hreinskilinn þegar ég segi án falskrar auðmýktrar frá hjartanu, að ég held að ég hafi ekki náð nógu djúpri sannri auðmýkt; að ég ekki heldur hafi náð nógu djúpu lítillæti, né náð að deyja nóg sjálfum mér, fyrir það mikla embætti að vera postuli á sama hátt og sá sem sagði og meinti það „Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli.(1Kor 15:19)“  En ef minn góði Drottinn gæti nokkurn tíma komið mér nógu lágt og djúpt í lítillæti og hjálpað mér að deyja sjálfum mér nóg til að verða það sem ég svo sannarlega vill vera, og vona að hluta að ég sé „þjónn þjóna Drottins.“ En þannig ætti ég að verða postuli með því að verða þjónn allra.

Að verða postuli er ekki spurning um að rísa hátt, heldur að ná að lægja sig nógu mikið. Það er ekki spurning um að verða Drottnari yfir Guðs arfleifð, heldur að maður kallaður til að verða postuli nái að lægja sig nógu mikið til þess að segja djúpt frá hjartanu, þau orð sem Páll sagði „Það orð er satt, og í alla staði þess vert, að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn, og er ég þeirra fremstur.“(1 Tím: 1:15)

Svo heldur hann áfram neðar og segir

Kraftur í Kirkjunni sést á því, að maður fer lægra, lægra, lægra og lægra þangað til að hann getur sett anda sinn, sál og hold undir eymdina og við fætur synda- og sjúkdómsbölvaðs mannkynsins og lifað og dáið fyrir það, og fyrir Þann sem sem lifði og dó fyrir það.

Þetta er það sem ég skil um postulega embættið.

Það líður ekki á löngu áður en miklar ofsóknir byrja gegn starfinu og það verður svo alvarlegt að menn eru fengnir til þess að drepa Dowie. Þetta hófst vegna þess hve hart Dowie talaði gegn læknastéttinni og gerði ein ræðan sem bar titilinn (læknar, dóp, og djöflar) útslagið.

Læknar og læknanemar tóku sig saman og söfnuðust saman í þúsundum gegn Dowie og kirkjunni. Þvílíkar óeirðir urðu þar sem lögreglan handtók marga og beitti kylfum frjálslega til þess að reyna að stilla til friðar. Dowie og hans fólk slapp ómeitt í þetta sinn en ástandið átti eftir að magnast. Stuttu seinna hafði hópur af mönnum tekið saman ráð um að drepa Dowie og réðust þeir að honum með steinum, bareflum og öðrum vopnum. Fylgjendur hans byggðu varnarmúr í kringum hann og komust þau í burtu naumlega. Engin slasaðist alvarlega, en þónokkuð var um skurði og minniháttar meiðsli og skarst Dowie til dæmis á eyra og hnakka.

Stuttu seinna bárust fréttir af því að 200 menn hefðu tekið sama ráð um að drepa Dowie á nýjan leik þegar hann myndi predika á stað sem hét Oak Park. Þeir ætluðu að berja hann í höfuðið með einhvers konar bareflum til þess að það yrði ómögulegt fyrir lögregluna að komast að því hver hefði gert það. Mikið af fólki safnaðist saman, aðallega ungt fólk og var mikið hrópað að honum. Lögreglan var á staðnum og um miðnætti voru flestir farnir. Þessi hópur sem ætlaði að drepa Dowie hafði skipt sér niður í nágrenninu til þess að ná honum, en lögreglan fullvissaði Dowie um að allir væru farnir. Dowie grunaði eitthvað og kallaði til bæna og föstu þá nóttina í samkomuhúsinu. Það var síðan seint um nóttina að lögreglan úr hans hverfi í Chicago kom og bauðst til að fylgja þeim öllum heim.

Það gekk á ýmsu en Dowie treysti ávallt Guði, en nú var ný hugsjón að fara að líta dagsins ljós og var hún ein sú stærsta sem nokkur þjónn fagnaðarerindisins hefur framkvæmt. Zion City eða borgin Zion var það sem Dowie sá fyrir sér og átti það að verða borg sem myndi rúma 50.000 manns. Þar áttu reykingar, drykkja, dansleikir, leikhús og allt sem var að heiminum ekki að vera. Heldur átti þetta að vera griðastaður á jörðinni þar sem syndin fengi ekki að búa. Þetta varð að veruleika til að byrja með en það stóð stutt, það voru keyptir 6000 hektarar af landi og ruðst í framkvæmdir.

Á þessum tíma voru þúsundir sem fylgdu Dowie, en þarna voru nokkrir orðnir áhyggjufullir um Dowie og það voru helst nákomnir vinir og fylgjendur sem höfðu fylgt honum í mörg ár. Það að Dowie ætlaði einn að sjá um alla stjórnsýslu í Zion City og sjá til þess að allt væri eins og það ætti að vera olli þeim áhyggjum, en einnig sáu þeir hversu mikið álag var orðið á honum vegna allra þeirra verkefna sem voru í gangi. En að reka borg sem engin synd á að vera í er ekki auðvelt verkefni og sjáum við hversu stutt samfélagið lifði í frumkirkjunni með þessum hætti, á tímum Ananías og Saphiru. Fræðimenn telja að það hafi líklega ekki ennst nema eitt ár áður en halla fór undan fæti.

En þá komum við að þeim tímapunkti sem markaði mikil skil. Dowie hafði fengið heimsókn löngu áður frá tveimur mönnum sem sögðu að Guð hefði sýnt þeim í gegnum opinberun að Dowie væri  endurreisarinn Elía sbr. Mal 4 kafla. Á þeim tíma ávítaði Dowie þá harðlega fyrir falskar opinberanir og rak þá á dyr. En þetta virtist fylgja honum og með tímanum þegar þjónustan efldist og stórir hlutir fóru að gerast lýsti hann því yfir að hann væri endurreisarinn Elía, þetta var árið 1901.

Leiðtogar út um allan heim fréttu þetta, og gáfu út yfirlýsingar að hann væri í villu, væri falskur og þar fram eftir götunum.

Þetta var stór ákvörðun að gefa út svona yfirlýsingu. Þegar við skoðum líf Jóhannesar skírara sem kom fram í anda Elía. Þegar hann var spurður hvort hann væri Elía sagði hann „nei“, en sagði frekar „ég er rödd hrópanda í eyðimörkinni“. Drottinn Jesús sjálfur gaf heldur ekki út svona yfirlýsingar að hann væri Messías heldur spurði lærisveinanna „hvern segja menn mig vera“ og þegar hann hafði verið tekinn og var spurður hvort hann væri Kristur, sonur hins lifanda Guðs, þá svaraði hann „þú sagðir það“. Þannig sjáum við að svona yfirlýsing var kannski ekki það heppilegasta í stöðunni enda hafði hún afleiðingar.

Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu sem margir hafa notað gegn Dowie. Þá er ekki hægt að horfa fram hjá því að það er margt í lífi Dowie og hans þjónustu sem vitnar með að hann hafi starfað í anda og krafti Elía. Hann kom fram með undrum og táknum, hann þrumaði gegn syndinni, spáði, og bað tvívegis fyrir regni þar sem Guð hreinlega vitnaði með Dowie fyrir þúsundum að hann væri sendur í anda og krafti Elía, en hér fyrir neðan getið þið lesið um það.

Fyrra skiptið var þegar Dowie fór í trúboðsferð um heiminn og kom til Kaliforníu 1906. Þar hafði verið þurrkur í 8 mánuði og var veruleg þörf á regni, akrar voru að eyðileggjast og afkoma fólks í mikilli hættu. Um leið og Dowie kom byrjuðu blöðin strax að koma með áskoranir á Dowie, þar sem hann segði sig vera endurreisarann Elía að biðja Guð um regn. Elía í biblíunni hafði haft það vald og vildu allir ólmir komast að því hvort Dowie myndi geta það líka. Margar fyrirsagnir komu í blöðunum sumar alvarlegar en sumar gerðu grín um hvort Dowie myndi biðja um regn.

Þegar samkoman hófst þá var mikil eftirvænting hjá fólkinu sem hafði safnast saman í þúsundum í eftirvæntingu um hvort Dowie myndi biðja Guð um regn. Ef að hann myndi gera það og ekkert myndi gerast þá væri það sannað að hann væri ekki Elía. En ef að hann myndi ekki gera það þá væri það jafnvel verra því þá liti út eins og hann trúði því ekki sjálfur. Áður en samkoman hófst kraup Dowie niður og bað einlæglega Guð um að gefa regn, að landið þyrfti á regni að halda og að Guð mætti vitna með því að hann væri sendur í anda og krafti Elía.

Fljótlega eftir bænina byrjaði að þykkna upp, grá ský mynduðust og þegar að samkoman var búinn og fólkið fór að streyma út var komin grenjandi rigning. Þetta gerðist svo aftur þegar að Dowie kom til baka til Zion eftir 6 mánaða ferðalög. Fólkið hafði að sjálfsögðu frétt að því sem hafði gerst í Kaliforníu og það var einmitt búinn að vera þurkur hjá þeim í þrjá mánuði og það bað Dowie um að biðja sem hann gerði það og aftur rigndi.

Síðar þegar Dowie var við dauðans dyr komu þónokkrir sjúkir til hans, sem hann bað fyrir og allir læknuðust, svo kraftur Guðs var alltaf með honum.

Hann spáði því árið 1897 að það yrði hægt að tala í gegnum útvarp og einnig árið 1904 að það hlyti að verða hægt að sjá mynd af þeim sem myndi tala með hjálp rafmagnsins

Þegar líða fór á 20 öldina fór að halla undan fæti í þjónustunni. Fjármál Zion City voru mjög illa stödd og svo gerðist það einn örlagaríkan dag að Dowie fékk slag, sem varð til þess að heilsa hans hrakaði hratt. Vinir og ráðamenn Dowie neyddust til að taka sig saman og setja Dowie frá völdum til þess að bjarga fjármálum borgarinnar. Tók þá við atburðarrás þar sem málunum var bjargað að einhverju leiti, en margt fólk tapaði þeim peningum sem það hafði átt í Zion bankanum.

Heilsu Dowie hrakaði hratt og lifði hann síðustu vikurnar og daganna í Zion City. Þeir sem komu og heimsóttu hann heyrðu og sáu að þrátt fyrir vonbrigði, og hrakandi heilsu þá var Guð með honum og Guðlegur friður hvíldi yfir.

John Alexander Dowie dó 9. mars 1907, eftir að hafa verið notaður af Guði til þess að endurreisa á nýjan leik guðlega lækningu til heimsins. Út frá starfi Dowie og Zion city læknuðust þúsundir. Einnig spratt fram mikið Guðs fólk sem hafði áhrif á heiminn.  Má þar nefna John G. Lake, F.F. Bosworth, og fleiri. Útvarpsstöð sem náði um allt landið fæddist í Zion og áhrif þjónustunnar í heild sinni getum við aldrei vitað. Höfundur bókarinnar sem ég er að gera þennan úrdrátt úr hét Gordon Lindsey og hitti hann margt fólk sem hafði verið í Zion og spurði það um þessa tíma. Margir höfðu tapað miklum peningum og þar á meðal foreldrar hans sem höfðu einmitt búið þar. Heyrði hann á því fólki sem hann talaði við að að það hefði ekki viljað sleppa því að fara til Zion, þrátt fyrir að hafa tapað peningum því þau eignuðust hluti í Guði sem voru langtum dýrmætari en veraldlegar eignir þessa heims.

Við getum séð með því að kynna okkur líf Alexander Dowie að Guð er miklu stærri heldur en við gerum okkur grein fyrir og að hans hugsanir eru miklu hærri og meiri en okkar hugsanir. Við skulum því vara okkur á því að dæma það sem við skiljum ekki, en miklu fremur læra af þeim fordæmum sem okkur eru gefin og heiðra það sem Guð hefur gert.

Því hver erum við að setja okkur á háan hest og dæma líf annarra þegar að við getum á engan hátt sett okkur inn í kringumstæður, áhrif, kraftaverk, árásir og stærð þeirra hluta sem Alexander Dowie og fleiri lifðu í.

Heimildarmynd um John Alexander Dowie

Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra. Heb 13:7

Heimildir: John Alexander Dowie – A Life Story of Trials, Tragedies and Triumphs – Eftir Gordon Lindsey